Fram undan er fyrsta hljóðritun Íslendings á Flamenco tónlist. Upptökur fara fram í Granada, Spáni haustið 2019. Reynir Hauksson gítarleikari mun hljóðrita 9 frumsamin lög með hjálp nokkurra færustu Flamenco listamanna Andalúsíu.
Reynir Hauksson fluttist til Spánar til að nema Flamenco gítarleik að loknu framhaldsnámi í Tónlistarskóla FÍH. Hann fór að læra hjá helsta gítarkennara Granada, Alberto Fernández López, sem hefur kennt mörgum af færustu Flamenco gítarleikurum samtímans.
Reynir kemur mikið fram í Granada sem einleikari og einnig í meðleik með söng og dansi.
Undanfarin ár hefur Reynir stuðlað að aukinni vitneskju um Flamenco á Íslandi, með framkomu á einleiks tónleikum sem og námskeiðum í tónlistarskólum landsins. Einnig hefur hann í tvígang flutt Flamenco hljómsveit með dönsurum til Íslands og hafa þau sett upp sýningar víða um land. „Síðustu árin hef ég lagt allt til sölurnar í það að læra þetta magnaða listform sem Flamenco er, sú vegferð hefur verið hlykkjótt, torfær en alveg ofboðslega falleg. Samhliða því legg ég mig fram við að semja mín eigin lög, í sem flestum af þeim fjölmörgu Flamenco stílum sem til eru en þeir eru um 35 talsins. Næsta skref fyrir mig er því að hljóðrita mínar eigin Flamenco tónsmíðar.“
Nokkrir þeirra tónlistarmanna sem verða á plötunni hafa komið með Reyni til Íslands til að setja upp Flamenco sýningar, þar má t.d. nefna söngvarann Jacób de Carmen. „Jacób hefur komið með mér tvisvar til Íslands og hann mun koma oftar. Honumhefur verið tekið vel á Fróni og hann kann vel við sig þar í þeirri draumaveröld sem Ísland er. Jacób má líka eiga það að hann hefur sennilega kennt mér hvað mest um Flamenco af öllum.
Flamenco tónlist er upprunnin í Andalúsíu, Spáni. Það er ekki að ástæðulausu sem eitthvað jafn forvitnilegt og Flamenco fæðist þar því Andalúsía hefuru verið menningar suðupottur í árþúsundir. Rætur Flamenco eru margar en þær helstu og mest einkennandi koma úr Sígauna-, Arabískri- og Gyðingatónlist. Við þetta bætist að sjálfsögðu spænsk þjóðlaga tónlist og síðan suður-amerísk tónlist.
En hvað með íslenska tónlist?
„Tónlist er í loftinu, tónlist er loft. Sama hvaðan úr heiminum hún kemur er söngurinn alltaf sá sami, það eina sem breytist hreimurinn. Íslensk tónlist gengur vel upp innan Flamenco rammans. En hvernig upplifir Íslendingur Flamenco?
Það kemur í ljós innan skamms!“