Þjóðfélagsbreytingar eru sífellt að eiga sé stað í samfélögum manna. Viðhorf til hjónabanda samkynhneigðra og jafnréttis kynjanna eru dæmi um viðhorf sem hafa tekið breytingum í heiminum á undanförnum árum. En hvað þarf til? Hversu margir þurfa að breyta viðhorfum sínum til að þjóðfélagsleg breyting eigi sér raunverulega stað? Samkvæmt grein sem birtist í tímaritinu Science er svarið um það bil 25%.
Sú staðreynd að þjóðfélög manna eru afar flókin viðfangsefni hefur ekki gert vísindamönnum auðvelt fyrir. Rannsóknin er síður en svo sú fyrst ekki sú fyrsta sem reynir að svara þessari spurningu og hafa niðurstöður fyrri rannsókna bent til þess að vendipunkturinn sé einhvers staðar á bilinu 10-40%.
Umrædd rannsókn tók til 10 hópa fólks sem hver innihélt 20 þátttakendur. Hverjum þátttakanda var gefin fjárupphæð í skiptum fyrir það að samþykkja ákveðið nafn á manneskju sem sýnd var á mynd. Þegar nafnið var samþykkt innan þessa tilbúna samfélags voru bandalög af mismunandi stærðum sett af stað innan hópsins með þann tilgang að reyna að breyta nafninu.
Í ljós kom að ef bandalagið samanstóð af minna en 25% af hópnum tókst ekki að breyta nafninu. Ef það var 25% eða meira tókst aftur á móti að breyta venjunni nokkuð hratt. Hvort ætlunarverk bandalagsins tókst gat munað aðeins einni manneskju í minnihlutahópnum.
Rannsóknarhópurinn lét reyna á niðurstöðuna frekar með því að bjóða þátttakendum hærri fjárupphæð til að halda sig við hið fyrir fram ákveðna nafn. Þrátt fyrir það tókst minnihlutahópi áfram að breyta nafninu innan hópsins.
Augljós vankantur á rannsókninni er sú að í raunverulegum samfélögum eru málin almennt töluvert flóknari. Höfundar rannsóknarinnar benda á að þættir á borð við það hversu rótgróin ákveðin venja er geti haft áhrif á það hvort hægt sé að breyta henni. Búist er við því að stærð minnihlutahópsins geti verið breytileg eftir því hver venjan sem reynt er að breyta er.
Niðurstöðurnar benda til þess að nokkuð litlir minnihlutahópar geti breytt viðhorfum í samfélögum. Þó breytingarnar geti verið af hinu góða benda höfundarnir á að þær geti einnig verið á hinn vegin og haft neikvæðar afleiðingar í för með sér.