Líklega hafa flestir sem umgangast börn upplifað það að vera alveg að gefast upp á orku barnanna þegar kemur að því að leika. Einhvern veginn virðast krakkar geta farið fimm þúsund sinnum í rennibrautina í sundlaugunum án þess að finna til þreytu eða þeirri heita-potts-löngun sem drífur fullorðna fólkið í sund.
Þessi óþrjótandi orka er víst ekki bara ímyndum þreyttra foreldra heldur bendir ný rannsókn til þess að lífeðlisfræði barna sé um margt betri (skilvirkari) en lífeðlisfræði fullorðinna, jafnvel afburða íþróttamanna. Rannsóknin miðaði einmitt að því að skoða fyrrnefnt fyrirbæri um óþreytandi börn í leik með því að bera saman þrjá hópa í mikilli hreyfingu.
Fyrsti hópurinn samanstóð af 8-12 ára drengjum, sem ekki æfðu neinar íþróttir að staðaldri. Hinir tveir hóparnir voru fullorðnir (19-27 ára) karlkyns þátttakakendur sem annars vegar voru í mjög góðu líkamlegu formi og hins vegar, eins og drengirnir, stunduðu enga líkamsrækt. Þessir þrír sjálfboðaliðahópar voru allir látnir hreyfa sig af krafti á meðan fylgst var með ýmsum líkamlegum þáttum.
Þeir þættir sem voru skoðaðir til að meta líkamlegt ástand þátttakenda voru hjartsláttur, súrefnisupptaka og losun þess sem kallað er mjólkursýra og myndast við loftfirrð efnaskipti. Í öllum tilfellum komu mælingar drengjanna betur út en mælingar fullorðnu hópanna, hvort sem borið var saman við þann hóp sem stundaði mikla hreyfingu eða enga.
Þessi rannsókn sýnir í fyrsta lagi að við sem fullorðin erum getum hætt að láta okkur líða illa yfir því að halda ekki í við börnin okkar. Þau eru með líkamlegt forskot á okkur sem engin leið er að keppa við. Í öðru lagi sést hér að líkamar okkar breytast á kynþroskaskeiðinu á þann veg að efnaskipti okkar taka stakkaskiptum. Þannig undirstrika þessar niðurstöður hið gamla góða að hreyfing er ekki bara holl og góð heldur nauðsynleg, sérstaklega fyrir fullorðið fólk.
Vonandi verður áframhald á þessari rannsókn þar sem hægt verður að meta hvaða ferlar það eru sem viðhalda þessari lífeðlisfræði í börnum. Mögulega er hægt að nýta slíkar upplýsingar til að draga úr líkum á lífstílstengdum sjúkdómum eins og sykursýki týpu tvö eða hjarta- og æðasjúkdómum. Það verður spennandi að fylgjast með.