Sönnun þess að hægt er að skrifa um myndlist á lifandi og áhrifaríkan hátt

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir skrifar um bókina Vetrargulrætur.

Auglýsing
Vetragulraetur.jpg

Þroskaðar Vetrargulrætur 

Ragna Sigurðardóttir

Útgefandi: Mál og menning 2019

254 bls.

Djúpar rætur

Skáldsagan hefur löngum borið höfuð og herðar yfir önnur bókmenntaform á Íslandi. Hér eru gefnar út fleiri skáldsögur en til að mynda smásagnasöfn og þær seljast betur. Þegar rithöfundar senda frá sér smásögur eru þeir gjarnan inntir eftir því hvenær þeir ætli svo að gefa út skáldsögu. Meðal þeirra sem hafa bent á þennan mismun er rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn en hann hefur sjálfur sent frá sér sjö afar vel heppnuð smásagnasöfn.

Ef til vill má þó segja að íslenska smásagan sé að sækja í sig veðrið.  Á síðustu árum hafa komið út smásagnasöfn sem hlotið hafa verðskuldaða athygli, til að mynda Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Kláði eftir Fríðu Ísberg og Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur, öll frá árinu 2018. Hér á eftir verður fjallað um smásagnasafnið Vetrargulrætur (2019) eftir Rögnu Sigurðardóttur. Bókin var meðal annars til umfjöllunar í bókmenntaþættinum Kiljunni í nóvember 2019 og gagnrýnendur voru á einu máli um að hún væri á meðal stærstu tíðinda í flóðinu þrátt fyrir að „láta ekki mikið yfir sér“ en smásögurnar komu aðeins út í kilju en ekki harðspjaldakápu eins og algengara er með íslensk skáldverk.   

Það er heldur ósanngjarnt að bera skáldsöguna og smásöguna saman á þennan hátt.  Smásagan einbeitir sér gjarnan að einu sögusviði og umfjöllunarefni. Formið býður því upp á að hægt sé að kafa dýpra en í skáldsögu þar sem meira þarf að gerast til að hún standi undir nafni. Þetta gerir Ragna Sigurðardóttir einmitt einstaklega vel í Vetrargulrótum, hún kafar undir yfirborðið og veitir lesendum góða innsýn í líf ólíkra einstaklinga sem leitast við að finna hamingjuna, hver á sinn hátt, þrátt fyrir mótlæti, undirskipun og kúgun. Rétt eins og vetrargulræturnar sem fá að vaxa fram á vetur fær lesandinn á tilfinninguna að sögurnar í bókinni hafi fengið að þroskast og dafna lengi áður en þær komu upp á yfirborðið, fullmótaðar og bragðmiklar. 

Auglýsing
Vetrargulrætur er ellefta bók Rögnu, sem hefur áður sent frá sér skáldsögur, smásögur og þýðingar en fyrsta skáldsaga hennar, Borg, var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1993. Bókin inniheldur fimm smásögur í lengri kantinum en hver um sig telur um það bil fimmtíu síður. Sögurnar gerast á mismunandi tímum við ólíkar kringumstæður en allar eiga  þær sameiginlegt að fjalla um sambönd milli fólks, hvernig við leitumst sífellt eftir viðurkenningu annarra og hvernig við grípum stundum til örþrifaráða til að bjarga þeim sem við elskum. Hið myndræna spilar stórt hlutverk í bókinni en fyrstu fjórar sögurnar fjalla um fólk sem er beintengt myndlistarheiminum. Sögusvið þeirrar fyrstu er blákaldur nútíminn en þar segir frá myndlistarkonu sem hefur fengið aukavinnu á frístundaheimili. Næsta saga gerist í Hollandi árið 1991 og fjallar um ungt par, nýútskrifaða myndlistarmenn þar í landi. Sögusvið þriðju sögunnar er Reykjavík árið 1953 og sú fjórða gerist rétt fyrir hernámsárin á Íslandi. Við förum sífellt lengra til baka í tíma – í fimmtu og síðustu sögunni ferðumst við aftur til ársins 1779 og fylgjum eftir unglingspilti í Eyjafirði. 

Að rækta sambönd

Í sögunni „Ég skal bjarga þér“ er söguhetjan Hildur að hefja sinn fyrsta vinnudag á frístundaheimili þegar hún lendir í óvæntri og óþægilegri atburðarás; barn í hennar umsjá stingur af og týnist. Í framhaldinu fylgjumst við með Hildi strögla við að ná tengslum við þetta barn í vinnunni og sanna fyrir sjálfri sér og öðrum að hún eigi heima þarna, að hún sé barnagælan sem hún telur sig vera: „Þrátt fyrir brussuganginn í mér hænast börn og dýr að mér og hafa gert alla tíð. Ég er stoltari af þessum eiginleika mínum en af nokkru öðru. Meira að segja málverkin mín, sem ég lifi fyrir, falla í skuggann“ (50–51). Þess á milli sinnir hún heimili og börnum og reynir auk þess að viðhalda neista í sambandinu við barnsföður sinn sem dvelur langtímum erlendis vegna vinnu – og ofan á allt annað upplifir hún stöðnun í listsköpuninni.  

Sögumaðurinn í titilsögunni „Vetrargulrótum“, hinn ungi Joris, hefur talsverðar áhyggjur af kærustunni sinni Veru, sem er fjarlægari og daufari en áður og hætt að sinna myndlistinni. „Fyrstu árin eftir að námi lýkur er tíminn til að duga eða drepast,“ segir hann (64). Í viðleitni til þess að gleðja Veru og ef til vill ekki síður hleypa nýju lífi í samband þeirra, tekur hann til sinna ráða, en hugsar málið ekki til enda. Þetta er eftirminnileg saga um sambönd og afbrýðisemi, svik og tryggð. Er réttlætanlegt að blekkja þann sem maður elskar ef það veitir viðkomandi gleði um stund? Ástandið batnar síst þegar Joris áttar sig á þeim möguleika að kærustunni hans gæti hugsanlega farið að ganga betur en honum sjálfum og fyllist logandi afbrýðisemi. Sagan fjallar líka um þá skrítnu stöðu að eiga maka sem lifir og hrærist í sama harða heimi og maður sjálfur. Hvernig gengur það upp að vera í ástarsambandi með manneskju sem er líka keppinautur manns?

Í sögunni „Undirbúningur“ förum við næstum sjötíu ár aftur í tímann. Ungu hjónin Ásta og Finnur kynntust í myndlistarnámi París en eru nú búin að koma sér fyrir í Reykjavík með börnin sín tvö. Ásta syrgir tímann í París þegar hún og Finnur voru jafningjar og hún fékk að taka þátt í myndlistarlífinu, þegar hún var ekki bundin yfir heimili og börnum. Núna upplifir hún aftur á móti útskúfun og virðingarleysi frá eiginmanni sínum. Þegar hún kemst svo að því að hann hefur svikið hana á ófyrirgefanlegan (en jafnframt mjög táknrænan) hátt undirbýr hún hefnd sína hljóðlega og snurðulaust, rétt eins og hún sinnir skyldum sínum á heimilinu. Þetta er sterk saga af konu sem berst við að láta taka sig alvarlega í karlaheimi, á tímum þar sem ekki var ætlast til þess að konur helguðu sig listsköpun. 

Sagan „Fræ í mold“ segir frá tveimur myndlistarkonum, hinni íslensku Höllu og hinnu þýsku Jóhönnu. Sögusviðið er sérlega áhugavert en það flakkar milli Reykjavíkur, Kaupmannahafnar og Berlínar á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Konurnar kynnast í námi í Kaupmannahöfn og sú síðarnefnda dregur Höllu fram úr rúminu þegar hún er illa haldin af skammdegisþunglyndi og melankólíu. Nokkrum árum seinna fær Halla svo tækifæri til að endurgjalda vinkonu sinni greiðann með því að skjóta yfir hana skjólshúsi þegar hún neyðist til að flýja land vegna gyðingaofsókna nasista. Þannig verður úr eftirminnileg saga af djúpstæðri vináttu tveggja kvenna sem ganga saman í gegnum alvarleg veikindi og stríðsógn. Halla ber mikla virðingu fyrir vinkonu sinni sem er snillingur í matjurtarækt, eldar góðan mat, saumar föt á börnin og er nýtin og nostursöm. „Um hver jól sendi hún mér blómafræ. Hún sagði mér hvenær ég átti að sá og hvernig ég ætti að hugsa um plönturnar. Öll inniblómin mín eru komin upp af fræjum frá Jóhönnu. Hvert og eitt einasta. Þvert yfir hafið hefur hún ræktað heilan garð“ (160).  Sagan tekur þó einnig fínlega á skuggahliðum sambands kvennanna. Undir niðri krauma áhyggjur Höllu af því að eitthvað sé á milli eiginmanns hennar og Jóhönnu. Þeim spurningum er þó aldrei alveg svarað og lesandinn þarf að gera upp við sig sjálfur hvort eitthvað hafi verið til í grunsemdum Höllu. Sagan skilur þó einnig eftir stærri og flóknari spurningu – um afdrif þýsku gyðingakonunnar Jóhönnu. Jurtirnar sem vinkonurnar rækta í sameiningu verður myndlíking fyrir vináttu sem nær þvert yfir höf og hefur skotið djúpum rótum þrátt fyrir að flest annað sé fallvalt í þeirra heimi.  

Auglýsing
Sögupersónan í síðustu sögunni, „Ávexti hafgolunnar“, er bláfátækur unglingspiltur, hreppsómagi sem á sér þann draum heitastan að smakka peru úr aldingarði kaupmannsins á eyrinni.  Pilturinn er blindur en mjög næmur fyrir umhverfi sínu, enda hefur hann þurft að skynja það á sinn eigin hátt. Lesandinn verður þess líka fljótt áskynja að hann er feiminn og utangarðs: „Ég veit ekki hvenær aðrir brosa eða gráta í hljóði en ég heyri hvað þau segja og þegar þau hlæja, þótt þau virðist stundum gleyma því“ (224). Besti vinur drengsins er unglingurinn Jónas sem er heimagangur á bænum. Hann kemur fram við drenginn eins og jafningja og þeir fíflast og hlæja saman eða allt þar til Jónas finnur ástina. Drengurinn finnur einmanaleikann hellast yfir sig og aldingarðurinn sem honum er svo hugleikinn verður táknrænn fyrir alla þá hamingju og auðæfi sem hann veit að eru honum utan seilingar. Þrátt fyrir það finnur hann sína leið til að eignast hlutdeild í hamingjunni – hann rænir peru úr garðinum sem hann deilir með sínum besta vini. Rétt eins og í sögunni um vinkonurnar tvær og matjurtagarðinn þeirra verður ávöxturinn hér líka tákn fyrir vináttu; fræ sem er sáð til framtíðar.

Fjólublá hryggð, himinblá hamingja

Kápumynd Vetrargulróta er eftir Rögnu sjálfa en hún lagði stund á myndlistarnám á Íslandi og síðar í Hollandi. Sá bakgrunnur höfundarins leynir sér ekki við lesturinn og næmni Rögnu fyrir smáatriðum, litbrigðum og stemningu skín í gegn. Þessar myndrænu lýsingar þjóna þó alltaf tilgangi, eru ekki aðeins til skrauts heldur mikilvægur hluti af söguheiminum. 

Hildur í sögunni „Ég skal bjarga þér“ tengir fólk við liti og getur gefið ítarlegar lýsingar á klæðaburði þess: „Mig langaði ákaft að lýsa bleika litnum á bolnum hennar líka, hann var hjáleitur við þann fjólubláa. Heitur og út í appelsínugulan tón á meðan sá fjólublái var kaldur.“ (28) Litir eru ekki bara litir, það eru til margir tónar af hverjum lit. Ásta í sögunni „Undirbúningur“ (103) segir: „Á kvöldin eru hlíðarnar fjólubláar af hauströkkri sem ég næ ekki á strigann hvernig sem ég reyni. Hvað er það í þessum lit sem kemur svona við hjartað í mér?“ Og líðan Höllu í sögunni „Fræ í mold“ er beintengd við birtu og veður: „Hún opnaði gluggann þótt kalt væri úti og dró litlu gardínuna frá svo köld nóvemberbirta féll á trégólfið. Ég fékk kökk í hálsinn bara við að sjá hvað skíman var hræðilega grá“ (152) en uppáhaldsherbergið hennar á heimilinu í Reykjavík er aftur á móti himinbláa stofan sem „ er alltaf björt, jafnvel í myrkasta skammdeginu“ (162). 

Bókin Vetrargulrætur er í mínum huga sönnun þess að hægt er að skrifa um myndlist á lifandi og áhrifaríkan hátt. Í þessu samhengi má nefna að mörgum finnst gott að hlusta á umfjöllun um myndlist í útvarpi, þar sem hún krefst þess að við fyllum sjálf upp í eyðurnar með ímyndunaraflinu. Rétt eins og blindi drengurinn í sögunni þurfum við heldur ekki alltaf að sjá hlutina með berum augum til að upplifa þá. Við vitum flest hvernig lyktin af sjónum er án þess að sjá hann og lýsing drengsins á því að smakka tiltekinn ávöxt í fyrsta skipti dugar sennilega til þess að við fáum vatn í munninn: „Ég lyfti einum upp að munninum og beit í, hann var eins og risastórt aðalber, heitt af sólinni, safinn lak niður hökuna á mér.“ (224) Texti sem fjallar á svo áhrifaríkan hátt um skilningarvitin skapar afar eftirsóknarverða upplifun fyrir lesandann, sem kemst ekki hjá því að finna til og skynja með persónunum. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Sigurlaugsson og Sigmar Vilhjálmsson sitja báðir í undirbúningsnefnd hins nýja félags.
Unnið að stofnun nýrra hagsmunasamtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Atvinnufjélaginu er ætlað að vera málsvari fyrir hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þörfin á slíkum samtökum atvinnurekenda er sögð mikil af hálfu stofnenda.
Kjarninn 16. september 2021
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk