Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir sat með kaffibolla við eldhúsborðið á heimili sínu á Reyðarfirði að morgunlagi snemma árs í fyrra og spurði sjálfa sig nokkurra hreinskilinna spurninga. Á lítið þekkt tónlistarkona á fertugasta og öðru aldursári að ráðast í að gefa út plötu með sínu eigin efni? Hefur téð kona eitthvað sérstakt fram að færa? Þorir hún að taka þennan slag? Á meðan kaffið kólnaði í bollanum var spurningunum svarað játandi og ákvörðunin tekin. Árið 2020 skyldi koma út plata og Jóhanna valdi að safna fé til útgáfunnar á Karolina Fund.
Hvernig kviknaði hugmyndin að plötunni?
„Hugmyndin kviknaði fyrst árið 2007. Þá hafði ég verið að semja texta árum saman og var farin að semja lög líka. Full af eldmóði hljóðritaði ég tökulag með eigin texta í janúar 2008. Ég var staðráðin í að halda áfram að taka upp og gefa út plötu en líf mitt tók miklum stakkaskiptum þetta ár og næstu árin sem á eftir fylgdu.
Segðu okkur frá þema plötunnar?
„Textarnir á Seljan fjalla um mannlega hegðun og tilfinningar á borð við einmanaleikann, ástina, eftirsjá og þá staðreynd að við erum öll bara mannleg, með þeim kostum og göllum sem því fylgir. Lögin sjálf eru frekar fjölbreytt og á plötunni er hægt að finna bræðing af blús, djass og rokki.“
Hvernig hefur undirbúningsferlið gengið?
„Það hefur verið bæði skemmtilegt og krefjandi. Að semja texta og koma honum niður á blað er eitthvað sem er mér frekar eðlislægt. En það sama á ekki við um lögin þar sem ég spila ekki á hljóðfæri og les illa nótur. Ég þarf því að hafa mikið fyrir að koma lögunum úr kollinum á mér og yfir á það form sem hljóðfæraleikarar geta lesið. Ég er afar lánsöm að þekkja dásamlegt fólk sem hefur gott tóneyra og mikla þolinmæði sem kemur sér vel þegar ég reyni að útskýra hljómana sem mig langar til að nota án þess að geta sagt hvað þeir heita. Þessi takmörkun mín styrkir bara sjálfsbjargarhvötina og gerir mig ennþá einbeittari í að semja lög. Stærsta hindrunin sem ég þurfti að takast á við var hræðsla mín við að vera berskjölduð. Það er eitt að standa uppi á sviði og syngja annara manna lög, allt annar handleggur að syngja eigið efni þegar maður er alsendis óvanur því. En ég elska að syngja, koma fram og skapa og sú löngun og þrá er margfalt sterkari en allur ótti. Ég hlakka ólýsanlega mikið til þegar platan kemur út í haust, þá má líka segja að rúmlega 12 ára ferli sé lokið og stórum áfanga náð.“