Í þá tíð… Grunnurinn að réttindahreyfingu lagður eftir hræðilega árás

Recy Taylor var nauðgað af hópi manna í Alabama á fimmta áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir játningar voru nauðgararnir ekki sóttir til saka. Recy lést fyrir skömmu í hárri elli, en Oprah Winfrey rifjaði upp mál hennar og hugrekki nýverið í magnaðri ræðu.

Recy Taylor var numinn á brott og nauðgað af hópi manna í Alabama árið 1944.
Recy Taylor var numinn á brott og nauðgað af hópi manna í Alabama árið 1944.
Auglýsing

Sjaldan hefur verið eins áhugavert (les. frústrerandi og sorglegt, en um leið hughreystandi) að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni í Bandaríkjunum eins og einmitt núna. Á meðan hatursorðræða grasserar allt upp í efstu lög samfélagsins og almennt óþol fólks fyrir skoðunum sem eru á skjön við þeirra eigin heimsmynd virðist vera að aukast, er ekki laust við að örli á skímu við sjóndeildarhring.

Síðustu misseri hafa komið fram fjölmörg sorgleg og erfið mál sem tengjast kerfisbundnu ofbeldi og misrétti sem hafa sært fram langþráða og nauðsynlega, en jafnframt erfiða, umræðu og uppgjör. Fremst má annars vegar telja hreyfinguna sem kennd er við #BlackLivesMatter sem tók á kerfislægum fordómum og ofbeldi lögreglu gagnvart blökkufólki, og hins vegar #MeeToo byltinguna gegn kúgun, misrétti og ofbeldi gegn konum og stúlkum, sem stendur enn sem hæst. 

#MeeToo á upptök sín í afhjúpunum innan kvikmyndageirans og það var einmitt á þeim vettvangi sem viðfangsefni þessa pistils kom fram, í brennipunkti milli þessa tveggja málaflokka.

Auglýsing

Í innblásinni þakkarræðu sinni á Golden Globe hátíðinni um síðustu helgi minntist Oprah Winfrey á mál Recy Taylor, blökkukonu frá Alabama sem var rænt og nauðgað af hópi hvítra manna árið 1944. Þrátt fyrir hótanir lét hún ekki þagga niður í sér heldur barðist fyrir því að mennirnir sem brutu á henni skyldu fá að svara til saka.

Samfélag skilgreint af misrétti og fordómum

Oft er talað um þrælahald, og tregðuna við að afnema þann hrylling, sem erfðasynd Bandaríkjanna. Þrælahald var ekki afnumið með lögum fyrr en árið 1865, langt á eftir ríkjum Evrópu. Í nokkur ár eftir að borgarastríðinu lauk var lögum um borgararéttindi þeldökkra, til jafns við hvíta, framfylgt með hervaldi í Suðurríkjunum. 

Árið 1877 urðu hins vegar vatnaskil þar sem Suðurríkin fengu svo gott sem frítt spil til að reka hreinræktaða aðskilnaðarstefnu með lögum. 

Upp frá þessu og fram til ársins 1954 er talað um tíma „Jim Crow-laga“ í Suðurríkjunum. Þá var fært í lög að mismuna mætti gegn blökkufólki, meðal annars með því að takmarka kosningarétt þeirra, og aðgang að ýmiskonar aðstöðu og þjónustu. Frægt er að þeldökkir máttu ekki sitja fremst í strætisvögnum og mismunandi salerni og drykkjarbrunnar voru fyrir hvíta og dökka. 

Fyrir utan lögin sem staðfestu misréttið, voru ýmis konar samfélagslegar hömlur til staðar til að halda yfirburðum hvítra í horfinu. Samtök eins og KKK óðu uppi með ógnunum, ofbeldi og aftökum án dóms og laga, sem voru til þess fallin að troða niður vonir þeldökkra um að sækja sér tækifæri í atvinnulífi, menntun eða samfélaginu almennt. 

Eins og oft vill verða í aðstæðum sem þessum, voru það komur og stúlkur sem máttu þola hvað mest óréttlæti og mismunun. Kynferðisofbeldi er ákveðinn fasti þegar kemur að kúgun á þjóðfélagshópum og það gilti sannarlega um blökkukonur á Jim Crow-árunum þegar kom að því að undirstrika yfirráð hvítra karla. 

Numin á brott á leið heim úr kirkju

Þetta var veruleikinn sem Recy Taylor fæddist inn í og lifði við í Abbeville í Alabamaríki. Hún var kjarnakona sem gekk sex systkinum sínum í móðurstað aðeins sautján ára gömul, eftir að móðir þeirra lést. Dag einn í september árið 1944, þegar Recy var 24 ára gömul, var hún gangandi á leið heim úr kirkju samferða vinkonu sinni og syni hennar. Eiginmaður Recy og ung dóttir þeirra biðu heima.

Þá er bíl ekið upp að hlið göngufólksins. Í bílnum voru sjö ungir menn, allir vopnaðir, og fyrir þeim fór Herbert nokkur Lovett. Piltarnir sökuðu Recy um að hafa ráðist á tiltekinn mann með hnífi, ásökun sem var hreinn þvættingur, ógnuðu henni með byssu og neyddu hana inn í bílinn til þeirra.

Þeir óku henni á afvikinn stað í nágrenninu þar sem þeir skipuðu henni að afklæðast. Recy neitaði og grátbað um að fá að fara heim til dóttur sinnar og eiginmanns. Piltarnir urðu ekki við því, heldur neyddu hana úr fötunum og komu fram vilja sínum við hana. „Láttu eins og þú sért með manninum þínum eða ég sker þig á háls!“ skipaði Lovett. Sex þeirra nauðguðu Recy, fyrrnefndur Lovett, Hugo Wilson, Dillard YorkLuther Lee, Joe Culpepper og Robert Gamble. Aðeins hinn 14 ára Billy Howerton, sem þekkti til Recy, tók ekki þátt. 

Eftir ódæðið bundu þeir fyrir augun á Recy og köstuðu henni út úr bílnum skammt frá. Hún hafði svarið og sárt við lagt að hún myndi ekki segja neinum frá því sem átti sér stað, en um leið og hún kom heim sagði hún manni sínum og fjölskyldu alla söguna. 

Lögregla og dómstólar brugðust þrátt fyrir játningar

Í samtali við lögreglu gat Recy ekki sagt hverjir höfðu verið að verki, en hún lýsti bílnum svo vel að það fór ekki á milli mála um hvern var að ræða. Í kjölfarið gat hún bent á nauðgarana, en þeir sögðu að þó samræði hafi átt sér stað hafi þau verið með hennar vilja og þeir hafi greitt henni fyrir.

Lögreglustjórinn fór ekki lengra með málið og yfirheyrði mennina ekki einu sinni. Hins vegar vakti kæran mikil viðbrögð í sveitinni og fjölskyldan sætti árásum og öðrum ofsóknum.  Meðal annars var reynt að skemma mannorð hannar og henni úthúðað sem lauslætisdrós. 

Recy var gift og átti þriggja ára dóttur. Öryggi fjölskyldunnar var sífellt ógnað á meðan hún leitaði réttlætis og í mörg ár á eftir.Fréttir af málinu bárust víðar, meðal annars til skrifstofu NCAAP, réttindasamtaka þeldökkra, þar sem Rosa nokkur Parks var send af stað til að gæta hagsmuna Recy. Parks varð síðar fræg fyrir að storka lögum þegar hún settist fremst í strætisvagn rúmum áratug síðar.

Lögreglan brást ókvæða við aðkomu Parks að málinu. Þeir vildu enga „vandræðagemsa“ í sveitina.

Mál var reyfað fyrir kviðdómi (Grand Jury), en þá lá ekkert fyrir nema vitnisburður Recy. Kviðdómurinn, sem var skipaður eintómum hvítum körlum var fljótur að úrskurða að ekki skyldi ákært í málinu.

Í kjölfarið lögðu Parks og félagar hennar í herferð til að þrýsta á um að eitthvað yrði gert í málinu. Hópar aðgerðasinna, kvenréttindafélög, frægir listamenn og fleiri lögðust á eitt og fengu það í gegn að árið eftir var annar kviðdómur kallaður til – sem fyrr, bara skipaður hvítum körlum.

Að þessu sinni lágu fyrir vitnisburðir frá mönnunum sem og þrugl og lygar frá lögreglustjóranum, sem voru bornar til baka af fjölmörgum íbúum Abbeville. Flestir piltarnir gengust, líkt og áður, við því að hafa haft samræði við Recy, en það hafi verið með hennar samþykki… það er að segja þar til einn þeirra lét undan og játaði allt. Lýsingar hans voru í öllu í samræmi við það sem Recy sagði hafa gerst, en eins fráleitt og það hljómar, þrátt fyrir það taldi kviðdómurinn að ekki lægju fyrir nægilega sterkar sannanir til að hægt væri að ákæra og senda málið til dómara.

Mennirnir sjö sem numu Recy Taylor á brott, svívirtu hana og nauðguðu, sluppu því allir og enginn þeirra þurfti nokkru sinni að svara til saka.

Fyrsti vísir að skipulagðri réttindabaráttu

Þrátt fyrir að svona hafi farið. Að réttlætið hafi verið fótum troðið í máli Recy Taylor, markaði málið ákveðin tímamót. Þarna var í fyrsta sinn komin skipulögð hreyfing á landsvísu til að vinna að réttindamálum þeldökkra, sem varð svo grunnurinn að mannréttindahreyfingunni sem reis upp á sjötta áratugnum undir forystu fólks á borð við Rosu Parks og Martins Luther King. 

Hvað Recy sjálfa áhrærir, þá bjó hún áfram í Abbeville í um tuttugu ár og mátti sífellt lifa í ótta um að henni eða hennar nánustu yrði gert mein. Hún flutti svo til Florida og þar sem hún bjó allt fram á efri ár þegar hana tók að bresta heilsu. Þá flutti hún aftur heim til að ættingjar hennar gætu hugsað um hana í ellinni. 

Mannréttindafrömuðurinn Rosa Parks skipulagði átak á landsvísu til að kalla eftir réttlæti fyrir Recy, en árangurslaust. Þessi hreyfing varð þó vísir að öflugra starfi sem keyrði áfram umbætur í réttindamálum þeldökkra. Recy lést nýlega í hárri elli. HúnÞað var ekki fyrr en árið 2011 – eftir að gerð hafði verið heimildarmynd um málið – sem yfirvöld í Alabama gengust við því að ákvörðunin um að sækja nauðgarana ekki til saka hafi verið „andstyggileg og ógeðfelld“. 

Hún lést svo hinn 28. nóvember síðastliðinn, rétt fyrir 98 ára afmælið sitt, og tíu dögum áður en Oprah hélt nafni hennar og hugrekki á lofti í fyrrnefndri ræðu. 

Mál Recy var alls ekkert einsdæmi á Jim Crowe-árunum í Suðurríkjunum, og jafnvel eftir að lögum var breytt til að tryggja jafnrétti kynþátta fyrir lögum héldu ofsóknir og ofbeldi, ekki síst gegn konum, áfram. 

„Mörgum konum var nauðgað,“ sagði Recy í viðtali í fyrrnefndri mynd. „En fólkið þarna, það var eins og þeim væri sama um hvað kom fyrir mig, og þeir gerðu ekkert í því. En ég gat ekki gert annað en segja sannleikann um hvað þeir gerðu mér.“

Allt fram til okkar daga eru hópar sem vinna kerfisbundið að því að draga úr áhrifum þeldökkra og annarra minnihlutahópa, með lagaklækjum og stofnanabundið misrétti er enn við lýði. Það sem vekur hins vegar von er að nú er unnið gegn þöggun, gengist við staðreyndum, sem er grundvöllurinn að framþróun í átt að jafnrétti og réttlæti. Recy og aðrar konur sem buðu valdhöfum og samfélaginu byrginn til að standa fyrir sínu vörðuðu þessa leið sem við erum á.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og sonur hans, Baldvin Þorsteinsson, er yfir Evrópuútgerð Samherja.
Norskur ráðherra segist ekki sjá ástæðu til að hjálpa Samherja að safna meiri kvóta
Norsk stjórnvöld hafa gripið formlega til aðgerða vegna tilraunar Samherja til að komast yfir aukin fiskveiðikvóta þar í landi. Reglur verða hertar og fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þar í landi verða bundnar sérstakri heimild.
Kjarninn 9. maí 2021
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk