„Erfiður klofningur í Norðurskautsráðinu ef menn greinir á um loftslagsvána“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, spjallar um loftslagsmál og bruna svartolíu á norðurslóðum í ítarlegu viðtali.

Árni Finnsson
Árni Finnsson
Auglýsing

Árni Finnsson tók á móti mér með þéttu handartaki á látlausu heimili sínu í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann bauð upp á kaffi og færði mér það í fallegum múmínbolla.

Í ljósi nýlegra atburða þorði ég ekki öðru en að biðja um leyfi til að taka upp viðtalið á símann minn. Það var auðsótt mál. „Reyndar er röddin ekki upp á marga fiska í dag,“ sagði hann. Sjálfri fannst mér röddin vera upp á alveg jafn marga fiska og alltaf áður.

Ég dreypti á heitu múmínkaffinu áður en ég seildist eftir spurningalistanum og hóf viðtalið.

Auglýsing

Bann við svartolíu er stærsta einstaka loftslagsmálið á norðurslóðum

Hversu mikill skaðvaldur er bruni svartolíu á norðurslóðum?

„Norðan við átttugustu breiddargráðu held ég að svartolía sé sá skaðvaldur sem veldur mestri bráðnun þannig að ef það væri hægt að stöðva þá sótmengun sem verður vegna bruna svartolíu, þá væri það stærsta einstaka aðgerðin til að draga úr hlýnun á norðurslóðum.

Svartolía er í raun bara drullan sem verður eftir þegar búið er að hreinsa olíuna. Það þarf að hita hana en við það myndast sót sem leggst yfir ís og snjó og dekkir yfirborðið,“ segir Árni og útskýrir að dekkra yfirborð gleypi meira af orku sólarinnar heldur en hvítur snjór og ís og þannig margfaldist áhrif loftslagsbreytinga.

„Þegar Ísland gegndi síðast formennsku í Norðurskautsráðinu (2002-2004) var unnin tímamóta skýrsla um svæðisbundin áhrif loftslagsbreytinga (Arctic Climate Impact Assessment, ACIA). Þetta var mjög vönduð skýrsla og niðurstaðan var afgerandi. Meðal annars þetta, að hlýnun á norðurslóðum er tvisvar sinnum hraðari en annars staðar á hnettinum. Samt sem áður var ekki minnst á þessa skýrslu í skýrslu þáverandi utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar um formennskutíð Íslands. Ekki verður dregin af því önnur ályktun en sú að Davið Oddsson afneitar loftslagsvísindunum.“

Nú er Ísland að banna bruna svartolíu í landhelgi sinni frá og með næstu áramótum ekki satt?

„Það er ekki tæknilega rétt að það sé verið að banna bruna svartolíu. Það er verið að setja mjög lág mörk fyrir losun brennisteins og brennisteins innihald svartolíu. Með því að setja þessi mörk á brennistein, þá verður erfiðara fyrir útgerðir að brenna svartolíu. Eimskip og Samskip hafa áform um að nota hreinsitækni, síur til að hreinsa brennisteininn úr við brunann, því miður. Þetta verður skárra en með þessu móti munu þeir áfram nota svartolíu.“

Nú koma mörg skemmtiferðaskip til Akureyrar, nota þau svartolíu?

„Mörg hver. Bæði skemmtiferðaskipin, Eimskip og Samskip hafa verið með tvöfalt kerfi. Þau hafa brennt svartolíu úti á hafi en svo þegar þau koma inn í firðina þá nota þau dísilolíu. Reyndar er ég með mynd sem sýnir skemmtiferðaskip sigla út Eyjafjörðinn. Skipið er enn í firðinum, til móts við Hrísey en þeir eru búnir að kveikja á svartolíunni.“

Skemmtiferðaskip siglir út Eyjafjörðinn. Mynd: Adam Óskarsson

Það skiptir máli að þrýsta á stjórnvöld

Eruð þið í Náttúruverndarsamtökum Íslands í samstarfi við stjórnvöld?

„Við erum frjáls félagasamtök sem eru stundum í samstarfi við stjórnvöld en í raun erum við frekar svona þrýstihópur. Undanfarin ár höfum við unnið með Clean Arctic Alliance, sem eru regnhlífarsamtök sem vinna að banni við bruna og flutningum á svartolíu á norðurslóðum.“

Skiptir máli að almenningur sé meðvitaður um umhverfismál og þrýsti á stjórnvöld?

„... já, það er oftast það sem skiptir mestu máli. Ég held að Íslendingar séu klofnir í þessu máli. Fyrir útgerðina, þá er það að nota svartolíu sparnaður. Það getur munað 30%. En fyrir umhverfið, þá er þetta ekki sparnaður.“

„Ég held að fólk líti ekki á þjáningar annarra sem tækifæri“

Hvers vegna má ísinn ekki bara bráðna? Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að bráðnun íss á norðurslóðum sé viðskiptatækifæri.

„Okkar eigin utanríkisráðherra sagði þetta í þinginu skömmu áður. Ef þú skoðar skýrslu utanríkisráðherra frá því um daginn þá nefnir hann þetta sem tækifæri. Það er afar óheppilegt að hann skildi segja þetta. Þarna er einhver hugsanafeill. Það getur vel verið að það sé gróði í einhverjum skilningi, menn fái meiri peninga og hér verði einhver atvinnustarfsemi vegna aukinna siglinga á norðurslóðum en það mun bara ekki gerast næstu tíu árin og á sama tíma verðum við að snúa dæminu við.

Við þurfum að halda hlýnun jarðar vel innan við tvær gráður og við erum þegar komin upp um eina gráðu og kannski rúmlega það. Fari hlýnunin umfram tvær gráður þá er mikil hætta á því að loftslagsbreytingar verði óstöðvandi. Það þýðir að hlýnunin verður það mikil að til dæmis metangasið sem er í sífreranum á norðurslóðum leysist úr læðingi. Eitt tonn af metangasi er á við tuttugu og fimm tonn af koltvísýringi. Þannig að verði hlýnunin meiri en tvær gráður þá verður ekki aftur snúið og niðurstaðan verður skelfileg, og hún er þegar orðin dálítið skelfileg.

Ef hlýnunin verður meiri en ein og hálf gráða, þá er ljóst að fjöldi smárra eyríkja, til dæmis í Kyrrahafi, Karabíhafi og Seychelleyjar, þessi ríki fara undir yfirborð sjávar. Einnig láglend svæði eins og í Bangladess. Þetta mun valda hungursneyð. Þannig að þetta er allt saman mjög skelfilegt.

Þess vegna var sett inn í Parísarsamkomulagið að markmiðið væri að halda hlýnun vel innan við tvær gráður. Í raun er ein og hálf gráða þolmörk. Ég hugsa því að það sé ákaflega grunnhyggið að hugsa sem svo að það séu tækifæri fyrir Ísland að ísinn bráðni, ef að tækifærin fela í sér þjáningar annarra manna. Ég held að fólk líti ekki á það sem tækifæri.

Robert Corell, ritstjóri ACIA (Arctic Climate Impact Assessment), kynnti niðurstöður skýrslunnar, um hraða hlýnun á norðurslóðum, á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Buenos Aires árið 2004. Í salnum var maður frá Bangladess. Hann var ekki diplómat en hafði tekið að sér fyrir sína ríkisstjórn að sitja fundinn þar sem hann átti leið um og þeir í Bangladess áttu ekki mikla peninga. Þegar hann sá kynninguna þá varð hann skelfingu lostinn og spurði „hvenær lagast þetta?“. Málið er að ef okkur tekst að halda hitanum innan marka þannig að kerfið geti snúið til baka og magn gróðurhúsalofttegunda í loftinu nái aftur fyrra horfi, þá tekur það samt þúsund ár.“

Öldungadeildarþingmenn á framfæri olíuiðnaðarins

Hvernig stendur á því að menn eins og Pompeo horfist ekki í augu við áhrif loftslagsbreytinga?

„Stóra málið í Bandaríkjunum eru þessi gríðarlega sterku hagsmunaöfl sem, í samræmi við þeirra hefðir, kaupa sér atkvæði á þingi. Þar eru öldungadeildarþingmenn sem eru nánast á framfæri olíuiðnaðarins. Bandaríkjamenn afneita ekki afleiðingum loftslagsbreytingum upp til hópa. Það gerir hins vegar náunginn í Hvíta húsinu og Pompeo. Pompeo er sá þingmaður sem hefur fengið mest af styrkjum frá Koch bræðrum, sem eru miljarðamæringar í Bandaríkjunum sem hafa undanfarna áratugi kostað hugveitur til að afneita áhrifum síaukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Pompeo fékk hæstu styrkina frá þeim bræðrum vegna þess að hann var duglegastur í afneituninni.

Ef þetta fer á verri veginn þá verður mikið af fólki sem þarf og vill komast norður eftir.“

Árni Finnsson Mynd: Helgi Halldórsson/Freddi

Hvaða áhrif gætu loftslagsbreytingar haft á Íslandi? Er til dæmis fyrirséð að það verði mikill umhverfisflótti til kaldari landa?

„Hluti þess flóttafólks sem nú er í Evrópu er að flýja þurrka og ein af orsökum stríðsins í Sýrlandi hefur verið talin vera skortur á akurlendi vegna hlýnunar. Ef þetta fer á verri veginn þá er alveg ljóst að það verður mjög mikið af fólki sem verður að flýja heimkynni sín norður eftir. Það náttúrulega sér ríkidæmið sem við búum við. Það er nú einu sinni þannig að andrúmsloftið og lofthjúpurinn í kringum jörðina er sameign jarðarbúa, hann er ekki séreign.

Ég held að ef við förum að horfa upp á gríðarlega eymd og hamfarir í kjölfar hlýnunar þá geti orðið svona „moral collapse“. Sem betur fer þá kom það nú ekki fram í kosningunum núna fyrir Evrópuþingið, ekki eins og óttast var, kosningasigur hægri afla varð ekki eins mikill og menn höfðu talið. Að mínu mati snýst þetta mikið um hvort almenningur í Evrópu og Bandaríkjunum hafi nægan siðferðisstyrk. Annað hvort ríkir samkennd, þátttaka og hjálp eða afneitun.“

Allt á fleygiferð í lífríkinu nú þegar

Hvað með áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið og uppskeru?

„Nú er ljóst að rigningarveður munu aukast á hér norður frá, eins og við sáum í fyrra. Hvort það hefur áhrif á uppskeru veit ég ekki. Öfgar í veðurfari munu einnig vera vandamál og súrnun sjávar mun valda skaða á lífríkinu. Ef ekki tekst að snúa mjög skarpt við þá held ég að það verði mjög erfitt að bjarga því. Það kom reyndar fram í vísindaskýrslu sem Veðurstofan gaf út í maí árið 2018 að losun þarf að vera neikvæð, binding meiri en losun á síðari hluta þessarar aldar, ef við ætlum að snúa við súrnun sjávar. En svo er líka ljóst að það er allt á fleygiferð í lífríkinu nú þegar. Til dæmis er stór hluti hrefnustofnsins kominn norður undir Jan Mayen. Hrefnan er þar til að leita sér að æti og lundin líður hungur vegna þess að sandsílið er horfið.“

Auglýsing

Fiskimiðin

Heldurðu að þetta geti orðið til þess að fiskimið Íslands verði fyrir miklum skaða?

„Við vitum það ekki. Það getur verið að það komi hingað nýjar tegundir sem gætu bætt upp hugsanlegan skaða. Svo getur verið að þorskurinn fari norðar. Þess vegna eiga útgerðarfyrirtæki eins og Samherji að slá aðeins af arðsemiskröfunum og hætta að brenna svartolíu, taka meira tillit til náttúrunnar og samfélagsins. Þeir hafa verið mjög duglegir hjá Samherja við að reka mjög arðsamt og stöndugt fyrirtæki en þess þá heldur að þeir sýni ábyrgð, þeir hafa alveg nóg á milli handanna. Það kostar þá ekkert of mikið að sleppa svartolíunni.“

Ísland getur beitt sér í Norðurskautsráðinu

Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí. Telur þú að við getum notað þá stöðu til að vinna að því að draga úr notkun svartolíu á svæðinu?

„Norðurskautsráðið er ekki alþjóðastofnun sem getur tekið bindandi ákvarðanir um svartolíu, það gerir hins vegar Alþjóðasiglingamálastofnunin. En Ísland getur að sönnu beitt sér innan Norðurskautsráðsins fyrir því að aðildarríkin og þau ríki sem eiga áheyrnaraðild að ráðinu eins og til dæmis Kína, dragi úr notkun svartolíu. Kína hefur raunar nú þegar bannað svartolíu á sumum svæðum einhliða.

Ísland ætlar að beita sér gegn plastmengun á sínu tveggja ára formennskutímabili og það er mjög gott en þar eru allir sammála. Ísland gæti einnig beitt sér gegn svartolíunni og þá fyrst og fremst með umræðu um skaðsemi hennar. Ég held að það gæti gert gagn. Strangari reglugerð hér heima sem gerir bruna svartolíu erfiðari (vegna kröfu um mun lægra innihald brennisteins í olíunni) hefur áhrif á umræðuna innan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og vonandi einnig í Norðurskautsráðinu.“

Erfiður klofningur í Norðurskautsráðinu

Í maí síðastliðnum gerðist það í fyrsta skiptið í sögu Norðurskautsráðsins að ráðið kom sér ekki saman um lokayfirlýsingu vegna þess að Bandaríkin neituðu að samþykkja að þar væri vísað í loftslagsbreytingar. Telurðu að það eigi eftir að vera Þrándur í götu Íslands sem formennskuríkis?

„Það er kominn upp klofningur í Norðurskautsráðið varðandi loftslagsmálin. Það er ansi erfiður klofningur ef menn greinir á um loftslagsvána. það verður snúið fyrir Ísland að vinna með ríkisstjórn Trumps sem tekur æ harðari afstöðu gegn loftslagsvísindunum. Ísland getur þó styrkt málefnastöðu sína með samstarfi við Norðurlöndin og Kanada sem styðja loftslagsvísindin. Ísland gegnir einnig formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þetta árið, sem styrkir formennsku Íslands Norðurskautsráðinu.

Timo Soini utanríkisráðherra Finnlands var búinn að semja yfirlýsingu sem er talinn hafa verið uppkast að sameiginlegri yfirlýsingu Norðurskautsráðsins. Þar segir meðal annars að Norðurskautsráðið ætli sér að takast á við þá hættu sem er samfara notkun og flutningi á svartolíu um norðurslóðir og að haldið verði áfram að kanna aðra eldsneytisgjafa fyrir skip sem sigla um norðurslóðir. Því miður kom Mike Pompeo í veg fyrir að yfirlýsing byggð á þessu uppkasti yrði samþykkt.

Starfsmenn utanríkisráðuneytisins munu bíta á jaxlinn og halda ótrauðir áfram. Á hinn bóginn er ljóst að afstaða Bandaríkjanna mun hamla samstarfi innan Norðurskautsráðsins. Bandaríkin viðurkenna ekki vandamálið, loftslagsvána sem er stærsta áskorunin sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir.“

Takk kærlega fyrir viðtalið Árni!

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal