Þær Elín Hrund og Sonja Bent hjá Nordic angan hafa staðið að rannsókn á angan íslenskra jurta um nokkurt skeið. Þær ætla að gera þessari rannsókn skil í formi ilmsýningar þar sem gestir og gangandi geta lyktað af íslenskri náttúru og fræðst um eiginleika hennar ásamt því að njóta einstakra ilmupplifana á borð við ilmsturtu Nordic angan, sem var frumsýnd á HönnunarMars síðastliðinn. Til stendur að opna Ilmbanka íslenskra jurta í lok mars 2020 í húsnæði Nordic angan í Álafosskvos, en það vantar herslumuninn upp á að það náist að fjármagna verkefnið og því leita þær eftir stuðningi frá almenningi í gengum Karolina Fund. Kjarninn hitti þær stöllur Sonju og Elínu og tók þær tali.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Mig langaði svo að ná lyktinni af íslenska blóðberginu því hún er svo einstök og yndisleg, segir Sonja. Ég byrjaði að gera tilraunir með eimingar til að ná ilmkjarnaolíum úr jurtum heima í bílskúrnum og svo vatt þetta upp á sig. Eftir að hafa hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði hófum við Elín Hrund svo rannsókn á eimingu íslenskra jurta því það er ekki til nein hefð fyrir slíku hér á landi. Ekki eru heldur til miklar heimildir svo við þurftum að fara í mikið af frumrannsóknum til að finna út hvaða jurtir innihalda ilmkjarnaolíur, hvenær best er að tína jurtirnar og í hvernig veðri svo fátt eitt sé nefnt. Við erum nú komnar með stóran gagnabanka með yfir 100 ilmum sem við munum koma á framfæri á sýningunni Ilmbanka íslenskra jurta. Hún verður sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.“
„Ilmbanki íslenskra jurta snýst um lyktarskynið og íslenska náttúru. Lykt er svo stór partur af lífi okkar. Við erum að fjalla um það hvernig lykt lifir í minni mannsins. Hvernig það að lykta af t.d. gúmmídekki getur vakið upp tilfinningu hjá þér án þess að þú áttir þig á því hvaðan hún kemur eða hvaða minningu hún tengist. Lyktarskynið er svo nátengt bæði minninu og tilfinningunum og er frábrugðið öðrum skynfærum að þessu leiti. Okkur langar að bjóða fólki að kanna tengsl ilms, minninga og tilfinninga í sameiningu með því að þefa af náttúrunni saman!“
Segið okkur aðeins meira um þessa ilmsturtu!
„Ilmsturtuna frumsýndum við á HönnunarMars 2019. Hún er í raun risavaxin ilmkjarnaolíulampi með hreinum íslenskum ilmkjarnaolíum framleiddum af Nordic angan. Ilmsturtan var hönnuð út frá hugmyndafræði Shinrin-Yoku eða Japanskra Skógarbaða og gengur i stuttu máli út á að ganga í skóginum og anda að sér heilnæmu lofti. Rannsóknir japanskra vísindamanna hafa sýnt fram á að Skógarböðin draga úr streituhormónum, bæta ónæmiskerfið og almenna vellíðan. Ástæðuna má finna í ilmkjarnaolíum sem trén framleiða og gefa frá sér til að verjast bakteríum og skordýrum. Skógarloftið lætur manni því ekki bara líða vel heldur virðist það í raun bæta ónæmiskerfið. Okkur fannst það skemmtilegt að færa skógarböðin inn í hús til fólks í formi ilmsturtu þar sem þú getur baðað þig í angan íslenskrar náttúru og notið þess að anda að þér heilsubætandi ilmi skógarins.“