Helgi Þór Ingason höfundur og Hilmar Örn Agnarsson organisti og kórstjóri Söngfélagsins
hafa tekið höndum saman og ætla að setja söngleikinn Galdur upp vorið 2020. Helgi Þór er
unnandi söngleikja og aðspurður telur hann að hugmyndin um að setja saman söngleik hafi
kviknað eftir að hann sá Vesalingana í Þjóðleikhúsinu vorið 1988.
Fyrstu lögin í Galdri urðu til nokkrum árum seinna og söguþráðurinn byrjaði að mótast í kringum aldamótin. „Söngleikir snúast oft um einfalda fléttu og átökin milli góðs og ills" segir Helgi Þór. „Þessi saga snýst öðrum þræði um það hve fljót við erum oft að hrapa að ályktunum og dæma. Stundum verður einhverskonar múgæsing í samfélaginu og dómstóll götunnar getur verið býsna
grimmur".
stjórnvöld á þeim tíma vildu gjarnan að athygli lýðsins beindist ekki að erfiðum kjörum
almúgans - og höfðingjunum sem höfðu það gott á meðan alþýðan svalt - heldur að öðrum
óvini. Sum sé andskotanum sjálfum sem tæki sér bólfestu í fólki og að eina ráðið í
baráttunni við andskotann væri að ráðast gegn honum, og senda handbendi hans á bálið.
Söngfjelagið er kór undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. „Við erum 60 manna blandaður
kór og okkur finnst gaman að stíga út fyrir þægindarammann og taka þátt í óhefðbundnum
verkefnum," segir Hilmar Örn.
Galdur verður einmitt vorverkefni Söngfjelagsins og verkið verður sett upp sem leiklestur, með megináherslu á flutning tónlistarinnar. Ýmsir fleiri munu taka þátt í þessari uppfærslu, meðal annarra þjóðlagahljómsveitin Kólga. Mikilvægur áfangi náðist fyrir skemmstu þegar lettneski útsetjarinn Viktors Ritovs lauk við kórútsetningar á tíu lögum í verkinu.
Nú er búið að hleypa af stokkunum hópfjármögnunarátaki á Karolinafund til að fjármagna uppsetninguna, sem er umfangsmikið verkefni. Þeir sem styrkja framtakið geta fengið allt frá miðum á sýningu upp í kvöldstund við flygilinn á heimili höfundarins, þar sem hann útskýrir hugmyndina á bakvið verkið og leikur nokkur lög.
Þeir Hilmar Örn og Helgi Þór hlakka til komandi mánaða í sviðsetningu og æfingum á Galdri. „Við ætlum að magna galdraseið í vor," segja þeir félagar.