Geðsjúkdómar eru líklega þeir sjúkdómar sem læknavísindin þekkja síst. Ein helsta ástæða þess að þessir sjúkdómar eru svo illa skilgreindir er að þeir eiga uppruna sinn í einu flóknasta líffæri mannsins, heilanum.
Ljóst er að erfðir stjórna geðrænum kvillum að einhverju leiti og rannsóknir þar sem tengslagreiningar eru notaðar hafa borið kennsl á ákveðnar breytingar í erfðamenginu sem eru tengd geðklofa, geðhvarfasýki og þunglyndi. Þessi tiltekni erfðabreytileiki er í geni sem kallast DISC1 (Disrupted-in-Schizophrenia 1).
Til að skoða hvaða áhrif þessar breytingar í DISC1 hafa á heilann var heilastofnfrumum sem annars vegar voru með heilbrigð eintök af geninu og hins vegar báru stökkbreytt gen, komið fyrir í þrívíðri frumurækt. Þrívíð frumurækt gengur útá það að herma eftir þeim aðstæðum sem myndast í lifandi líkama svo frumurnar þroskast á sambærilegan hátt og þær hefðu gert í fóstri. Líffærin sem myndast eru að sjálfsögðu ekki fullþroska líffæri, enda er hér aðeins um frumurækt að ræða, en ekki raunverulegan líkama. Frumurnar mynda þó vef sem líkist heilaberki og mætti kalla míní-heila eða heila-líki.
Þegar bornir voru saman míní-heilar sem voru með heilbrigð eintök af DISC1 og þeir sem báru DISC1 stökkbreytingu kom í ljós að þeir sem báru stökkbreytinguna voru með aukna virkni í boðleið sem kennt er við WNT prótínið. DISC1 stökkbreytingin leiddi til þess að heilafrumurnar mynduðu ekki fulla heilabyggingu, samanborið við heilbrigðar heilastofnfrumur.
Til að skoða hvort WNT boðleiðin bæri ábyrgð á þessum mun, prófaði hópurinn að bæta WNT hindra útí frumuræktina. Þegar það var gert, var virkni WNT boðleiðarinnar sambærileg við heilastofnfrumurnar sem ekki báru DISC1 stökkbreytinguna og þá var bygging míní-heilanna svipuð milli frumurækta.
Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að DISC1 genið hafi áhrif á myndun geðsjúkdóma í gegnum WNT boðleiðina. Það sem meira er, þá gæti þessi fyrrnefnda boðleið verið mögulegt lyfjamark til að koma í veg fyrir eða meðhöndla geðsjúkdóma sem gætu þróast í einstaklingum með stökkbreytingu í DISC1 geninu.
Næstu skref eru auðvitað að staðfesta þessar niðurstöður í einstaklingum, áður en hægt er að þróa lyf sem er sérhæft fyrir þennan hóp. Frumuræktir eins og hér er lýst munu án efa koma meira við sögu við skilgreinar á hlutverkum ákveðinna gena við þroskun og uppbyggingu heilans. Skilgreiningar á því hvernig heilbrigður heili virkar eru einstaklega mikilvægar til að skilja hvað það hvað gerist þegar eitthvað fer úrskeiðis.
Fréttin birtist fyrst á Hvatanum.