Tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma hefur farið vaxandi á undanförnum árum en lítið er vitað um það hvað veldur þeim. Auk þess getur verið erfitt að greina og meðhöndla sjúkdómana. Vísindamenn við háskólann í Yale kunna nú að hafa komist að því hvað veldur sjálfsofnæmissjúkdómum.
Í grein sem birt var í tímaritinu Science er bent á tengsl milli sjálfsofnæmissjúkdóma og bakteríunnar Enerococcus gallinarum, sem er að finna í þarmaflóru okkar. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins getur sjálfsofnæmissvar farið af stað þegar bakterían flyst til annarra líffæra eins og milta, lifur og eitla.
Sjálfsofnæmissjúkdómar eru hópur sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að valda langvinnum bólgum sem stafa að því að ónæmisfrumur líkamans ráðast gegn heilbrigðum vefum hans. Til eru yfir 100 sjálfsofnæmissjúkdómar, þar á meðal eru lupus og liðagigt.
Í rannsókninni voru erfðabreyttar mýs sem voru sóttnæmar fyrir sjálfsofnæmissjúkdómum notaðar til að skilja betur þennan hóp sjúkdóma. Með því að greina bakteríur í þörmum músanna sem ollu bólgusvari og framleiðslu mótefna í líkamanum var bakterían Enterococcus gallinarum greind sem helsti sökudólgurinn.
Til að staðfesta grun sinn skoðaði rannsóknarhópurinn að auki lifrarfrumur ræktaðar úr bæði heilbrigðum einstaklingum og einstaklingum með sjálfsofnæmissjúkdóma. Í þeim hópi sem glímdi við sjálfsónæmissjúkdóm var bakteríuna að finna í ræktuðu frumunum.
Að auki þróaði rannsóknarhópurinn sýklalyf eða bóluefni gegn bakteríunni og dró það úr einkennum í músunum. Vonir standa til að hægt verði að þróa bóluefnið áfram svo úr verði leið til að meðhöndla sjálfsofnæmissjúkdóma í framtíðinni.