Guðbrandur Gíslason: Óbyrjur tímans. Um afskipti dauðans af ástinni.
Bókaútgáfan Brandur. Reykjavík 2019.
Sumar bækur nálgast mann hógværlega, næstum eins og þær væru feimnar, of hlédrægar og hógværar til að trana sér fram, vekja athygli, krefjast þess að vera lesnar. Það eru bækur sem segja sögur sasm hefur tekið tíma að setja á blað, kostað orku, jafnvel angist, sem á endanum óttast dóm lesandans, óttast að lesandinn þekki sig ekki í atvikum sögunnar, umhverfinu og kringumstæðum.
Óbyrjur tímans. Um afskipti dauðans af ástinni er slík bók, hefur slíka sögu að geyma. Þessi saga er ekki búin til, ekki sköpuð. Hún hefur einfaldlega gerst, hún segir sköp persóna sinna, eða skyldi maður segja ósköp, í merkingunni örlög. Hún segir bókstaflega frá afskiptum dauðans af ástinni og það mætti þess vegna kenna hana við sagnalist grimmdarinnar, á svipaðan hátt og talað er um leikhús grimmdarinnar miðað við kenningar franska leikhúslistamannsins Artaud, en grimmdin á hér fylgju sem kallast lífsjátning. Ást.
Guðbrandur Gíslason er gamalreyndur blaðamaður með próf í málvísindum og bókmenntafræði frá Þýskalandi í farangrinum og hefur auk þess að skrifa ljóð og sögur í ýmis tímarit fengist við störf tengd menningu og leiðsögn. Hann skrifar ljóðrænan, á köflum dulúðugan stíl, sem hæfir efninu; sagan byrjar á harmleik sem er skelfilegri en orð fá lýst, sögumaður er þá lítill drengur í foreldrahúsum á Óðinsgötunni í Reykjavík og harmleikurinn á eftir að fylgja honum það sem eftir lifir æfinnar – sem í sögunni er þegar hann er kominn á fullorðinsár og hefur snúið aftur á bernskuslóðirnar, í húsið við Óðinsgötu.
Sagan er byggð eins og röð smásagna, sem vel má lesa hverja fyrir sig, en best fer á að lesa þær í það minnsta fyrst í stað í þeirri röð sem þær eru birtar; samhengið milli sagnanna er á stundum skýrt, á stundum eilítið þokukenndara, en þó er eins og aldrei slitni þráðurinn á milli þeirra, jafnvel þótt höfundur bregði á leik með sjónarhorn og sögumann. Á stundum er eins og höfundur mæti sjálfum sér, sjái sjálfan sig utanfrá og ögrar lesandanum með því að láta þessa tviskiptu persónu renna saman og verða að einni og skiptir henni svo aftur í tvennt. Engin saga er einstigi, það eru ávallt fleiri leiðir að sögulökum og þótt það sé ögrun í því fólgin að henda reiður á margræðum sannleika er jafnframt fólginn léttir í því að ekkert er bara eins og það virðist, hvert atvik á sér einhvers konar mótvægi og þannig flæðir frásögnin áfram í líðandi straumi sem brotnar á flúðum til þess eins og halda áfram fyrir tilstilli þyngdaraflsins, náttúrulögmálsins.
Þannig er þessi saga, Óbyrjur tímans. Um afskipti dauðans af ástinni. Á endanum er það ástin sem sigrar, en það er önnur ást en sú sem lagði af stað í leiðangurinn, óumflýjanlegur, grimmur og andstyggilegur dauðinn hefur mótað ferðalagið. Mótað það, en hvergi tekið stjórnina, hvergi ráðið för. Þökk sé ástinni.
Það er óskandi að þessi saga rati til lesenda.