Töfraganga á Ísafirði er nýr árlegur viðburður sem hefst með skrúðgöngu frá Edinborgarhúsinu og endar á fjölskylduskemmtun í Suðurtanga. Viðburðurinn er opinn öllum og er fólk hvatt til að koma í búningum, með flögg eða aðrar skreytingar sem lífga upp á gönguna. Lúðrar og trommur leiða gönguna niður í Suðurtanga.
Tilgangurinn er að fagna fjölbreytileikanum á Ísafirði. Dagskráin í Suðurtanga hefst strax að lokinni göngu með söng barna sem tóku þátt í sumarnámskeiðinu Tungumálatöfrum í þessari viku. Þau fleyta síðan trébátum á Pollinum. Að því loknu bjóða Vestfirðingar margra landa í Ísafjarðarbæ upp á matarsmökkun þar sem framreiddir eru réttir frá mörgum ólíkum löndum. Að lokum verður farið í leiki eins og snú snú, fuglafit og hennamálun auk þess sem sögustund og andlitsmálning verður í boði.
Feimin fyrsta daginn
Töfragangan sprettur upp úr Tungumálatöfrum sem er árlegt sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn. Námskeiðið er ætlað fjöltyngdum börnum og er markmið þess að búa til málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Það er hugsað fyrir íslensk börn sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börn af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi.
Isabel Alejandra Díaz verkefnastjóri segir í samtali við Kjarnann að námskeiðið hafi gengið mjög vel í ár. „Eins og í fyrra upplifðum við að börnin voru feimin fyrsta daginn, sérstaklega vegna þess að þau eru tvítyngd. Þau reyna að tala og finna orðin en þegar líður á námskeiðið fer þetta allt að koma vegna þess að þau vinna svo vel saman,“ segir hún.
Hún bendir á að eftir nokkra daga eigi börnin mun auðveldara með samskipti, þau séu opnari fyrir kennslunni og leikjunum og skemmti sér vel.
Magnað að fylgjast með börnunum
Börnin fá tækifæri til að sýna það sem þau hafa unnið að á námskeiðinu en listaverk þeirra verða til sýnis á byggðasafninu og einnig munu þau fleyta litlum bátum um helgina sem þau hafa búið til sjálf.
Isabel segir að námskeið sem þessi krefjist mikillar vinnu og að þau sem standa að því gætu ekki gert það upp á sitt einsdæmi. „Margir hafa staðið við bakið á okkur, fyrirtæki og bæjarbúar sjálfir,“ segir hún. Þá eru þrír til fjórir unglingar sem vinna sem sjálfboðaliðar og segir hún gríðarlega hjálp í þeim.
Börnin eru hvaðanæva að, til að mynda frá Póllandi, Bandaríkjunum, Englandi, Sýrlandi, Írak, Nígeríu, Danmörku og Sviss. Isabel segir þetta vera góða blöndu og að þau séu einstaklega hjálpleg við hvort annað. Hún segir algjörlega magnað að fylgjast með þessum krökkum og ekki síst þegar þau syngja saman. Þau skilji hvernig það er að eiga erfitt með samskipti og tengja þau vel saman, meðal annars vegna þess. Hún segir það vera einstaka upplifun að vinna með þessum börnum.
Eigum að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum
Kjarninn fjallaði um námskeiðið fyrr á árinu og sagði Anna Hildur Hildibrandsdóttir, ein forsvarsmanna þess, málörvun barna vera mjög mikilvæga og hægt væri að nota margbreytileika tungumálsins til að skilja hvert annað. Ekki þyrfti einungis eitt tungumál til þess.
„Við eigum líka að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum og hvetja fólk til að aðlagast. Við skulum gera það fallega og eiga í samræðu,“ sagði Anna Hildur. Hún telur mikilvægt að Íslendingar geri sér grein fyrir því að innflytjendur komi með þekkingu inn í samfélagið og að þeir mótist enn fremur af viðhorfinu sem tekur við þeim. „Ef þessi börn fá örvandi umhverfi þegar þau koma hingað til lands þá eru þau betur í stakk búin fyrir lífið.“