Flammeus er listamannsnafn akureyrska tónlistarmannsins Tuma Hrannar-Pálmasonar. Hann hefur síðan á ungum aldri notað tónsmíðar sem útrás fyrir sína innri djöfla og hugdettur, og ætlar nú að gefa út plötu með nokkrum þeirra laga sem hann hefur samið. Lögin á plötunni eru öll samin út frá sömu lífsreynslunni, og er útgáfa plötunnar því eins konar kveðjustund fyrir mikilvægan tíma í lífi hans. Með honum í útsetningu og upptöku laganna eru félagar hans úr Tónlistarskólanum á Akureyri; Guðjón Jónsson, Sigfús Jónsson, Hafsteinn Davíðsson og Jóhannes Stefánsson. Safnað er fyrir framleiðslu á bolum og geisladiskum á Karolina Fund. Kjarninn tók Tuma tali.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Tónlist hefur alla tíð verið mjög prívat og persónulegur hlutur fyrir mig. Ég greip ýmist í kassagítarinn eða píanóið þegar mér leið illa, og samdi tónlist til þess að koma tilfinningunum frá mér. Ég var hins vegar lítið fyrir það að spila tónverkin fyrir aðra, var meira að segja feiminn við að sýna foreldrum mínum hvað ég hafði verið að brasa.
Hvert er þema verksins?
„Lagasmíðarnar mínar, sem einkennast af sterkum melódíum og hljómasamsetningum og melankólískri textasmíð. Einnig hafa hljómsveitarmeðlimirnir allir sinn stíl sem kemur fram í hverju laganna, en þar ber að nefna stórt og mikið pedalbretti Jóhannesar gítarleikara sem gerir honum kleift að framkalla alls kyns hljóm með gítarnum, og þéttan trommu-og bassaleik rytmateymisins.“
Er eitthvað fleira á döfinni hjá ykkur?
„Já, við byrjum á því að spila útgáfutónleika á Græna Hattinum 4. júlí, og svo komum við meðal annars fram saman á Fiskideginum og Mærudögum. Þar fyrir utan er ég sjálfur á styrk frá Akureyrarstofu þetta sumarið og mun því koma fram við hin ýmsu tækifæri, ýmist einn með kassagítarinn eða með góðum gestum. Við eigum síðan meira óklárað efni frá mér sem væri gaman að gefa út, og verðum því að brasa við upptökur líka.“