„Skáldið er dautt og ljóðið er blóðið.“
Í stuttu máli sagt var það fæstum harmdauði og sumum tilefni til fagnaðar. Hins vegar virðist gilda um skáldið, rétt eins og um Jesúm og Obi-Wan Kenobi, að það hvílir illa í gröf sinni, rís raunar samstundis upp máttugri en nokkurn tíma áður og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Vandi ljóðsins felst nefnilega ekki í náþefnum per se, heldur fyrst og fremst í vannýtingu á öflugum ilmefnum.
Með öðrum orðum, ljóðið er of reiðubúið að skrifa viljugt undir eigin dauðadóm og trítla
hvíslandi niður slóða farsællar glötunar. Þessu vill Ægir Þór breyta. Ekki yrkja heldur öskra! er mottóið í þessum tveim bókum sem skáldið hyggst gefa út fyrir árslok. Báðar eru bækurnar baðaðar í ammóníakblönduðu alkahóli svo jafnvel svæsnustu skötuáhugamenn fá tár í augun við lestur þeirra.
Hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ljóð eru einn af þessum hlutum sem eiga sér almennt hvorki upphaf né endi. Ljóð eru líf,
flæði, kaotísk í (ó)eðli sínu. Að því sögðu þá eru þær tvær bækur sem þetta verkefni snýst
um fyrri tvær bækurnar í áætluðum fjórleik. Allt eru þetta ljóð sem spinnast út úr sömu
þemum, sem fara í ólíkar áttir og sem ég hef flokkað niður eftir áherslum. Uppsprettan er
lífsreynsla, ekki endilega eitthvað dramatískt (og alls ekki harmþrungið), heldur frekar
eitthvað sem kalla mætti lífslærdóm hinnar kátu bölsýni. Elstu angarnir teygja sig ein 3-4 ár
aftur, aftur í tímabil í lífi höfundar sem mætti (klisjulega) kalla lífskrísu; snemmalífskreppu
hef ég heyrt þetta nefnt. Uppúr tilraunum til að yfirstíga þá kreppu flæða þessi ljóð en taka
fljótlega á sig almennari mynd, umhverfast í samfélagsrýni. Svo kviknar hugmyndin að
flokkun og skiptingu verksins fyrir rúmu ári síðan. Hugmyndin er sem sagt að þetta sé
einskonar röksemdarfærsla, heimspekiritgerð í bundnu máli. Ekki svo að skilja að þetta
séu rökleg ljóð, þetta er póstmódernískur fjandi sem gagnrýnir ekkert meira en sitt eigið
sjálf. Engu að síður er eitthvað í líkingu við kynningu viðfangsefnis-umfjöllun-gagnrýni-
úrlausn í gangi.“
„Þemun er nokkur en flæða öll úr sömu uppsprettu. Köllum það rannsókn á
tilvistargrundvelli manneskjunnar, sem einstaklings (í samfélagi) og sem heildar, sem
tegundar. Það er að segja, hvernig er (best) hægt að lifa í þessum heim, þar sem allt er að
fara til fjandans (þótt lífsskilyrði hafi aldrei verið betri (fyrir okkur heppnu í það minnsta)).
Það eru sem sagt tvær meginþræðir. Annars vegar stakið, ég-einstaklingurinn, hins vegar
þjóðfélagið-samfélagið-mannfélagið-náttúran. Þetta eru ekki aðskildir þættir heldur fléttast
þeir sífellt saman. Manneskjan er ekki til í tómarúmi. Enginn er eyja (ekki einu sinni Ísland),
allt tengist og spilar saman. Fyrir þá sem eru ekki að fylgja þessu þá eru helstu þemun
umhverfismál, það að fóta sig í heiminum og leiðir til að bregðast við þeim vandamálum
sem að okkur steðja.“
„Þetta eru mínar bækur, en ég vil gjarnan lesa bækur annarra líka, sérstaklega ljóðabækur.
Það sem meira er, ég vil gefa þær út. Í því skyni er rétt að benda á að bækur þessar verða
gefnar út undir merkjum Endahnúta útgáfu, sem ég rek. Mig langar til að gefa út aðra
höfunda og er með verkefni í bígerð til þess að koma því í kring. Nánar tiltekið langar mig
að gefa nýjum skáldum tækifæri á að koma sínum fyrstu verkum út, að byrja að geta sér
nafn. Í því skyni hef ég í hyggju að leggja hluta af (vonandi) ágóða af sölu þessara bóka til
hliðar til þess að geta greitt kostnað af útgáfu fyrir skáld sem langar að gefa út hjá
Endahnútum (sem þarf ekki að vera ljóð). Áhugasamir geta sent handrit á.
endahnutar@gmail.com.“