Linda Hartmanns er nú að taka upp sína fyrstu breiðskífu með frumsömdum lögum
og innblásturinn kemur úr öllum áttum, enda hefur hún mikla reynslu að baki. Hún
útsetur lögin sjálf ásamt því að pródúsera þau en hún hefur fengið heila hljómsveit til
að taka breiðskífuna upp með sér. Lögin eru hljóðrituð í Stúdíó Hljómi og sér Birgir
Sævarsson um upptökur og eftirvinnslu laganna. Linda er með heimasíðu og aðdáendasíðu á Facebook þar sem hægt er að fylgjast með framvindu
ferlisins, svo sem upptökur í hljóðveri og æfingar með hljómsveitinni.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Hugmyndin hefur alltaf verið til staðar í rauninni. Mér hefur bara aldrei fundist ég veratilbúin og ég vissi ekki hvers vegna fyrr en nýlega. Ástæðan var sú að mér fannst ég
ekki nógu góð. Ekki með nógu góð lög. Ekki nógu góð á píanóið. Ekki nógu góð í
söngtækni. Mér fannst ég alltaf þurfa að æfa mig meira og semja betri lög. Bar mig
alltaf saman við söngkonur í kringum mig sem mér fannst vera betri en ég. Síðan
fattaði ég hvað það var sem ég þurfti – lagasmíðar sem komu frá hjartanu án þess að
vera svo upptekin af hvað öðrum fyndist. Um leið og ég áttaði mig á því þá breyttist
mín sýn á eigin lagasmíðar. Ég fór að semja texta um mjög persónulega hluti og í
kjölfarið fannst mér lögin verða betri; ég fann það strax. Þegar ég byrjaði að tjá mig
um hluti sem skiptu mig máli þá fylgdi ýmislegt með s.s. nýir hljómagangar, nýir taktar
og píanó sóló sem ég hafði ekki spilað áður. Ég hafði verið voða föst í „fjögurra
hljóma“ þemanu og reyndi semja það sem ég hélt að aðrir vildu heyra. Reyndi að
semja lög sem mögulega yrðu nógu „útvarpsvæn“. Ég gleymdi því hreinlega hvers
vegna ég var að þessu og var hvorki með hugann né hjartað á réttum stað.
Þegar ég var svo komin af stað og farin að semja beint frá hjartanu var ég á
örskömmum tíma komin með yfir 10 lög sem ég var sjálf ánægð með. Þá fór ég að
vinna í að láta drauminn rætast og stíga fyrstu skrefin í átt að upptöku á breiðskífu.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Lögin sem verða á þessari plötu innihalda öll texta sem eru mjög persónulegir. Að
leyfa öðrum að hlusta á lögin er fyrir mér svolítið eins og að leyfa einhverjum að lesa
upp úr dagbókinni minni. Ég er í fyrsta sinn að opna hjarta mitt fyrir fólki í gegnum
tónlistina og það á við um öll lögin á þessari plötu, nema eitt þeirra sem ég samdi
ekki. Það lag er rokklag samið af Birgi Sævarssyni (Bigga Sævars) og Hafsteini Þór
Guðjónssyni (Haffa Haff) sem ég hef unnið með síðastliðið ár.
Ég sé fram á að það verði ekki vandasamt að taka upp góða plötu með sterka teymið
mitt á bakvið mig, þá hæfileikaríkustu tónlistarmenn sem ég hef unnið með.
Hvernig semurðu lög?
Ferlið við semja lög hefur breyst mikið hjá mér síðastliðið ár. Ég hef prófað að nýta
hugleiðslu og hreinsun hugans í lagasmíðar sem virkar misvel. Ég hef reynt að semja
lag með því að spila lög fyrst eftir aðra en ekkert af þessu hefur virkað fyrir mig. Það
var ekki fyrr en ég fór að semja frá hjartanu sem eitthvað fór að gerast.
Það sem ég geri er að ég sest við píanóið þegar það er eitthvað að gerast innra með
mér; þegar ég er ofur glöð, hamingjusöm, reið, sár eða með hnút í maganum vegna
einhvers. Þá leyfi ég tilfinningum mínum að mestu að ráða för í lagasmíðunum sem
virkar fyrir mig. Ég þarf alltaf að banna huganum að vera með því um leið og ég byrja
að hugsa of mikið hættir hjartað að ráða för og það verður ekkert úr laginu. Textarnir
sem ég sem fylgja þessum tilfinningum og koma að sjálfu sér en eftir að inntak
textans er komið ásamt laglínu fer ég yfir textann og laga rím og flæði eftir á (þá leyfi
ég huganum aðeins að vera með).
Hvaðan kemur innblásturinn?
Innblásturinn af lögunum kemur úr öllum áttum.Ég á eiginmann sem ég hef verið með í tæplega 11 ár og gift í að verða 7 ár og við
eigum fjögur börn. Við byrjuðum saman eftir að ég varð óvænt þunguð þegar ég var
18 ára og hann með 4 mánaða barn sjálfur á þeim tíma. Þegar ég var yngri bjó ég í
Suður-Afríku í 5 ár og foreldrar mínir ættleiddu systur mína þar og hún er ein af
mínum nánustu vinkonum í dag. Ég tók þátt í The Voice 2016 og komst í topp 12
úrslitin og beint í kjölfarið tók ég þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2017 eftir að hafa
komist inn með eigið frumsamið lag. Ég á nokkrar nánar vinkonur í dag sem styðja
mig í einu og öllu og foreldra sem myndu allt fyrir mig gera. Þessir hlutir veita mér
mikinn innblástur.
Fjölskyldulífinu fylgja þó ýmsar tilfinningar eins og flestir vita og þetta hefur ekki alltaf
verið auðvelt. Ég nýti mér allar þær tilfinningar í tónlist minni en ég hef þó minnst nýtt
mér jákvæðu tilfinningarnar hingað til. Hef svolítið verið að losa um neikvæðu
tilfinningarnar í gegnum lagasmíðar til að byrja með.
Þegar ég var 9 ára skildu foreldrar mínir eftir erfitt hjónaband. Þegar ég byrjaði í
menntaskóla 16 ára gömul átti ég enga vini. Þegar ég var 17 ára varð ég fyrir
alvarlegri árás á menntaskólaballi sem ég hef aldrei þorað að tala um, varla við
eiginmann minn, hvað þá neinn annan.
Neikvæða reynslan gefur mér líka drifkraft í lagasmíðar og meðal annars hafa þessir
atburðir komið mér á þann stað sem ég er í dag, sem ég er þakklát fyrir.
Annars er gaman að segja frá því að ég hélt tónleika sl. föstudag (9. nóv.) á Dillon og
frumflutti nokkur lög af þessari væntanlegu plötu með hljómsveit minni. Viðtökurnar
voru vægast sagt góðar og húsið fylltist á meðan á tónleikunum stóð. Ég var klöppuð
upp og tók óundirbúið aukalag sem virðist hafa togað fram nokkur tár hjá
áhorfendum. Þessir tónleikar ýttu undir trú á sjálfri mér og lögin mín enda notast ég
við aðferðina „fake it til you make it“ í gríð og erg í dag. Það gerði ég einnig á
tónleikunum og hikaði ekki við að vera með heilmikið „attitude“, sem virtist falla í
frjóan jarðveg meðal áhorfenda – enda kom það fólki á óvart sem þekkja mig vel þar
sem það er ólíkt mér að vera með stæla. Kannski heldur fólk að ég sé orðinn mikill
egóisti sem lítur of stórt á sig...
Og hvað með það?
Hér er hægt að skoða og styrkja verkefni Lindu.
https://www.karolinafund.com/project/view/2258