Það klikkar ekkert í Sýningunni sem klikkar!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fór að sjá Sýninguna sem klikkar í Borgarleikhúsinu.

Sýningin sem klikkar
Sýningin sem klikkar
Auglýsing

Borgarleikhúsið: Sýningin sem klikkar

Höfundar: Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields.

Þýðing: Karl Ágúst Úlfsson

Leikstjórn: Halldóra Geirharðsdóttir

Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir

Lýsing: Páll Ragnarsson

Hljóð: Garðar Borgþórsson

Leikgerfi: Helga I. Stefánsdóttir og Margrét Benediktsdóttir.

Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Davíð Þór Katrínarson, Hilmar Guðjónsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Birna Rún Eiríksdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir.

Það er martröð hvers leikara ef og þegar eitthvað fer úrskeiðis í þaulæfðri leiksýningu. Þegar það gerist þarf að redda málunum í snatri og helst án þess að nokkur verði mistakanna var. Stundum tekst það og þá er vel, en svo gerist það að vandræðagangurinn er öllum auðsær og leikarinn með allt niðrum sig (alveg sama hverjum kenna má mistökin!) og verður að aðhlátursefni fyrir vikið. Og hver vill verða aðhlátursefni? Það skiptir því máli í öllum óvæntum uppákomum og óhöppum að halda andlitinu og láta líta svo út að allt sé í himnalagi og að svona eigi það bara að vera.

Auglýsing

Hvað þetta varðar er húmorinn í Sýningunni sem klikkar svipaður öllum húmor sem byggir á því að sá sem í klandrinu lendir er sviptur virðingu sinni. Virðing leikarans er í því fólgin að kunna sína rullu og sameiginleg virðing leikhópsins byggir á því að leiksýningin gangi snurðulaust fyrir sig, áhorfendum til gleði og ánægju. Og sé einhver sviptur virðingu sinni og þar með neyddur til að fara á óundirbúinni hraðferð út úr þægindarammanum sínum – hvort sem hann er venjulegar lífsrútínur eða þaulæfð leiksýning – þá verður sá hinn sami hlægilegur. Það er hið ófrávíkjanlega og miskunnarlausa lögmál alls húmors.

Sýningin sem klikkar byggir beinlínis á þessu, nema hér er er bætt við einni vídd og hún er sú að áhorfendur vita auðvitað að allt sem klikkar er í rauninni þaulæft. Sýningin sem klikkar er ærslafengin sýning í þeirri óviðjafnanlegu list leikhússins að koma áhorfandanum á óvart en ávallt innan ramma þess undirbúna og vel skipulagða, rétt eins og loftfimleikafólkið í sirkusnum heldur áhorfendum í spennu yfir áhættuatriðinu. Það er engin listgrein leikhúsinu lík hvað þetta varðar og Sýningin sem klikkar er glæsileg uppákoma fyrir alla sem unna ærslum og grínaríi sem á sér rætur í trúðleik sirkussins, Keystone-löggum þöglu myndanna, list Chaplins og Buster Keaton. Í Sýningunni sem klikkar kemur flestallt okkur á óvart og það er hluti af því sem kemur áhorfanda til að iða í skinninu af spenningi yfir því hvað muni nú klikka næst. Og þegar tekst að byggja upp stigmagnandi spennu þannig að leikurinn æsist með hverju nýju atriði þar sem eitthvað bregður útaf, þá er allt eins og það á að vera – og sú er raunin hér.

Sýningin hefst á því að sýningarstjóri sýningarinnar, leikinn af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur, er að undirbúa sviðið en það gengur ekki vel, það vantar aðstoðarmann úr hópi áhorfenda og sú uppákoma verður eins konar fyrirboði þess sem koma skal. Það er líka greinilegt að sýningarstjórinn hefur metnað umfram það að vappa um baksviðs, hana langar til að gerast leikkona og trúið því eða ekki, en sá draumur hennar mun rætast áður en yfir lýkur án þess þó að það hafi verið ætlunin. Leikstjórinn, leikinn af Bergi Þór Ingólfssyni, kynnir sýninguna sem heitir því magnaða nafni Morð á meðal vor og hefur lengi verið draumur þessa leikhóps Borgarleikhússins að setja á svið. Leikstjórinn leikur auk þess í sýningunni og fer með hlutverk hins ábúðarfulla Carters Rannsóknarlögreglumanns.

Auðvitað er kynningin eins álappaleg og efni standa til og þegar sýningin hefst byrjar líka röð vandræðalegra atvika, mistaka, óhappa og klúðurs af hinu margvíslegasta tagi, sem stigmagnast sýninguna á enda. Það er alger óþarfi að rekja söguþráð hér, hver sem vill bregður sér einfaldlega í Borgarleikhúsið og nýtur vitleysunnar.

Hér skal reyndar nöldrað yfir því eina atriði sem telja má aðfinnsluvert. Það hljómar hreint ekki trúverðuglega að það séu leikarar við sjálft Borgarleikhúsið sem setja á svið þessa sýningu sem klikkar eins hrapallega og hér er raunin. Frá fyrsta augnabliki Morðs á meðal vor fer allt í handaskolum og verður að tómu rugli. Ég spyr hreinlega: Eiga áhorfendur í raun og veru að trúa því að slíkt hendi leikara og tæknimenn leikhúss sem hefur skilað sýningum á borð við Billy Elliot, Rocky horror, Mary Poppins, Bláa hnöttinn, Matthildi og fleiri glæsisýningum? Hefði ekki verið trúverðugra að staðfæra sýninguna á annan hátt og heimfæra hana upp á eitthvert það “einvalalið” leikara sem líklegra er til að klúðra hlutunum en einmitt starfsmenn Borgarleikhússins. Nöldri lokið!

(Reyndar má í þessu samhengi nefna að í ágætri leikskrá er starfsmönnum sýningarinnar gert að rekja eftirminnileg mistök og skyssur sem þeir hafa afrekað á ferli sínum og þar kennir margvíslegra grasa. Þrautreyndum atvinnumönnum verður á í messunni ekki síður en þeim sem hafa minni reynslu og þjálfun. Ekki skal látið undan freistingunni að rekja það hér …)

Sýningin sem klikkar Mynd: Grímur Bjarnason

Hvað sem líður klaufaskap leikhópsins sem af vanburðum reynir að koma frá sér Morði á meðal vor, verður ekki annað sagt en að listamenn Borgarleikhússins skili frá sér Sýningunni sem klikkar af yfirburða leikni og léttleika. Hver einasta hreyfing er gerð af öryggi og það er óhætt að segja að þótt Morð á meðal vor klikki rækilega þá klikkar ekkert í Sýningunni sem klikkar. Jafnvægið á milli kauðslegrar sýningarinnar á Morði á meðal vor og Sýningarinnar sem klikkar er á köflum hárfínt, en hér gengur allt upp: leikmynd og búningar Helgu I. Stefánsdóttur, lýsing Páls Ragnarssonar og hljóð Garðars Borgþórssonar og leikgerfi Helgu og Margrétar Benediktsdóttur. Leikhópurinn þarf líka að finna og leika af öryggi á skilin milli þess að vera viðvaningarnir sem valda mistökunum og snillingarnir sem bjarga sér úr þeim og þar á er hvergi misbrestur! Það er auðfundið frá upphafi til enda að hér hafa allir sem að sýningunni standa haft ótrúlega gaman af og sú gleði smitar svo sannarlega af sér yfir sviðsbrúnina og til áhorfenda. Ekki má skilja við Sýninguna sem klikkar án þess að minnast á þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar, sem er vissulega hluti af því að allt klikkar og það er sérstök unun að því að hlusta á sumt ruglið sem ratar útúr munni Hjartar Jóhanns Jónssonar – allt auðvitað þaulæft og sprenghlægilegt!

Það er í sjálfu sér óþarfi að hafa fleiri orð um Sýninguna sem klikkar. Einfaldast er bara að bregða sér í Borgarleikhúsið og kætast yfir óförum leikara og tæknimanna og veita sér þá ánægju að finna til þeirra yfirburða sem þeir einir finnst þeir hafa sem hafa fullkomna stjórn á sínu eigin lífi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk