Einn af alvarlegum fylgifiskum aukins styrks koltvísýrings í andrúmslofti er súrnun sjávar. Flestir hafa sennilega margsinnis heyrt þessa fullyrðingu án þess kannski að fá nokkra tilfinningu fyrir því hvaða áhrif það hefur.
Súrnun sjávar mun hafa áhrif á alla íbúa hafsins, í mismiklu magni þó. Afleiðingarnar eru ekki enn að fullu þekktar, enda búa sjávarlífverur nú við ákveðið sýrustig í sínu vistkerfi sem þær hafa aðlagað sig að. En hvað gerist þegar það breytist?
Við strendur Shikine-jima í Japan er að finna lífkerfi sem verða fyrir miklum áhrifum eldfjalla. Áhrif nálægra eldfjalla eru sömu og aukinn styrkur koltvísýrings í andrúmslofti munu vera, þar sem þau dæla koltvísýring í miklu magni útí hafið. Styrkur koltvísýrings nálægt Shikine-jima er talinn vera í svipuðu magni og við munum mæla hvarvetna í hafinu innan fárra ára, verði ekkert að gert.
Þessar aðstæður gera lífkerfin nálægt Shikine-jima að fullkomnu rannsóknarefni til að skoða hvaða áhrif súrnunin getur haft. Í rannsókn sem birt var í Frontiers in Marine Science eru birtar niðurstöður rannsóknarhópa, frá Japan og Bretlandi, sem báru saman kuðunga, sjávarsnigla, af tegundinni Charonia lampas sem bjuggu annars vegar við hefðbundið sýrustig sjávar og hins vegar í súru umhverfi Shikine-jima.
Við samanburðinn komu í ljós augljós áhrif súrara umhverfis. Kuðungar sniglanna sem bjuggu í súru umhverfi voru mun þynnri, sýndu fleiri skemmdir og skorti oft felulitina sem einkenndi sniglana úr hefðbundnara umhverfi. Í stuttu máli voru sniglarnir í súra umhverfinu viðkvæmari fyrir öllu áreiti.
Þegar sniglarnir mynda skelina úr kalsíumkarbónati losa þeir út koltvísýring. Með hækkandi sýrustigi sjávar verður þetta efnahvarfi erfiðara og telja vísindahóparnir það megin ástæðu þess að kuðungarnir sem myndast í súru umhverfi eru viðkvæmari. Það kostar lífveruna einfaldlega of mikla orku að búa skelina til.
Súrnun sjávar má því líta á sem streituvald í lífi sjávarlífvera, samkvæmt þessum niðurstöðum. Streita í lífi sjávarlífveru er ekki ósvipað þeirri streitu sem við upplifum, hún getur haft áhrif á alla þætti lífveranna, m.a. getu þeirra til að nærast og fjölga sér.
Hér er einungis talað um áhrifin sem súrnun sjávar getur haft á eina tegund lífvera, en það verður að teljast ólíklegt að nokkur tegund komist ósködduð frá þeim hamförum sem vofa yfir okkur. Það er því um að gera að taka áskorun höfunda loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna og draga strax úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.