Á Söngvaglóð er að finna upptökur af söng Elísabetar Erlingsdóttur, gerðar af Ríkisútvarpinu, á árunum 1971- 87, samtals 4 diskar. Hún átti langan og farsælan feril sem söngkona og var sérstaklega þekkt fyrir frumflutning sinn á verkum íslenskra nútímatónskálda auk þess að vera einn atkvæðamesti söngkennari landsins. Dætur Elísabetar, Anna Rún og Hrafnhildur, stefna að útgáfu á Söngvaglóð 29. mars næstkomandi og leita nú til velunnara til að ljúka verkinu.
Hvernig varð hugmyndin að verkefninu til?
„Móðir okkar, Elísabet Erlingsdóttir var langt komin með að vinna að útgáfu þessara geisladiska þegar hún lést árið 2014. Hún var búin að hlusta á flestar upptökur Ríkisútvarpsins af söng sínum sem gerðar voru á 20 ára tímabili, frá 1969 - 1989. Einnig hafði hún gert drög að uppsetningu verka á diska og lagt mikla vinnu í þýðingar íslensku ljóðanna yfir á ensku og þýsku. Við systur lofuðum að taka við og gefa efnið út.
Í okkar huga snýst þetta um að bjarga menningarverðmætum með því að færa upptökurnar yfir á form sem hægt er að hlusta á í dag. Margar af þessum upptökum eru einstakar, sérstaklega á þeim íslensku verkum sem móðir okkar frumflutti.
Það var mikið verk að velja hvað átti að fara á diskana því gífurlega mikið magn afupptökum er til með Elísabetu. Við ákváðum að þessu sinni að einblína á íslensk sönglög (2 diskar) sem hún kenndi mikið, frumflutt verk sem samin voru með hana í huga og svo erlenda lagaflokka og sönglög sem henni þótti vænt um. Stærri kórverk og verk með hljómsveitum komust því miður ekki fyrir í þessari útgáfu, en vonandi mun sú útgáfa einhvern tímann líta dagsins ljós.“