Kvenleg reynsla, ósvikin kómík

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um sýningu Reykjavik Ensemble, Polishing Iceland.

polishing.jpg
Auglýsing

Reykjavik Ensemble í samvinnu við Tjarnarbíó: Polishing Iceland

Höfundur: Eva Marcinek

Leikgerð, leikstjórn og hönnun búninga: Pálína Jónsdóttir

Leiktextafræðingur: Angela Rawlings

Tónlist og hljóðhönnun: Anna Halldórsdóttir

Hönnun lýsingar: Juliette Louste

Leikarar: Magdalena Tworek, Michael Richardt, Pétur Óskar Sigurðsson

Polishing Iceland er það sem á stundum hefur verið kallað „líkamlegt leikhús“ – sem er leiklist sem byggir á sterkri og meðvitaðri líkamstjáningu leikarans. Meistarar slíks leikhúss í Evrópu eru menn á borð við Jerzy Grotowski sem ýtti hugmyndinni um líkamstjáningu leikarans út á ystu nöf og gerði kröfur til leikara sinna um að beita líkamanum á óhefðbundinn hátt og fara út fyrir realisma og natúralisma til að geta fangað kjarna þeirrar tilfinningar sem verið var að tjá. Leikhús það sem kennt er við Grotowski er einatt nefnt „The Poor Theatre“, sem lýsir vel þeim mínímalisma sem hann beitti; áherslan var á leikaranum og tjáningu hans. Það má einnig nefna í þessu sambandi Eugenio Barba, ítalskan leikstjóra sem vann um tíma með Grotowski en ferðaðist síðar til Indlands þar sem hann sótti innblástur í indverska dansinn Kathakali, sem var nýmæli á Vesturlöndum. Ekki má heldur gleyma snillingum á borð við Peter Brook, Jacques Copeau og Joan Littlewood, sem öll voru innblásin af japanska No-leikhúsinu; forveri þeirra var faðir „leikhúss grimmdarinnar“, Antonin Artaud, sem sótti innblástur í leikhúsmenningu Bali. Þessir frumkvöðlar lögðu grunninn undir þá stefnu að brjóta tjáningu hins vestræna leikara úr menningarviðjum hennar – en, eins og leiða má rök að, er einnig leiklistin undir þá menningu lögð þar sem hún á sér stað.

Þetta „líkamlega leikhús“ einkennist af því að leikarinn nýtir sér í ríkari mæli tónlist, dans, myndlist og fleira í þeim dúr en aðeins hið hefðbundna „leikhús orðsins“, sem er og hefur verið ríkjandi tjáningarform leikhúss á Vesturlöndum – enda liggja rætur þess í leiklist forngrikkja, sem var til á fimmtu öld fyrir Krist og markaðist af sterkri, retórískri orðræðu, enda hluti af samfélagsþróun þeirra tíma þar sem einnig mælskulist og lýðræði haslaði sér völl í stjórn samfélagsins og menningu þess. Þá eru einnig mörkin milli sviðs og salar, leikara og áhorfanda, einatt rofin þannig að úr verður líkt og Brechtísk nálgun sem kallar á sameiginlegan skilning beggja vegna sviðsbrúnar – áhorfendur fá að uppgötva í stað þess að eingöngu treysta á tilfinningar sínar. Þannig ögrar hið „líkamlega leikhús“ hinu Aristótelíska leikhúsi, þar sem áhorfendur áttu að ganga í gegnum tilfinningalega hreinsun og í stað þess öðlast nýjan, vitrænan skilning á samfélaginu og samtímanum.

Þessi leikstíll er sem fyrr segir ráðandi í sýningu Pálínu Jónsdóttur þar sem smásögur Evu Marcinek liggja til grundvallar; þær segja frá reynslu hennar sem innflytjanda til Íslands frá Póllandi og það verður ekki annað sagt en Eva hafi bæði næmt auga og góða tilfinningu fyrir menningarmun þeim, sem ríkir á milli hinna tveggja menningarheima, Póllands og Íslands. Nú skal það tekið fram að undirrituðum hefur ekki gefist færi á að lesa sögur hennar í frumgerð, en ef marka má þau atriði sem fljúga hjá á leiksviði Tjarnarbíós nálgast hún viðfangsefnið með bæði klínískri nákvæmni, eftirbreytnisverðri virðingu og miklum húmor. Þar með einnig sagt að hún sneiðir hjá klisjum og ódýru fordómakitli, sem er ekki síður til fyrirmyndar og styrkir hina listrænu viðleitni.

Auglýsing
Sýningarhöfundinum og leikstjóranum Pálínu Jónsdóttur nýtist þessi efniviður vel og hún býr hann í sviðsgerð sem er einkar frjálsleg, hrífandi og örvandi fyrir ímyndunarafl áhorfandans; áhorfandinn er þannig virkjaður og verður óhjákvæmilega hluti af sýningunni.

Polishing Iceland er vissulega tvíræður titill, ef ekki þríræður: Hér er verið að slípa myndina af Íslandi og fanga það sem er einkennandi, það er verið að gera Ísland ívið pólskara – og veitir kannski ekki af! – og það má jafnvel finna vott af gagnrýni á þá viðleitni okkar að fegra Ísland og allt sem íslenskt er. Við fylgjumst með hinum pólska innflytjanda, sem leikinn er af Magdalenu Tworek, þar sem hún tekst á við menningarárekstra sem eiga sér óhjákvæmilega stað í hinu nýja heimalandi; hinn súrrealíski heimur snýr að öllu mannlegu: tungumálinu, siðum, mat og – líkamstjáningunni.

Sýningin samanstendur af stuttum atriðum, eins konar svipmyndum, sem sýna hvernig átök geta orðið til milli tveggja menningarheima. Sumt kemur þar á óvart, annað hljómar frekar kunnuglega eins og við má búast. En allar eru þessar svipmyndir tær dæmi um hvað mætir þeim sem ætlar sér að takast á við að samsama sig nýjum siðum, nýjum skilningi og nýrri menningu. Þetta er veröld sem allir innflytjendur heimsins kannast við og það eru til allrar hamingju æ fleiri Íslendingar líka farnir að kannast við þessi atvik enda fjölgar hratt þeim Íslendingum sem deilt hafa kjörum með öðrum þjóðum. Sýning Reykjavik Ensemble – já, sjálf stofnun og tilurð þessa leikhóps! – er áþreifanleg sönnun þess að Ísland færist nær því að verða hluti af alheimi og við Íslendingar hluti af mannkyni heimsins.

Þá skaðar ekki heldur að yfir sýningunni hvílir sterkur andi kvenlegrar reynslu og kvenlegra gilda. Það þarf kannski ekki að koma á óvart – þríeykið Eva Marcinek, Pálína Jónsdóttir og Magdalena Tworek eru greinilega vel meðvitaðar um að reynsla og upplifun kvenna af því að vera lítilmagninn er annars eðlis en reynsla karla og það er hreint ekkert að því að vera minntur á það af og til. Það er svo bara meira gaman að því þegar það er gert með ósvikinni kómík eins og gert er í Polishing Iceland, en leikararnir ná að halda hárfínu jafnvægi milli þeirrar kómíkur sem í sögum Evu Marcinek býr og þess boðskapar sem sögur hennar koma á framfæri.

Leikið er á þremur tungumálum, sem veldur þó engum misskilningi, svo greinilega sem allt er fram sett og tjáð: íslenskan, pólskan og enskan hljóma nokkuð jöfnum höndum og eiga á sinn hátt sinn þátt í að valda misskilningi og greiða úr honum; en alls staðar má finna næmni fyrir efninu og það klætt í málfarslegan og líkamlegan búning af því tagi sem við erum óvön hér á landi. Það er auðséð og auðfundið að Pálína og leikhópur hennar hefur borið með sér andblæ framandi menningar inn á leiksvið Tjarnarbíós og það er vel. Íslenskt leikhús hefur einatt borið með sér að vera háð orðinu sem er í sjálfu sér ekkert einkennilegt – við teljum okkur bókmenntaþjóð og byggjum að stórum hluta sjálfsmynd okkar á því og það hlýtur því að vera kappsmál að færa orðsins list upp á leiksviðið og koma þá einnig orðum yfir alla þá list sem treystir á annars konar tjáningu – dans og hreyfingu, myndlist, tónlist. Það hefur verið okkar ríkidæmi, bókaþjóðarinnar. En Pálína sem listrænn stjórnandi Reykjavik Ensemble og hennar listræna teymi sýnir og sannar að til er annað ríkidæmi sem er ekki síður magnað og nær að fanga tilfinningu og stemningu sem hefðbundin orð ná ekki yfir.

Eitt skal áréttað: hér hefur orðið tíðrætt um hið „líkamlega leikhús“ og bent á frumkvöðla sem kunna að hafa veitt leikstjóranum Pálínu Jónsdóttur innblástur og hughrif. En það er einnig nauðsynlegt að geta þess, að sem leikstjóri bregður hún sínum eigin lit á allt sem fram fer á sviðinu. Pálína er leikari og dansari að mennt og hefur einkum starfað í Bandaríkjunum þar sem hún lauk námi frá MFA Theatre Directing Program við Háskólann í Columbia, en þar áður hafði hún starfað meðal annars sem leikari um árabil. Yfirbragð sýningar hennar ber vitni um hennar eigin stíl og áferð. Hreyfingar leikaranna þriggja eru skýrt og vel skipulagðar, ekkert smáatriði er tilviljun háð heldur hluti af frásögninni og miðlar merkingu; þessi vinnubrögð eru fáséð á íslensku leiksviði og væri svo sannarlega gaman að sjá áhrifa af þessum vinnubrögðum gæta víðar.

Reykjavík Ensemble er alþjóðlegur leikhópur sem stofnaður var á síðastliðnu ári og Pálína Jónsdóttir er listrænn stjórnandi hans. Það er óskandi að þessi frjóa og eggjandi viðbót við íslenskt leikhúslíf fái að vaxa og dafna um langa framtíð.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu
Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?
Kjarninn 16. maí 2021
Um það bil helmingur Dana afþakkar fjölpóst.
100 þúsund tonn af auglýsingapésum
Mánaðarlega fá Danir samtals átta til níu þúsund tonn af auglýsingapésum inn um bréfalúguna. Stór hluti pésanna fer ólesinn í ruslið. Nú ræðir danska þingið breytingar á reglum þannig að borgararnir þurfi að biðja um að fá pésana.
Kjarninn 16. maí 2021
Tony Blair segist vera með lausnir á vanda Verkamannaflokksins og raunar annarra stjórnmálaafla frá miðjunni og til vinstri.
Tony Blair segir að Verkamannaflokkurinn þurfi að fara alveg á byrjunarreit
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands segir að sinn gamli flokkur eigi sér ekki viðreisnar von ef hann haldi áfram á sömu braut. Algjörrar endurræsingar sé þörf, bæði í efnahagsmálum og umræðum um samfélagsmál, þar sem þeir róttækustu vaði uppi.
Kjarninn 15. maí 2021
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað – frá Búrgundí í Bústaðahverfið“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr hvers vegna íslensk stjórnvöld viðhaldi einokunartilburðum varðandi áfengissölu.
Kjarninn 15. maí 2021
Davíð Helgason, stofnandi og fyrrum forstjóri Unity.
Vorblað Vísbendingar er komið út
Vísbending hefur gefið út sérstakt vorblað þar sem nýsköpun er í brennidepli. Blaðið er opið öllum, en í því má meðal annars finna viðtal við Davíð Helgason, stofnanda Unity.
Kjarninn 15. maí 2021
Þótt almennt atvinnuleysi hafi dregist saman fjölgar í hópi langtímaatvinnulausra
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði fjölgaði um 288 í síðasta mánuði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ráðist í átak til að draga úr atvinnuleysi hópsins. Atvinnuleysi hjá þeim sem hafa verið án vinnu skemur en sex mánuði dregst saman.
Kjarninn 15. maí 2021
Jarðfræði á mannamáli
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá sjötti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 15. maí 2021
Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur
Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist.
Kjarninn 15. maí 2021
Meira úr sama flokkiFólk