Samtvinnuð örlög kynslóða

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Auður og Auður, sýningu eftir Auði Jónsdóttur sem sýnd er í Landnámssetrinu.

Auður Jónsdóttir og Auður Laxness.
Auður Jónsdóttir og Auður Laxness.
Auglýsing

Landnámssetur: Auður og Auður

Höfundur og sögumaður: Auður Jónsdóttir

Auður Jónsdóttir hefur ákaflega þægilega og viðkunnanlega nærveru. Hún birtist líkt og huldukona á Söguloftinu í Landnámssetri eftir að áhorfendur/áheyrendur hafa fengið sér sæti, yfir hreyfingum hennar hvílir látleysi og hógværð, hún er hlédræg í framkomu og þegar hún hefur sögu sína fetar hún sig varlega inn í söguheiminn, leiðir okkur varfærnislega í upphafi ferðalags sem á eftir að reynast um tveggja klukkustunda langt – en það má vera staðreyndin; í tilfinningunni er sögustundin eins og andartak. Eftir að Auður hefur náð tökum á áheyrendaskaranum er eins og tíminn hverfi, söguheimur Auðar er eitt einasta hér og nú.

Það verður auðvitað ekki hjá því horft að fyrir hvern einasta Íslending sem man afa Auðar, nóbelsskáldið Halldór Laxness, eru sögupersónurnar þekktar – hversu þekktar skal ósagt látið, því það er nú einu sinni þannig að það veldur hver á heldur þegar um opinberar persónur er að ræða. Þær hafa tilhneigingu til að vera býsna ólíkar sjálfum sér eftir því hver horfir og hver lýsir og Halldór Laxness og eiginkona hans seinni hluta ævinnar, afi og amma Auðar Jónsdóttur eru engin undantekning á því. En hér, á Sögulofti Landnámsseturs fáum við að kynnast afa og ömmu Auðar eins og hún þekkir þau, og þó einkum ömmu hennar, Auði, sem hún heitir eftir og sem hún sat hjá í eldhúsinu og átti samskipti við jafnt á barnsaldri sem á unglingsárum. Það er sú Auður amma sem mótaði barnið og unglinginn og það er þeirra sameiginlega saga sem sögð er undir heitinu „Auður og Auður“.

Auglýsing
Að stofni til er frásögnin bók Auðar Jónsdóttur, Ósjálfrátt, sem kom út 2012 og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ósjálfrátt er þroskasaga ungrar stúlku, Eyju, sem er heltekin af þeirri sannfæringu að hún eigi að skrifa; það er sú löngun eða þráhyggja sem rekur hana áfram og fleytir á milli skerja í sögu hennar. Í upphafi sögunnar finnur hún sig nýgifta tuttugu árum eldri drykkfelldum bóhem, sem hafði tjáð henni að án hennar gæti hann ekki lifað – og ekki vildi hún verða völd að dauða hans! Þau setjast að á Flateyri, heimabyggð hans, en þar höfðu skömmu áður fallið snjóflóð eina vetrarnótt sem kostaði fjölda manns lífið og þorpið varð aldrei samt aftur. Stúlkan verður fyrir þrýstingi frá dugmiklum konum, skíðadrottningu og ömmu sinni, sem sjá að þetta hjónaband er dauðadæmt, þær hvetja Eyju til að skilja við mannleysuna, og á endanum ákveður hún að fara til Svíþjóðar að skrifa bókina sem í henni blundar. Í Svíþjóð lendir hún í ýmsum ævintýrum með skíðadrottningunni og er sá hluti frásagnarinnar bæði kostulegur og bráðfyndinn; og í Svíþjóð rekst hún á sögu ömmu sinnar í strætóskýli nálægt Sundsvall og hefst þá athyglisvert og spennandi ferðalag sem gengur úr á að rannsaka hvernig æviskeið kynslóða geta runnið saman, endurtekið sig, rímað og fléttast rétt eins og örlögin væru fyrirfram ráðin – eða hvað?

Það skal játað, að sá sem hér skrifar hefur ekki lesið Ósjálfrátt (úr því skal bætt hið snarasta!) en það kemur ekki að sök, frásögn Auðar er eins sjálfstæð og hægt er og hvergi háð bókinni. Það verður ljóst á frásögn Auðar á Söguloftinu að saga Eyju er saga hennar sjálfrar og nú stígur Auður skrefið til fulls og leiðir okkur í gegnum sjálfsævisöguna milliliðalaust.  Sú saga er í raun samtvinnuð úr örlögum hennar sjálfrar og ömmu hennar og stendur fyllilega undir sínu sem sjálfstæð og heilsteypt frásögn. Hún er þroskasaga Auðar rithöfundar.

Inn í þá sögu fléttast einnig minningar af nóbelskáldinu, afanum og fyrir hvern þann sem er þó ekki sé nema pínulítið ‚starstruck‘, þá er svona ‚name-dropping‘ vel til þess fallinn að áheyrandi sperri eyrun; þetta er með þekktustu brögðum í bók góðra sögumanna og bregst aldrei. En hér er meiri dýpt í ‚frægranafnaslettunum‘ en venja er – það fræga fólk sem hér er nefnt til sögunnar eru áhrifavaldar í sögu Auðar og hún afhjúpar hvernig þessi áhrif virka, hún er opin og hreinskilin með það hvernig þetta fræga fólk, áhrifavaldarnir í lífi hennar, hafa líkt og góðir leiðsögumenn leitt hana sjálfa frá því að vera ráðvilltur unglingur sem hvað sem gáfum og góðri greind leið, tók stöðugt rangar ákvarðanir, yfir í að vera sá rithöfundur sem blundaði í brjósti hennar og tókst á endanum að brjótast út og blómstra.

Það er fremur erfitt að ímynda sér að Auður Jónsdóttir, þessi lágvaxna kona með þennan blíðlynda svip, geti hafa verið vandræðaunglingur. En saga hennar er trúverðug og hún styður með nægilega mörgum fallegum, mannlegum dæmum að vandræðaunglingar eiga líka skilið að njóta skilnings og fá það svigrúm sem þarf til að láta draumana rætast.

Og þegar að er gáð eins vel og unnt er og öllu á botn hvolft – erum við ekki öll á einhvern hátt þess ‚vandræðaunglingur‘ sem þarf svigrúm til að láta draumana rætast – og þurfum á stundum bakhjarla og bjargvætti sem leiða okkur áleiðis á lífsbrautinni þar til við getum látið okkar eigin drauma, langanir og þrár ráða för.

Það er ekki amalegur boðskapur að fá með sér í veganesti þegar sögustundinni á Sögulofti lýkur, sögukonan, huldukonan, kvödd og haldið út í veturmyrkrið í Borgarnesi og áleiðis heim. Ríkari en var.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Þröstur Ólafsson
Hvað á ég að kjósa?
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk