Jesper Stein kvaddi sér hljóðs á dönskum krimma- og lögreglusagnamarkaði með bókinni Órói árið 2012 en fyrir hana fékk hann verðlaun Dönsku sakamálaakademíunnar fyrir bestu frumraun. Ári síðar kom önnur bókin í flokknum, Bye, bye, blackbird, og þvínæst sú þriðja, Akrash, árið 2014. Fjórða bókin er svo Aisha, sem kom út á frummálinu – sem er sú fyrsta sem ratar fyrir augu íslenskra lesenda – en á eftir Aishu komu Papa (2017) og Solo (2018). Fari svo að Aisha öðlist vinsældir íslenskra lesenda þarf ekki að hafa áhyggjur af því að Jesper Stein lumi ekki á fleiri spennusögum í pokahorni sínu.
Í sögum sínum teflir Stein fram lögreglumanninum Axel Steen sem á sér þegar komið er að Aishu nokkra forsögu innan lögreglunnar. Fyrir nokkrum árum horfðist hann í augu við dauðann þegar hann tók þátt í meiriháttar leyniaðgerð lögreglunnar, hann er skaddaður á líkama og sál eftir þá reynslu og dóttir hans óttast um líf hans. Hann hefur auk þess neyðst til að flýja heimili sitt og á hann sækja alls kyns draugar fortíðar þegar hann fær nú í hendur stórfenglegt morðmál sem leynir verulega á sér.
Fórnarlambið í morðmáli er fyrrverandi leyniþjónustumaður í hryðjuverkadeild leyniþjónustu dönsku lögreglunnar – og auk þess sannkallaður kvennabósi. Axel vinnur að lausn málsins undir stjórn nýs yfirmanns, sem leggur fæð á hann auk þess sem hann hefur fengið nýjan samstarfsmann innan lögreglunnar, en hvorugt verður til að auðvelda Axel að vinna að lausn málsins. Hann vill auk þess fara nokkuð óhefðbundna leið að lausninni, sem vekur litla hrifningu þeirra sem næst honum standa og verður bæði til að valda Axel skaða – en reynist líka lykillinn að lausninni. Sú lausn er reyndar hættuleg vissum samfélagsöflum og Axel karlinn þarf að berjast á mörgum vígstöðvum þegar árekstrar verða milli rannsóknarinnar og einkalífs hans og hann mætir meiri mótstöðu innan lögreglunnar en hann átti von á.
Skemmst frá að segja tekst Jesper Stein að skrifa ákaflega spennandi, svo ekki sé sagt æsilega frásögn, sem heldur lesandanum föngnum frá upphafi til enda. Axel Steen er margbrotinn karakter, vel saminn af höfundi, sem gerir frásögnina lifandi og trúverðuga. Þar sakar örugglega ekki að Jesper Stein á að baki blaðamannsferil þar sem hann skrifaði m.a. um lögreglumál, enda bera öll atriði sögunnar þar sem sagt er frá störfum lögreglunnar vitni um þekkingu og innsæi, sem spillir ekki fyrir spennunni.
Sagan byrjar sem morðsaga – morðið að vísu óvanalega hrottalegt og viðurstyggilegt – en þegar á líður verður ljóst að rannsóknarhagsmunir stangast á við hagsmuni sterkra og valdamikilla samfélagsafla og sagan þróast yfir í að verða pólítískur spennutryllir þar sem velt er upp mikilvægum spurningum um siðferði og siðfræði, eðli stjórnmála og sérhagsmuna og hvar það fer saman. Í því ljósinu er Aisha saga sem gerist beinlínis í okkar veruleika og nútíma og þótt sögusviðið sé Kaupmannahöfn er varpað fram áleitnum spurningum sem við getum fyrr en varir átt von á að bregði fyrir í Kveik eða Kjarnanum. Heiðarleg ofurhetja sem gerir allt til að ná fram réttlæti fyrir fórnarlömb glæps spyr ekki um sögusvið.
Ólafur Arnarson bregður Aishu í íslenskan búning og ferst það vel úr hendi, stíllinn er lipur og hraður sem hæfir sögu þar sem máli skiptir að lesanda sé haldið við efnið.
Sem fyrr segir má búast við að fleiri sögur um lögreglumanninn Axel Steen rati í hendur íslenskra lesenda; kvikmyndaréttur fyrir fyrstu sögurnar þrjár hefur verið seldur kvikmyndafélagi og Jesper Stein hefur hlotið fjölda verðlauna auk frumraunaverðlauna; Solo, sjötta sagan í bókaröðinni, hlaut Harald Mogensen verðlaun Hinnar Dönsku Glæpasagnaakademíu, árið 2015 hlaut Jesper Stein Dan Thurell orðuna fyrir bókaflokkinn sem slíkan, árið síðar hlotnaðist honum verðlaun danskra bóksala, Gullni lárviðurinn fyrir Aishu og enn ári síðar hlaut Jesper Stein Martha-verðlaunin, sem eru verðlaun sem veitt eru þeim sem flest atkvæði hljóta hjá dönskum lesendum.
Það má því búast við nokkrum svefnlausum nóttum í félagsskap Axel Steen, enda er auðvelt að heillast af hetjum sem berjast fyrir réttlæti lítilmagnans.