Á Kristnesi í Eyjafirði standa gömul hús starfsmanna berklahælis, sem mega muna fífil sinn fegurri. María Pálsdóttir frá Reykhúsum, næsta bæ við, ætlar að bjarga húsunum og í leiðinni merkri sögu berklasjúkdómsins sem hefur nánast verið þaggaður niður.
Hvernig vaknaði hugmyndin að HÆLINU?
„Ég var á rölti um æskustöðvarnar mínar og sveið að sjá sum húsin í þorpinu drabbast niður og velti því fyrir mér hvort Kristnes myndi breytast í draugaþorp ef ekkert yrði að gert. Fór svo að hugsa um hvað ég gæti gert í málunum og þá kviknaði hugmyndin að setri um sögu berklanna. Mér fannst liggja beint við að tengjast sögu þorpsins en berklahæli var vígt á Kristnesi 1927.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þetta verður áhrifarík og sjónræn sýning um sögu berklanna, við segjum frá missi, sorg og örvæntingu en líka frá æðruleysi, von, bjartsýni og lífsþorsta. Staðsetningin er líka himnesk, náttúrufegurðin á Kristnesi er engu lík og upplagt að kíkja við á ferð um fjörðinn.
Frá því ég fór að tala um þetta verkefni hafa mér borist ómetanlegar frásagnir, ljósmyndir, dagbækur og sendibréf sem varpa skýru ljósi á hvernig lífsreynsla það hefur verið að greinast með berkla og vita ekki hvort maður næði heilsu eða ekki. Ég hlakka til að vinna sýninguna með Auði Ösp vöru- leikmynda- og búningahönnuði sem rak á fjörur mínar fyrir skemmstu og lofa sterkri og óvæntri sýningu sem mun hreyfa við gestum.“
Hvernig stendur verkefnið í dag?
„Það má segja að ég sé búin með einn bita af fílnum því í sumar tókst mér með dyggri aðstoð sveitunga, vina og vandamanna að opna kaffihús HÆLISINS þar sem andi liðins tíma svífur yfir vötnunum og ýmislegt forvitnilegt er að sjá sem tengist sögu staðarins. Þeir sem hafa þegar heimsótt HÆLIÐ gefa því góða einkunn og ég skynja mikla eftirvæntingu eftir sýningunni. Kaffihúsið er opið allar helgar frá 14-18 og sjón er sögu ríkari! Núna stendur til að taka næsta bita af fílnum og ef allt gengur að óskum opnum við sýninguna í vor. Það veltur mikið á hvort söfnunin á Karolina Fund gengur upp.“