Hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk eru ásamt tveimur yngstu sonum sínum á leið í fimm mánaða rannsóknarleiðangur um heiminn. Þau ætla að heimsækja fimm samfélög þar sem fólk lifir óvenju lengi og við mjög góða heilsu. Fyrsti áfangastaður þeirra er Loma Linda í Bandaríkjunum, þaðan fara þau til Kosta Ríka, svo Okinawa í Japan og enda á því að dvelja á Ikaría og Sardiníu í Evrópu.
Guðjón og Vala ætla að skrifa bók um langlífi og góða heilsu byggða á því sem þau læra í ferðinni. Þau stefna einnig að því að ferðast um allt Ísland haustið 2019 og halda fyrirlestur um sama efni. Þau eru nú að safna fyrir kostnaði við gerð bókarinnar og undirbúnings á fyrirlestrinum á Karolina Fund.
Hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég var á afmælisráðstefnu VIRK í vor og sá á skjánum kort af Blue Zones í kynningu hjá hollenskri konu, Dr. Machteld Huber, sem heillaði mig upp úr skónum með pælingum sínum um jákvæða heilsueflingu.
Hver eru þemu verkefnisins?
„Þema verkefnisins er langlífi og góð heilsa í samfélögum. Við Íslendingar eigum marga einstaklinga sem hafa lifað lengi, en það sem er sérstakt við þessa staði er að langlífi er ekki undantekning, heldur regla. Það finnst okkur heillandi. Við viljum komast að því hvað þessi samfélög eru að gera betur en við Íslendingar og svo miðla af þeirri þekkingu þegar við komum aftur heim. Við stefnum að því að gefa út bók og draumurinn er að halda fyrirlestra í öllum sveitarfélögum á Íslandi þar sem við segjum frá því sem við höfum lært, ræðum við heimamenn og spáum saman í hvað við getum nýtt okkur til þess að lifa lengur og betur.“
Er ekki flókið að stökkva út í heim í marga mánuði með heila fjölskyldu?
„Jú, en samt ekki. Við fórum í árs ferðalag með syni okkar þrjá fyrir 10 árum, þá var sá yngsti ekki fæddur. Sú ferð var frábær og kenndi okkur margt, ekki síst að það er virkilega gaman að láta drauma sína rætast. Sérstaklega þegar maður þarf að hafa aðeins fyrir þeim. Núna erum við að láta tvo drauma rætast í einu, annars vegar þann draum að fá að læra meira um jákvæða heilsueflingu og langlífi, en það er eitthvað sem við hjónin brennum fyrir, og hins vegar að sýna sjálfum okkur og strákunum okkar í verki að maður getur gert það sem maður vill ef maður þorir og trúir.“