Kvenfélagið Garpur í samvinnu við Borgarleikhúsið: Er ég mamma mín?
Höfundur og leikstjórn: María Reyndal
Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson
Tónlist og hljóðmynd: Úlfur Eldjárn
Búningar: Margrét Einarsdóttir
Aðstoð við handrit, dramatúrgía: Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson
Leikendur: Katla Njálsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, María Ellingsen, Kristbjörg Kjeld, Sigurður Skúlason, Arnaldur Halldórsson.
Á Íslandi hefur þróun þess þjóðfélags sem við nú byggjum og búum á köflum orðið óþyrmilega hröð. Ekki eru liðin nema um það bil tvær og hálf öld síðan dönsk yfirvöld munu hafa velt því fyrir sér í fullri alvöru að flytja þjóðina – það sem eftir lifði af henni – á jósku heiðarnar til að hefja þar nýtt líf í kjölfar Móðuharðindanna; það samfélag sem við sjáum í dag hefur því í aðalatriðum verið byggt upp frá þeim tíma.
Nútímamaðurinn hefur, auk þeirrar áskorunar sem felst í því að byggja nútímasamfélag, fengið aðra áskorun að berjast við, og það er hinn andlegi arfur, fenginn frá fyrri kynslóðum skal ávaxtaður og komið áleiðis til næstu kynslóðar. Ef litið er til sálfræðinnar er það drjúg áskorun og kostar marga heila æfi að takast á við.
Það má ugglaust leiða rökum að því að hópur sem undir er í samfélaginu á erfiðara með að brjótast úr viðjum hins neikvæða andlega arfs en hópur sem ræður ríkjum í samfélaginu. Ef litið er til aðstöðumunar karla annars vegar og kvenna hins vegar, eiga karlarnir yfirleitt auðveldara með að takast á við arf sinn – hann er ráðandi, og þau gildi sem hann ber með sér ráðandi gildi – meðan konur þurfa að kljást við sinn andlega arf og samtímis þá staðreynd að þeirra arfur er ósýnilegur, leyfist ekki að koma upp á yfirborðið.
Það má í stuttu máli orða það þannig að meðan karlar njóta yfirleitt nokkurs góðs af sínum arfi, þurfa konurnar að kljást við að hafa fengið minnipokaarf í hendur – þær þurfa að berjast við arfinn frá formæðrum sínum og á sama tíma takast á við feðraveldið, karlaveldið. Og þá má spyrja, hvort nokkurn tímann megi búast við því að samfélagið verði heilbrigt og mannvænlegt fyrr en nokkurt jafnvægi hefur komist þar á?
Eitthvað á þessa leið gætu þær hugsanlega hafa verið, pælingarnar sem urðu til þess að María Reyndal skrifaði Er ég mamma mín? Í þessu margbrotna og að mörgu leyti slungna verki er varpað ljósi á þrjár kynslóðir kvenna, umhverfi þeirra og hvernig þær takast á við miðlun hins andlega arfs frá einni kynslóð til annarrar. Verkið gerist á tveimur tímplönum og er sterkt samband og samhengi milli þeirra, að stofni til er sögð saga sömu fjölskyldu.
Katla Njálsdóttir leikur dótturina Ellu fyrri tíðar, sem er kringum 1980 (forsetaframboð Vigdísar kemur þar við sögu), Sólveig Guðmundsdóttir leikur móður hennar, faðirinn er í höndum Sveins Ólafs Gunnarssonar og erlenda vinkonu mömmunnar leikur María Ellingsen. Í nútíma er móðirin leikin af Kristbjörgu Kjeld, Sólveig leikur Ellu (dótturina), faðirinn er að mestu fjarverandi í seinni hlutanum en birtist í lokin, leikinn af Sigurði Skúlasyni, eiginmaður Ellu, Guðjón, er leikinn af Sveini Ólafi, sonur þeirra Ellu og Guðjóns, Matthías, er leikinn af Arnaldi Halldórssyni, en Áslaug, vinkona Ellu er leikin af Maríu Ellingsen, sem fer auk þess með hlutverk heilbrigðisstarfsfólks sem einnig kemur við sögu.
Þessi strúktúr verksins að segja sögu tveggja tíma er að mörgu leyti snilldarlegur og gefur gott færi á að sýna hvernig stefnur og straumar berast á milli kynslóða. Það má einnig segja, að tímarnir hafi fært höfundi þennan möguleika upp í hendurnar. Móðir Ellu í fyrri tíma atriðunum er kúguð (og finnst það tæpast athugavert) en tímarnir eru að breytast og hún vill á endanum láta eitthvað úr sér verða; kynnin við hina erlendu Rachel hafa áhrif á hana. Eiginmaðurinn á hins vegar í miklu basli með að taka þessari umbreytingu á eiginkonu sinni og ákveður á endanum að yfirgefa hana. Skilnaður er óumflýjanlegur og faðirinn hverfur úr lífi Ellu, en harmleikurinn, skilnaðurinn, bitnar á henni, meðan móðirin flýr inn í biturleikann og sú verður lausnin að líta á föðurinn einfaldlega sem dáinn.
Í seinni hluta verksins eru það Ella (nú fullorðin og leikin af Sólveigu) og móðir hennar (nú öldruð og leikin af Kristbjörgu Kjeld) sem gæta leyndarmálsins vandlega gagnvart syninum, Matthíasi, sem uppgötvar auðvitað á endanum að hann á afa og vill nú bjóða honum í fermingarveisluna sína sem í vændum er. Það kostar auðvitað gríðarlegt uppgjör, þar sem einkum þær Sólveig og Kristbjörg fara á kostum og auðvelt að bæta því við hér, að íslenskt leikhús hefur tæplega á að skipa mörgum jafnfrábærum leikkonum og þeim tveim.
Ekki skal ljóstrað upp um endinn – það væri ljótt að ræna væntanlega áhorfendur lokum sögunnar. En það er samt ekki hægt annað en dást að lokareplikku ættmóðurinnar, Kristbjargar, þar sem hún hótar því innan af klósetti, að verða þá „bara meira en hundrað ára gömul“ ... og það má vel velta því fyrir sér, hvort það sé hin endanlega lausn á vandanum – þeim vanda hvernig samþykki við því að vera kúguð færist milli kynslóða.
Það má eflaust rýna í leikverk Maríu Reyndal og finna á því einhverja hnökra. Hér standa þó kostirnir uppúr, enda er augljóst að ekki einasta leikhópurinn hefur tekið textann að hjarta sínu og gert að sínum, heldur er langt síðan undirritaður hefur séð áhorfendahóp gleypa jafn svikalaust við sögu á leiðsviðinu; það lá við að áhorfendur skiptust í hópa eftir því með hverjum þeir stóðu og það hefði sannarlega ekki komið á óvart þótt einhverjir hefðu staðið upp og hrópað „sláðu hann, Sólveig!“ eða „kýld‘ann, Kristbjörg!“ Samúð áhorfenda með barninu Ellu var beinlínis áþreifanleg, þegar hún biður til Guðs og segist muni gera allt fyrir Hann, bara ef foreldrar hennar muni ekki skilja. Er það ekki leikhús eins og best gerist?
María byggir umhverfið í fyrri hlutanum svo ekki verði um villst úr hvaða hugmyndaheimi sagan er sprottin. Í nokkrum stuttum og hnitmiðuðum atriðum sjáum við ákaflega vel hvernig skipting hlutverka gerist á heimilum, faðirinn er fyrirvinnan og ræður, hún þjónustar hann og fer að hans vilja í einu og öllu. Á köflum fannst undirrituðum hann aftur vera kominn í Lindarbæ 1971 – þeir skilja sem vita!
Hér má spyrja, hvort ekki hefði mátt gera ívið minna úr kúgun móðurinnar? Verður hún ekki að hafa einhverja sterkari spyrnu sem opnar henni sýn til sjálfstæðis? Þetta er spurning um lögn hlutverks móðurinnar í fyrri tíma atriðunum og enginn dómur; Sólveig sýnir að hún er með okkar albestu leikkonum og sem fyrr segir er samleikur hennar og Kristbjargar í seinni tíma atriðunum með því átakamesta sem sést hefur á sviði í langan tíma og þá er samleikur hennar og Sveins Ólafs ekki síðri enda eru þau þaulvön að leika saman.
Reyndar er samleikur ákaflega glæsilegur eiginleiki þessarar sýningar. María Ellingsen fer með nokkur hlutverk og er ánægja að sjá hana á sviði – er ekki kominn tími til að nýta krafta hennar meira og betur í íslensku atvinnuleikhúsi? Unga fólkið, þau Katla Njálsdóttir í hlutverki Ellu ungrar, og Arnaldur Halldórsson í hlutverki Matthíasar, sonar Ellu og Guðjóns, standa sig frábærlega. Þau eru enda bæði allvön að koma fram á sviði, Katla hefur leikið í Föngum, Mannasiðum og Hjartasteini, Arnaldur hefur leikið í Matthildi og mun innan tíðar sjást á sviði í Kardimommubænum. Það verður örugglega ánægjulegt að fylgjast með ferli þeirra í framtíðinni. Þá skulu nefnd þau Kristbjörg Kjeld og Sigurður Skúlason – Kristbjörg fer meira en á kostum í hlutverki hinnar öldruðu ættmóður, hvert tilsvar beinskeytt og eins eitrað og þarf, hver augngota, hver hreyfing handa. Sigurður hefur það erfiða hlutverk með höndum að birtast í bláendann líkt og „deus ex machina“ – það er búið að lýsa honum vandlega sem mannhundi og erkiskúrki og nú hefur Sigurður örfáar sekúndur að verja sinn karakter og sýna á honum mannlega hlið og gerir það svo maður kemst við og skilur að jafnvel þessi óþokki á sér málsbætur og mannlega hlið. Og birting hans er aukinheldur nauðsynleg til að ættmóðirin geti nú sýnt og sannað að það er nákvæmlega ekkert að hennar meðvirkni; í þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga á hún engan sinn líka!
Ekki verður svo skilið við Er ég mamma mín? án þess minnst sé á hugvitssamlega leikmynd Egils Ingibergssonar – um leið og gengið er inn í salinn blasir fortíð og nútími við, hvorttveggja í senn, og hver leikmunur sem notaður er er upp með veggjum í bókstaflegum skilningi, leikarar tína af vegg það sem nota þarf, eldhúsáhöld, hátíðarsteik, og skila því svo aftur á sinn stað – hér er beinlínis leikið á leikmyndina líkt og sé hún hluti af sögunni sem verið er að segja. Sem hún raunverulega er. Þá skapar tónlist Úlfs Eldjárns andblæ fyrri tíma og nútíma í samræmi við rás atburða.
Á heildina litið er Er ég mamma mín? vel gerð sýning, hugvitssamleg og samkvæm sjálfri sér. Hún er í beinu samtali við okkar samtíma og vekur upp áleitnar spurningar sem augljóst er að áhorfendur finna fyrir og taka afstöðu til – viðbrögð áhorfenda sýndu svo ekki var um að efast að þeir kunna gott að meta, áleitið efni, snjöll efnistök,glæsilega umgjörð og fantagóðan leik.