Trygve Thorson, starfsmaður hjá mannréttindasamtökunum Læknar án landamæra, hefur unnið hjá þeim í um fjögur ár og var staddur á Læknadögum í vikunni til að kynna starfsemina.
Kjarninn ræddi við Trygve um samtökin, hver tilgangur þeirra sé og hvernig hægt sé að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt með áherslu á mannréttindi og hefur sjálfur sinnt verkefnum um heim allan á vegum samtakanna. Hann segir starfið krefjandi og erfitt en um leið gefandi.
Læknar án landamæra hafa verið starfandi frá árinu 1971 og hafa samtökin hjálpað fólki hvaðanæva úr heiminum á þessum tíma, í mörgum heimsálfum við ýmsar aðstæður. Þetta eru alþjóðleg samtök og með þeim stærstu á sínu sviði.
Læknar og blaðamenn tóku höndum saman
Franskir læknar stofnuðu samtökin í samstarfi við blaðamenn þar í landi og er tilgangur Lækna án landamæra annars vegar að hjálpa fólki og hjúkra og hins vegar að vekja athygli á því ástandi sem ríkir á þeim svæðum sem þau sinna.
Samtökin einblína á svæði þar sem neyðarástand ríkir og þar sem heilsugæslu er þörf. Þau bjóða fram þjónustu til þeirra sem þurfa á að halda, til að mynda íbúa í stríðshrjáðu landi eða á hamfarasvæðum. Eða á stöðum þar sem sérstakar aðstæður eru, þar sem stjórnvöld á staðnum ráða ekki við aðstæður.
Í sumum löndum sinna samtökin stórum verkefnum þar sem áherslan er á HIV eða alnæmi. Eða á fleiri sjúkdóma sem eru erfiðir viðfangs eða jafnvel faraldra ýmiss konar, kóleru, mislinga eða eitthvað slíkt. Þetta eru sérstök heilbrigðisvandamál en aðalstarf læknanna verður til vegna mannanna verka á borð við átök eða stríð. Jafnframt er brugðist við náttúruhamförum eins og flóðum eða hvirfilbyljum.
Þurfa fólk með ólíka reynslu og menntun
Fjöldi fólks vinnur hjá Læknum án landamæra víðs vegar að úr heiminum. Samkvæmt tölum frá árinu 2016 starfar fólk frá rúmlega 70 löndum hjá samtökunum sem vinna að yfir 460 verkefnum. Um 40.000 manns vinnur hjá samtökunum og um 3200 manns yfirgefur heimaland sitt til að hjálpa fólki í neyð út um allan heim. Flestir starfa þó í heimalandi sínu.
Trygve segir að ákveðins misskilnings gæti varðandi samtökin og að margir haldi að læknismenntað fólk vinni einungis fyrir þau. Sú sé ekki raunin því um 50 prósent þeirra sem vinna þar eru með aðra reynslu eða menntun. „Til þess að koma öllum verkefnum á koppinn þá þarftu margs konar fólk til að vinna að þeim. Sum verkefnin eru á afskekktum stöðum og þá þarf stundum að flytja inn allt sem við þurfum. Við þurfum allt frá hönskum til lyfja og greiningartækja. Og við þurfum farartæki til að flytja allt sem við þurfum þangað,“ segir Trygve.
Þannig þurfi einnig að útbúa orkulínur svo hægt sé að nota rafmagn á spítölum þeirra á sumum stöðum og þess vegna þurfi hópurinn að vera fjölbreyttur sem vinnur hjá samtökunum, allt frá verkfræðingum til bókhaldara og stjórnenda. „En þú getur komið í samtökin sama hver bakgrunnur þinn er,“ bætir hann við.
Einnig mikilvægt að fræða fólk
Trygve segir að þau vilji helst ekki gera upp á milli verkefna sinna, þau séu öll mikilvæg en nú séu þó gríðarlega stór verkefni í Suður-Súdan og Jemen. Þar er ástandið alls ekki gott og þörf heimamanna fyrir aðstoð mikil. Hann var sjálfur í Jemen fyrir ári síðan þar sem hann lýsir aðstæðum sem hryllilegum. Einnig hafi aðstæður Róhingja í Bangladesh farið hríðversnandi eins og fram hefur komið í fréttum síðastliðið ár. Þá sé og mikil neyð í Sýrlandi og Írak eftir stríð síðustu ára og áratuga.
Við vonum að þegar fólk geri sér grein fyrir þeim sársauka sem sjúklingar okkar þurfa að ganga í gegnum þá muni það leiða af sér breytingar.
Trygve segir að ekki sé síður mikilvægt markmið samtakanna að fræða fólk um ástandið í heiminum og tala um hluti sem færri vita um. „Þegar MSF var stofnað voru ekki mörg samtök að gera það; að vekja athygli á þeim aðstæðum sem þau vinna við,“ segir hann. Með því að fræða fólk sé hægt að þrýsta á stjórnvöld í landinu til að bregðast við og jafnvel alþjóðasamfélagið.
„Við vonum að þegar fólk geri sér grein fyrir þeim sársauka sem sjúklingar okkar þurfa að ganga í gegnum þá muni það leiða af sér breytingar. Það er þó auðvitað ekki eins auðvelt og það hljómar,“ segir hann.
Allur mannauður mikilvægur
Til þess að ganga til liðs við samtökin er hægt að sækja um starf á vefsíðu þeirra. Trygve segir að mannauður sé mjög mikilvægur fyrir Lækna án landamæra og þess vegna þurfi þau alltaf nýtt fólk með metnað fyrir slíku starfi. Þau þurfi sérfræðinga á sviði læknavísinda en einnig fólk sem tilbúið er að hjálpa til. Mikilvægast sé að fá fólk með áhuga á þessum málefnum og sem er drifið til að hjálpa til í erfiðum aðstæðum.
Vinnan er oft langt að heiman og getur hún verið mjög krefjandi, að sögn Trygve. Aðstæður geta þannig verið erfiðar en hann segir að starfið geti aftur á móti verið mjög gefandi. „Maður vex í starfi og lærir mikið,“ segir hann og bætir við að í starfinu hafi hann kynnst fjölda fólks náið og ferðast til landa sem hann bjóst aldrei við að fara til á ævinni.
Erfitt að snúa til baka
Áskorunin fyrir starfsmenn Lækna án landamæra liggur ekki síst í því að snúa aftur til heimahaganna. Trygve segir að erfitt geti reynst að koma til baka frá sumum þeirra staða sem starfsmennirnir fara. Margt stingi í stúf og geti það ollið ákveðnu menningaráfalli. Stundum taki því svolítinn tíma að koma sér aftur inn í aðstæður í heimalandinu eftir verkefni.
„Við viljum að fólk fari í fleiri en eitt verkefni. Við þurfum einnig fólk með reynslu til að vinna fyrir okkur og með okkur,“ segir hann. Einnig sé mikilvægt að taka sér hlé á milli verkefni til að tengjast aftur fjölskyldu og vinum.
Hann bætir því við að aldrei sé fólk sent í svo erfiðar eða hættulegar aðstæður að því stafi hætta af. Alltaf sé fólk kallað heim ef grunur liggur á að um lífshættulegar kringumstæður sé að ræða.
Samtökin þurfa að vera óháð
„Við trúum því að hver einasta manneskja í heiminum eigi rétt á heilbrigðisþjónustu,“ segir Trygve. Ekki skipti máli hvort hún sé hermaður eða almennur borgari, frá hvaða þjóð eða hvers trúar. Stjórnmálin skipti ekki máli eða efnahagur fólks.
Fólk eins og þú og ég gefa peninga í samtökin og árið 2016 fengum við 6,1 milljón manns um heim allan til að láta af hendi fjárframlög.
Til þess að vera hlutlaus þá þurfa samtökin að vera sjálfstæð, segir hann. Með því á Trygve við að þau þurfi að vera ópólitísk og óháð trú, peningaöflum og valdafólki sem gæti haft áhrif á starfsemi þeirra. Þess vegna koma 95 prósent af tekjum þeirra frá einstaklingum sem gefa peninga í samtökin en ekki frá fyrirtækjum eða stjórnvöldum einstakra ríkja. „Fólk eins og þú og ég gefa peninga í samtökin og árið 2016 fengum við 6,1 milljón manns um heim allan til að láta af hendi fjárframlög,“ segir Trygve. Það skipti sköpum.
Samtökin verða með kynningarfund á Kex hosteli við Skúlagötu þann 24. janúar næstkomandi kl. 20 til 21:30. Fyrsti fundurinn var þann 17. janúar og fór mætingin fram út væntingum, að sögn skipuleggjenda. Þau leita nú að fjölbreyttum hópi fólks, fólki með ólíkan bakgrunn og starfsreynslu.