Við Íslendingar erum fámenn þjóð og má kalla kraftaverk að okkur takist að halda úti öllu því menningarstarfi sem sjá má blómstra - mér liggur við að segja útum allt. Sem er þó ekki alveg satt, því það verður líka að segjast eins og er að landsbyggðin er fremur afskipt þegar kemur að deilingu menningargæða. Þess vegna er það þeim mun stórkostlegra þegar birtist vandað fræðirit sem tekið er saman í skjóli Vatnajökuls og hver hefði trúað því? Það heitir „Maddama, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum" og hefur að geyma hvorki meira né minna en 31 grein um þær bókmenntir nútímans sem segja frá konum og kjörum þeirra, auk vandaðs formála eftir Silju Aðalsteinsdóttur.
Það er Soffía Auður Birgisdóttir sem á heiðurinn af þessu afreki. Hún hefur um árabil verið verkefnastjóri við háskólasetrið á Höfn í Hornafirði og útgáfa „Maddömunnar ..." er hluti af hennar rannsóknar- og fræðistörfum þar. Þá er bókin gefin út í tilefni sextugsafmælis Soffíu Auðar og fer vel á því að taka saman gullmolana á slíkum tímamótum og bjóða til lesveislu.
Lesandi bókar er yfirleitt einn um sinn lestur. Lesturinn kallar enda á ákveðna athygli og fer oftast best á því að lesandinn sitji einn að sínu. Að öðrum kosti verður einbeitingin kannski fyrir truflun. En lesandinn getur yfirleitt ekki deilt upplifun sinni með neinum og það getur líka verið miður; stundum vill maður hafa einhvern sér við hlið til að spjalla og spekúlera um það sem vekur hughrif og hugrenningar. Þá er auðvitað hægt að stofna leshring með öðrum og deila sögunni með því að hver lesi upphátt fyrir annan eða skiptast á skoðunum um skáldverkin.
„Maddaman ..." er einmitt slíkur leshringur ef svo má að orði komast. Lesanda er boðið, ekki bara í samtal um skáldverk af fjölbreyttu tagi, heldur til sannkallaðrar veislu í nafni góðra bókmennta og frjórrar umræðu.
Í vönduðum formála að bókinni rekur Silja Aðalsteinsdóttir feril Soffíu Auðar sem bókmenntafræðings og fullyrðir að Soffía Auður sé „einstaklega vandaður, hugmyndaríkur og glöggur gagnrýnandi" og vísar til sjálfrar bókarinnar því til sönnunar ásamt því að benda á dæmi til stuðnings.
Silja bendir á að einkennandi sé fyrir umfjöllun Soffíu Auðar þegar um ræðir skáldkonur sem maður kannast við varpar hún einatt nýju og jafnvel óvæntu ljósi á hugmyndir manns um skáldið og verk þess líkt og sjá má þegar í fyrstu grein bókarinnar, sem fjallar um Sölku Völku eftir Halldór Laxness. Algengast hefur þótt í bókmenntafræðunum að túlka þá sögu sem samfélagslega og/eða pólítíska og Soffía Auður afneitar vissulega ekki því að þannig megi skilja söguna um hana Sölku, en færir hins vegar sterk rök fyrir því að sögu Laxness megi einnig og jafnvel fremur túlka sem þroskasögu Sölku og að það sé samband hennar við nánast ómálga móðurina, Sigurlínu, og skilnaður dóttur og móður sem mótar veg Sölku til fullorðinsára. Þetta er athyglisverð túlkun og gerir óumdeilanlega Sölku að að höfuðpersónu sögunnar.
Fyrri fræðimenn, eins og t.d. Peter Hallberg, einn fremsti okkar um Laxness og verk hans, og Árni Sigurjónsson, sem skrifaði doktorsritgerð sína um Laxness, hafa báðir lyft Arnaldi fram sem aðalpersónu skáldsögunnar og þá er líka ljóst að aðallega er litið til hins pólitíska sögusviðs; í sögulok heldur Arnaldur áfram meðan Salka verður um kyrrt í þorpinu. En Soffía Auður bendir á að í raun sendir Salka Arnald í burtu, hún hættir ekki á að verða upp á hann komin eins og hún sá móður sína verða háða ofstopamanninum og fyllibyttunni Steinþóri. Salka brýst undan því valdaleysi og sektarkennd sem er arfur hinnar mállausu móður og finnur sinn veg til sjálfstæðis; í þessu ljósi er Salka Valka saga Sölku.
Þegar kemur svo að þeim fjölda höfunda sem Soffía Auður tekur fyrir og maður þekkir aðeins af afspurn er það nánast regla og ekki undantekning að fræðileg gagnrýni Soffíu Auðar vekur áhuga manns á höfundinum og verkum hans. Þannig er því til dæmis farið með Ágústínu Jónsdóttur, sem er ljóðskáld sem hefur lent utan radars hjá undirrituðum. Um hana og þrjár fyrstu ljóðabækur hennar, Að baki mánans (1994), Snjóbirtu (1995) og Sónötu (1995) fjallar Soffía Auður og dregur saman höfundareinkenni Ágústínu þannig að áhugi manns og löngun að lesa hlýtur að vakna:
„Stærstur hluti ljóðanna er byggður á einkalegri reynslu af tilfinningum sem fæstir kjósa að deila með fjöldanum. Listræn úrvinnsla slíkrar reynslu er vandasöm; um leið og hún krefst mikils hugrekkis og einlægni af höfundi verður hún að geta vísað út fyrir sig og öðlast almenna skírskotun þannig að lesendur geti samsamað sig yrkisefninu. Það er útfrá þessu atriði sem gleggst kemur í ljós hversu gott skáld Ágústína Jónsdóttir er. Í öllum bókunum sýnir hún frábær tök á ljóðmáli, frumleika og sjálfstæði í myndmálssköpun, um leið og skáldskapur hennar hefur ótvírætt almenna skírskotun."
Bókmenntarýni af þessu tagi staðfestir orð Silju Aðalsteinsdóttur í formálanum þar sem hún talar um vandaða og hugmyndaríka gagnrýni og það er alveg ljóst að Ágústína Jónsdóttir mun fá a.m.k. einn nýjan lesanda á næstunni.
Að lokum má taka sem dæmi grein Soffíar Auðar um Vilborgu Davíðsdóttur og þríleik hennar um Auði djúpúðgu, Auður (útg. 2009), Vígroði (útg. 2012) og Blóðug jörð (2017), en sú bók er tilefni þeirrar greinar sem fjallar um Vilborgu. Soffía Auður setur skáldskap Vilborgar í einkar fróðlegt sögulegt samhengi og einnig í samhengi við samtímann, enda hafa vinsældir hinnar sögulegu skáldsögu farið vaxandi; þá er ekki síður fróðlegt að drepið er lauslega á hið femíska samhengi sögulegra nútímabókmennta og loks er farið orðum um stíl og efnistök og lauslegur samanburður gerður á tveimur skáldsystrum, þeim Vilborgu og Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur - ekki til að setja aðra ofar á stall en hina, heldur til að fræða lesandann og sýna að margs konar brögðum má beita þegar unnið er með þjóðmenninguna og sagnaarfinn.
Allt vekur þetta ómældan áhuga lesandans á að lesa þær bækur sem um er fjallað. Um leið og Soffía Auður leiðir lesanda sinn inn í heim þeirra sagna og þeirra höfunda sem hún tekur fyrir vekur hún áhuga, bæði á því hvernig hún tekur á málum, sinni aðferðafræði og niðurstöðum, en mun fremur vekur hún áhuga á þeim höfundum og verkum þeirra sem hún fer um nærfærnum og ákveðnum fræðahöndum. Soffíu Auði tekst það sem er og á að vera aðalhlutverk bókmenntafræðingsins: að leiða lesandann líkt og góður leiðsögumaður inn í undraheim bókmenntanna og sleppir svo hendi og segir: Njóttu!