Dagný Erla Vilbergsdóttir hefur þýtt bráðskemmtilega og fræðandi barnabók um bið eftir litlu systkini og það magnaða ferli sem meðganga og fæðing er. Bókin heitir á frummálinu Da Knud kom ud og er eftir danska höfunda, annars vegar faðir drengsins sem fæðist í bókinni, Jesper Manniche, og hins vegar heimafæðingarljósmóðurina sem tók á móti drengnum, Susanne Warming og ber hún vott af húmor og léttleika Dana.
Bókin segir frá fjögurra ára stóru systur sem bíður eftir fæðingu litla bróður en það er litli bróðirinn sjálfur, Hermann, sem segir söguna. Hún segir um leið frá undirbúningi fjölskyldunnar saman og er full af góðum umræðuefnum og hugmyndum að viðfangsefnum á meðgöngu meðan beðið er eftir systkininu. Bókin er falleg saga og einstakur undirbúningur fyrir eðlilegt fæðingarferli bæði fyrir börnin og foreldrana sjálfa.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Ég rakst á þessa bók fyrir ári síðan úti í Danmörku þegar ég var á námskeiði þar fyrir doulur varðandi kennslu í fæðingarundirbúningi og varð alveg heilluð af þessari dásamlegu bók, boðskap hennar og hversu skemmtilega hún er skrifuð.
Það sem heillaði mig líka hvað mest var ekki bara hversu skemmtileg og fræðandi hún er fyrir verðandi systkini heldur líka hversu frábærum upplýsingum hún kemur líka til skila til verðandi foreldra um fæðinguna og hvað það er sem skiptir máli í fæðingunni sjálfri svo hún geti gengið sem eðlilegast fyrir sig.
Það var í rauninni það sem gerði það að verkum að mig langaði til að ráðast í að gera hana aðgengilegri fyrir íslensk börn og foreldra.
Segðu okkur frá þema verkefnisins.
Bókin er skrifuð um heimafæðingu og hugsuð sem efni til að undirbúa börn sem fá að upplifa fæðingu og er því opin og einlæg umræða í bókinni og mikill fróðleikur um líkamann en fyndinn leikur að orðum einkennir hana jafnframt.
Bók sem þessi er einsdæmi hér á landi varðandi efni til að undirbúa systkini fyrir heimafæðingu en þar sem fæðingarferlið er hið sama burtséð frá fæðingarstað er hún gott innlegg í umræður hjá fjölskyldum sem eiga von á barni hver sem fyrirhugaður fæðingarstaður er. Bókin er gott innlegg í það að börn alist upp við góðar og heilbrigðar fæðingarsögur strax í barnæsku sem verðandi foreldrar framtíðarinnar. Ekki veitir af mótvægi gegn þeim skilaboðum sem borist hafa úr heimi bíómyndanna undanfarna áratugi sem hafa því miður oftast verið á þann veg að ýta undir hræðslu við fæðingar.
Bókina má lesa fyrir börn á öllum aldri og þau munu skilja hana hvert á sinn hátt út frá þeirra þroska. Þetta er í raun bók sem á erindi við alla og flest börn hafa gaman af að lesa um eða heyra sögu um hvernig þau komu í heiminn. Bókin er sérlega skemmtilega myndskreytt og heillar unga lesendur sem aldna.