Allt frá því að Þorgrímur Pétursson hóf nám á gítar ellefu ára gamall hefur hann verið að setja saman lög og búa til við þau texta. Nú ráðgerir hann sína fyrstu útgáfu á geisladisk sem ber titilinn Álög. Á honum verða þrettán frumsamin lög og textarnir eiga það allir sameiginlegt að segja sögur.
Hingað til hefur Þorgrímur flutt lögin sín eingöngu með gítarundirleik en nú hafa þau verið útsett fyrir fleiri hljóðfæri eins og selló, flautu og horn í viðbót við hinar hefðbundnu trommur, píanó, gítar og bassa og í einu lagi kemur meira að segja heill kirkjukór við sögu. Nokkrir frábærir hljóðfæraleikarar hafa aðstoðað Þorgrím í upptökunum sem Jóhann Ásmundsson bassaleikari Mezzoforte hefur stjórnað í hljóðverinu Paradís.
Söfnuninni lýkur 8. janúar 2019.
Hvernig vaknaði hugmyndin að útgáfunni?
„Meðgöngutíminn á þessum diski er orðinn býsna langur og sum laganna urðu til fyrir áratugum. Mig hefur alltaf langað til að gefa út lögin mín til að sjá hvernig þau spjara sig og þegar ég tók loks ákvörðun um að taka upp nokkur þeirra þá byrjaði ég að útsetja lögin í tölvunni heima til að þurfa ekki að eyða dýrum stúdíótíma í það.
Ég leyfði svo Jóhanni upptökumanni að heyra það sem ég var búinn að gera. Honum leist vel á það flest og við unnum úr þessum hugmyndum á þessu ári sem upptökurnar stóðu yfir.“
Segðu okkur frá þema disksins?
„Ég hef alltaf sjálfur haft mest gaman af lögum þar sem textarnir segja sögu og valdi því lögin sem ég tók upp með það í huga að textinn væri saga. Það má því segja að þetta séu þrettán tónsettar sögur og þar sem umfjöllunarefnið er margskonar þá eru lögin þar af leiðandi líka af ýmsu tagi, svo sem ballöður, djass-skotið popp, kántrí og eitt er útsett í anda Ennio Morricone. Sem dæmi þá segir í einu laginu frá því þegar Dauðinn tekur leigubíl, annað er um engil sem verður ástfanginn af jarðneskri konu og eitt er um skipstjóra sem missir menn fyrir borð. Önnur umfjöllunarefni eru álfar og alkóhólismi, draugar, veröld skáldkonu og svo auðvitað ástin.“