Ljótu kartöflurnar eru kartöfluflögur sem framleiddar eru úr kartöflum sem bændur eiga erfitt með að koma í verð sökum þess að þær eru skrítnar í laginu, með litla útlitsgalla eða einfaldlega vegna þess að þær þykja of stórar. Þetta eru kartöflur sem vel er hægt að snyrta til ef þess þarf og nýta. Þegar framleiðslan fór af stað höfðu kartöfluflögur aldrei verið framleiddar á Íslandi og allt kartöflusnakk á markaðnum var annað hvort innflutt eða framleitt úr innfluttu hráefni. Kolfefnisspor Ljótu kartaflanna er því mun minna en hjá sambærilegum vörum. Einnig var farið þá leið að nota einungis plast í umbúðirnar sem hægt er að endurvinna nær endalaust sé því skilað til endurvinnslu, meðan flest annað snakk er pakkað inn í umbúðir sem eru úr blönduðum efnum t.d. plasti og áli eða pappa og áli sem erfitt er að endurvinna. Það er því miður ekki hjá því komist að nota plast í umbúðir fyrir snakk enn sem komið er ef geymsluþolið á að vera meira en nokkrir dagar.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin vaknaði í Hornafirði fyrir þó nokkrum árum síðan þar sem kartöflubændur voru farnir að gera tilraunir við að rækja repju og framleiða úr henni repjuolíu. Þarna voru því komin saman tvö aðal hráefnin til kartöfluflögugerðar. Ég fór því að gera tilraunir í eldhúsinu heima sem endaði með því að ég sagði upp vinnunni minni í árslok 2016 og ákvað að hella mér alfarið út í þetta. Síðan þá hefur varan og vörumerkið verið í stöðugri þróun og nú í sumar fundum við framleiðslunni loksins varanlegt húsnæði sem við erum að taka í gagnið.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Við erum komnir vel á veg með að standsetja húsnæðið og höfum verið að endurnýja helstu tæki til framleiðslunnar. Okkur vantar hins vegar aðeins upp á til þess að geta komið vörunni í verslanir og bæta þannig enn betur nýtingu á innlendum kartöflum, þar sem okkur vantar pökkunarvél til þess að geta pakkað í neytendavænar stærri umbúðir eins og við sjáum gjarnan út í búð. Við ákváðum að fara þá leið að fara í hópfjármögnun á Karolina Fund til þess að hjálpa okkur við að fjármagna vélina. Þeir sem sjá sér fært að styrkja okkur fá að sjálfsögðu brakandi ferskar kartöfluflögur sem við handpökkum fyrst um sinn.“
Vitið þið hversu mikið er sóað af innlendu grænmeti?
„Nei við eigum ekki tölur yfir það, en það er alveg ljóst að það er hægt að nýta það mun betur. Rannsóknir sýna að um þriðjungur matvæla sem framleidd eru í heiminum enda í ruslinu og stór partur af því fer ekki í verslanir vegna útlitsgalla. Það er mikil vakning í samfélaginu og flestir matvælaframleiðendur gera auðvitað hvað þeir geta til að skapa sem mest verðmæti úr því sem þeir hafa. Stórar og útlitsgallaðar innlendar kartöflur eru t.d. nýttar til að búa til franskar og forsoðnar kartöflur. En til þess þarf að skræla kartöflurnar mikið og þar er því töluverð sóun og hægt að gera enn betur t.d. búa til óskrældar kartöfluflögur.“
Þú getur fræðst meira um verkefnið á síðu verkefnisins hér.