Heiðu Ólafsdóttur þekkja margir síðan hún lenti í öðru sæti í Idol Stjörnuleit árið 2005 en síðan þá hefur hún starfað sem söngkona og lærði leiklist í New York, þaðan sem hún útskrifaðist 2009. Tónlistin hefur þó alltaf verið aðalstarfið og 2015 sendi hún frá sér sitt fyrsta frumsamda lag. Stefnan var sett á að senda frá sér plötu.
Fyrsta sólóplatan kom út 2005 fyrir tæpum 14 árum síðan, og kominn tími á nýja plötu.
Á plötunni verða lög eftir Heiðu í bland við lög eftir nokkra af hennar uppáhalds íslensku lagahöfundum í nýjum útgáfum Heiðu og upptökustjórans Snorra Snorrasonar, en þau eru búin að ráða einvalalið tónlistarmanna til þess að spila á plötunni.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef alltaf ætlað mér að þora meiru varðandi tónlistarsköpun mína og hef alltaf haft þörf fyrir að semja sjálf ásamt því að hafa þörf fyrir að túlka önnur lög með mínu nefi. En þegar maður starfar sem söngkona þá auðvitað fer oftast mesti tíminn í það að syngja og æfa lög sem maður er beðinn um að syngja á giggum heldur en að gera akkúrat það sem mann langar mest, þó auðvitað sé alltaf gaman að syngja og vinna við fjölbreytt verkefni.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Platan mun innihalda eingöngu lög sem fjalla um ást, von, hlýju og yl. Tónlist er nefnilega svo öflug og getur breytt líðan á svipstundu, farið með mann upp og niður og allt þar á milli. Árið 2018 var einmitt þannig fyrir mér, upp og niður, út og suður, vegna þess að í byrjun árs lenti ég í bílslysi sem tók toll líkamlega og andlega og náði svo hápunkti með brjósklosi.
Það er eitthvað svo hrikalega glatað að geta ekki gert allt sem manni finnst að maður eigi að geta og missa þannig stjórn en það er þó allavega eitt sem ég get og það er að syngja og skapa tónlist en það er jafnframt það sem er hvað mest læknandi fyrir mig. Og akkúrat það sem ég hef svo oft látið sitja á hakanum, yfirleitt út af sjálfsefa og skorti á tíma. Þess vegna er það mikilvægt fyrir mig að vinna núna bara að lögum sem færa hugann í átt að fegurðinni sem er allt í kringum okkur og tónlist sem lætur fólki mest megnis líða vel og gefur von.
Eins og ég sagði fyrr hér að þá er landslagið virkilega breytt og sumum finnst maður kannski galinn að vera að gefa út plötu á þessum tíma Spotify, Youtube og smáskífa en þessi miðlar eru frábærir og mun tónlistin mín auðvitað halda áfram að rata þangað. En ég vona samt svo heitt og innilega að tónlistarmenn haldi áfram að gera heilar plötur því að til dæmis ég sem hlustandi elska að setja plötu í gang og hlusta frá upphafi til enda. Það slítur stundum í sundur upplifunina af tónlistinni að einhverju leyti að þurfa alltaf að vera að leita að næsta lagi og næsta lagi, að mínu mati. Þannig að ég er virkilega spennt fyrir verkefninu en svo ætlum við að fagna útgáfunni með útgáfutónleikum í Salnum í Kópavogi 23. mars.
Ég hlakka líka svo mikið til að vinna með þessum snillingum sem ég er búin að raða í kringum mig en útsetningar og upptökustjórn verður í höndum Snorra Snorrasonar, Helgi Hannesar spilar á píanó, Pétur Valgarð á gítar, Ólafur Þór Kristjánsson á bassa og trommurnar lemur Benni Brynleifs. Hönnun umslags sér svo listakonan Ynja Mist um.
Fyrsta lagið sem hefur fengið að hljóma af plötunni er hið fallega lag KK, Kærleikur og tími, en útsetningin sem Snorri gerði af þessu lagi sýnir vel hljóðheiminn sem platan mun geyma.“