Flestir kannast við ræningjana þrjá í leikritinu Kardemommubænum og sönginn um leit þeirra að eigum sínum eftir hreingerningarrassíu Soffíu frænku. Þar á meðal heftinu um Hottintottana.
Í Kardemommubænum kom ekki fram að þeir Kasper, Jesper og Jónatan væru sérstakir áhugamenn um bókmenntir og framandi þjóðir. Þeir söknuðu þó heftisins um hottintottana sem hin hreinláta Soffía frænka hafði fjarlægt ásamt öðrum gersemum. Hafi ræningjarnir lesið heftið vita þeir meira en margir aðrir um ættbálkinn sem í raun heitir Khoikhoi og á rætur að rekja til Suður-Afríku. Það voru Hollendingar sem fyrstir notuðu orðið hottentottar um ættbálkinn, eftir að svæðið varð hollensk nýlenda á 17. öld. Ástæðan var sérkennileg hljóð (einskonar tvöfalt klikk hljóð) í tungumáli þeirra innfæddu. Hollendingunum þótti þetta líkjast stami og kölluðu þá innfæddu stamara, hottintotta. Á nýlendutímanum blandaðist Khoikhoi fólkið nýlenduherrunum og þá skutu ný orð upp kollinum, til viðbótar hottintotta nafninu. til dæmis litaðir og afrikans. Í dag eru tæplega hundrað þúsund manns sem telja sig tilheyra Khoikhoi ættbálknum.
Þótt hottintotta orðið hafi í upphafi ekki haft neikvæða eða niðrandi merkingu breyttist það síðar.
Breyting tungumálsins
Á síðustu áratugum hefur orðið mikil breyting á orðanotkun í íslensku máli eins og mörgum öðrum. Niðrandi og neikvæðum orðum og orðasamböndum hefur fækkað. Sumir kalla þetta kurteisisvæðingu, aðrir sjálfsagðan hlut. Virðingu fyrir fólki.
Dæmin eru mörg. Aumingi, hálfviti, fáviti, gleraugnaglámur, vangefinn og heimskingi eru orð sem heyrast vart í dag. Eða Kleppari, ræfill, kynvillingur, sódómískur. Þetta eru aðeins örfá dæmi um orð sem voru algeng fyrir tiltölulega fáum árum en heyrast vart í dag.
Breytingin nær reyndar miklu víðar. Nú eru, svo dæmi sé tekið, fáir sagðir fátækir, þeir eru nú þeir sem minna mega sín, eða eiga undir högg að sækja. Enginn er heldur gamall, allir í þeim hópi eru nú eldri borgarar. Ekki er nema gott eitt um það að segja að nú skuli talsmátinn vera kurteislegri en áður tíðkaðist, en kannski er líka hægt að ganga of langt í því. Margir muna ugglaust eftir því að árið 2007 kom út hjá forlaginu Skruddu bókin ,,Tíu litlir negrastrákar“. Textinn er þula eftir bandaríska höfundinn Septimus Winner. Talsverð umræða varð um þessa útgáfu, sem var ekki sú fyrsta hér á landi, um eldri útgáfurnar heyrðist ekki gagnrýnismúkk á sínum tíma. Gagnrýnendur sögðu innihaldið kynda undir kynþáttafordómum, aðrir segja fráleitt að ætla að ritskoða gamlar sögur, jafnvel með því að breyta nöfnunum, eins og sums staðar hefur verið gert í tilviki strákanna tíu.
Erum við að verða eins og Svíar?
Fyrir nokkrum dögum birtist grein undir þessari fyrirsögn í danska dagblaðinu Berlingske. Í greininni er vitnað til þess að Svíar hafa um margra ára skeið fjarlægt orð, sem teljast mega niðrandi eða fordómafull, úr bókum og kvikmyndum þar í landi. Þekktasta dæmið eru sögur Astrid Lindgren um Línu langsokk en pabbi hennar var (að sögn Línu) negrakóngur í Suðurhöfum. Fyrsta bókin um Línu langsokk, Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendinu Krúsimundu Eiríksdóttur Langsokk (eins og hún heitir á íslensku) kom út um miðjan fimmta áratug síðustu aldar og í kjölfarið komu fleiri bækur um þessa óvenjulegu stúlku. Línubækurnar urðu fljótt mjög vinsælar en gagnrýni sneri helst að heimilisaðstæðum Línu sem bjó ein á Sjónarhóli, ásamt hesti og apa. Gagnrýnisraddir af þessu tagi heyrast ekki í dag.
Það að pabbi Línu væri negrakóngur þykir sumum ekki par fínt í dag og þess vegna hafa sænskir bókaútgefendur og kvikmyndaframleiðendur ákveðið að fjarlægja negrakónginn, pabbi Línu er nú orðinn kóngur í Suðurhöfum. Norska ríkisútvarpið fór þessa sömu leið árið 2006 og Danir sömuleiðis. Skýringar Svía, Norðmanna og Dana á þessum breytingum eru þær að orð eins og negri geti verið særandi, löndin þrjú séu fjölmenningarlönd. Mörgum finnst þetta réttmæt og sjálfsögð ákvörðun. Öðrum finnst höfundinum Astrid Lindgren sýnd lítilsvirðing með því að ,,snyrta“ textann, bækurnar séu barn síns tíma og það beri að virða. Nóg sé nú fyrirhyggjan í norrænu löndunum þótt ekki sé verið að krukka í texta eins þekktasta rithöfundar Svía. Sömu raddir heyrast í Noregi. Síðustu daga hefur mikil umræða um þessi mál farið fram í Danmörku, hún tengist þó ekki Línu og kónginum pabba hennar.
Gyldendal og Halfdan Rasmussen
Halfdan Rasmussen (1915 – 2002) er í hópi vinsælustu skálda Dana. Hann skrifaði fjölmargar bækur, um margvísleg efni, en er kannski þekktastur fyrir ljóðabækur sínar. Þær voru að sögn höfundarins ætlaðar börnum en nutu líka mikilla vinsælda eldri lesenda. Halfdan Rasmussen lagði sérstaka rækt við svokallaðar bullvísur (tosserier) sem höfða mjög til barna.
Fyrir nokkrum dögum kom út hjá Gyldendal forlaginu safn ljóða eftir Halfdan Rasmussen. Í bókinni eru svokölluð rímljóð sem ort voru á árunum 1949 – 1959. Í þetta safn vantar átta rímljóð sem eiga það sameiginlegt að í þeim koma fyrir orðin negri og hottintotti. Sú ákvörðun forlagsins að sleppa þessum átta ljóðum úr bókinni hefur vakið mikla athygli. Fjölskylda skáldsins er óánægð með að forlagið skuli hafa valið þá leið að sleppa rímljóðunum. Dóttirin, Iben Nagel, segist fremur hafa kosið að með ljóðunum hefðu fylgt skýringar þar sem komið hefði fram að þegar þau voru ort voru aðrir tímar. Hún sagði ennfremur að allir sem til þekktu vissu að faðir hennar hefði hvorki verið rasisti né fordómafullur kynþáttahatari.
Morten Hesseldal framkvæmastjóri Gyldendal sagði í viðtali við útvarpsstöðina Radio24syv, að ákvörðunin um að sleppa þessum átta ljóðum úr nýju safnútgáfunni hefði verið tekin að vel athuguðu máli. Hann lagði jafnframt áherslu á að ljóðin átta væru áfram í upphaflegu útgáfunum og þær bækur væri búið að endurprenta ótal sinnum og fengjust í bókaverslunum.