„Er ég að ganga inn um rétta hurð? Hver er þessi dökkklæddi maður með grímuna fyrir vitunum? Af hverju er hann að spyrja mig hvort ég sé með einkenni?“ hugsaði ég þegar ég gekk inn í Turninn við Smáratorg, örlítið syfjaður, rétt fyrir kl. 8:30 í morgun.
Ég var fljótur að ranka við mér, auðvitað voru þetta eðlilegar spurningar og móttökur á stað þar sem hátt í þúsund manns koma nú á degi hverjum til þess að láta starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar athuga hvort þeir séu með hana. Veiruna sem allt hverfist um.
„Nei, engin einkenni og nei, ég er ekki í sóttkví,“ sagði ég, en spurningin um sóttkvína fylgdi strax á eftir spurningunni um einkennin.
Full þörf virðist á því, þar sem bæði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hafa brýnt fyrir fólki að mæta alls ekki í Turninn í sýnatöku sé það í sóttkví.
Á þessu var einnig imprað í skilaboðum sem ég fékk frá Íslenskri erfðagreiningu í vikunni, en þar var fólki bent á að sóttkvíin nær líka yfir komu í sýnatöku vegna COVID-19. „Mæting í slíka sýnatöku er brot á sóttvarnalögum og við slíkum brotum eru þung viðurlög,“ sagði í SMSinu.
Það er þó ekki búið að skipa mér í sóttkví, ennþá hið minnsta, og gekk ég því að lyftu sem flutti mig og fleiri upp á fjórðu hæð í Turninum.
Veirupinninn lengri en hann virðist
Þar tók við eldsnöggt ferli sem var í höndum fjölda starfsmanna sem allir voru klæddir í ljósblágrænan hlífðarfatnað með grímur.
Ég kynnti mig við móttökuborðið og fékk nær samstundis fylgd inn í sýnatökuherbergi þar sem tveir starfsmenn biðu, báðu mig um að standa fjarri sér og létu mig þylja upp kennitöluna mína til þess að staðfesta að ég væri virkilega sá sem ég segðist vera.
Þegar ljóst þótti að ég væri ekki að villa á mér heimildir var gengið fumlaust til verks.
„Þetta verður smá óþægilegt,“ heyrði ég sagt áður en að veirupinninn stakkst upp í vinstri nösina og hálfa leið ofan í maga. Lengra en ég hef hefði talið skynsamlegt.
Síðan opnaði ég munninn upp á gátt, sagði „aaaa“ eins og forsetinn og fann veirupinnann strjúkast nokkrum sinnum við úfinn áður en mér var þakkað fyrir komuna og vísað aftur í lyftuna og út.
Allt í allt tók þetta ferli um það bil sex til átta mínútur, frá því ég steig inn um dyrnar og þar til ég var kominn aftur fyrir utan Turninn.
Niðurstöður eru væntanlegar eftir einn til tvo daga. Vonum það besta. Tölfræðilega eru líkurnar litlar, en undir 1 prósent af þeim þúsundum Íslendinga sem þegar hafa kíkt til Kára hafa reynst smituð af veirunni.