Þó bakteríur hafi ekki alltaf gott orð á sér þá samanstendur líkami okkar af stórum hluta af slíkum frumum. Við búum í mjög mikilvægu samlífi með alls kyns bakteríum á og í líkama okkar sem sífellt er að sanna gildi sitt betur.
Bakteríuflóran í meltingarfærum okkar spilar lykilhlutverk í líðan okkar og hefur áhrif á þróun fjölmargra sjúkdóma. Samsetning örveruflórunnar ræðst af miklu leyti af lífsstíl okkar eins og hvað við setjum í okkur og á og hvort við stundum reglulega hreyfingu. Jafnvel búseta getur haft áhrif á bakteríurnar.
Ný rannsókn sem birt var í Cell Reports sýnir að búseta hefur áhrif á örveruflóru. Viðfangsefni rannsóknarinnar voru Nígeríubúar sem annars vegar búa í borg og hins vegar í sveit. Rannsóknin náði til bæði smábarna og fullorðinna og gefur hún því mun ítarlegri sýn á myndun örveruflórunnar en svipaðar eldri rannsóknir.
Þegar örveruflóra og efnaskiptaeiginleikar einstaklinga frá sveit og borg voru metin kom í ljós að mikill munur var á örveruflórunni sem endurspeglaðist í þeim landsvæðum sem þau bjuggu á. Þetta átti bæði við um fullorðna einstaklinga sem og börn, undir þriggja ára aldri.
Fæðuvalið er misjafnt eftir því hvar einstaklingur býr í Nígeríu, að miklu leiti skýrist það af framboði á mismunandi fæðutegundum. Þessi munur kemur mjög skýrt fram í örveruflórunni og það mjög snemma á æviskeiðinu. Þó örveruflóran sé einnig af stórum hluta sameiginleg, milli búsvæða, eru ákveðnir bakteríuhópar sem sýna skýran mun milli einstaklinga í sveit og í borg.
Þessi rannsókn sýnir að örveruflóran skilgreinist mjög snemma á lífsleiðinni og að lífsstíll okkar getur haft gríðarlega mikil áhrif á hana. Það er mikilvægt að passa vel upp á bakteríurnar okkar, þær eru hér til að hjálpa okkur.