Það er skothelt ráð að hlusta á tónlist til að næra sálina, segir Auður Jónsdóttir rithöfundur. Að skapa, sem getur verið allt frá því að búa til mat, teikna mynd eða skrifa sögu, kveikir flæði hið innra sem aftur veitir hamingjutilfinningu. „Á meðan hugurinn skapar gleymir maður sjálfum sér og umheiminum og verður þess í stað fullur af einbeitingu, sköpunargleði og orku.“
Auður er í hópi valinkunnra Íslendinga sem ritstjórn Kjarnans bað um að veita lesendum góð ráð um hvernig hægt er að rækta líkama og sál á tímum kórónuveirunnar.
Fimm ráð Auðar fara hér að neðan.
Góður göngutúr
Ráð númer eitt, sem mér finnst allra mikilvægast, er að fara í góðan göngutúr. Helst tvo á dag, ef maður kemur því við. Bara það að ganga opnar vitundina, fyllir brjóstið af kjarki og súrefni, svo ekki sé minnst á allt D-vítamínið þegar sólin skín, og heimurinn stækkar úr því að vera tölvuskjár fullur af hamfarafréttum yfir í endalausa sjóndeild.
Ef ég finn fyrir depurð eða streitu bregst ekki að göngutúr kippir því í lag. Ef maður býr í Reykjavík er til dæmis gott að rölta Skerjafjörðinn og Ægissíðuna og/eða út í Gróttu. Svo skilst mér að göngutúrar séu góðir fyrir ónæmiskerfið. Og súrefnismettunin er kröftugri í útilofti en inni.
Hlusta á tónlist
Ráð númer 2 er að hlusta á tónlist. Tónlist getur haft svipuð áhrif á okkur og nánd, hún seður tilfinningar og veitir svörun. Svo ef maður þarf að hanga mikið einn, í sóttkví eða bara því svo lítið er um að vera, þá er skothelt að hlusta á tónlist. Helst allskonar tónlist til að fá svörun við allskonar tilfinningum og leyfa huganum að flæða.
Stunda sköpun
Ráð númer þrjú er að stunda einhvers konar sköpun. Listsköpun getur falist í því að búa til mat, rétt eins og að teikna mynd, búa til vídeó, glamra á gítar eða skrifa sögu. Sköpun getur líka verið að sauma út, halda dagbók, leira eða föndra, svo margt. Gjörningurinn að búa eitthvað til er sköpun. En við að skapa eitthvað kviknar flæði innra með manni og flæðið veitir hamingjutilfinningu.
Á meðan hugurinn skapar gleymir maður sjálfum sér og umheiminum og verður þess í stað fullur af einbeitingu, sköpunargleði og orku – um leið og sköpunin er farvegur til að tjá allskonar tilfinningar sem bærast innra með manni, hvort sem maður tjáir þær beint eða óbeint, en einbeitingin veitir hugarró. Sköpun tendrar góð boðefni.
Hugleiðsla
Ráð fjögur er hugleiðsla. Hvort sem sólin skín úti eða ekki, þá getur maður alltaf fundið sól innra með sér. Í rauninni býr svo mikið skjól í manni sjálfum ef hugurinn fær hvíld frá ertandi hugsunum og vitundin leyfi til að hvíla í sjálfri sér. Á netinu má finna óteljandi hugleiðslur, þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Eins er gott að gera jógaæfingar og hugleiða síðan. Nú fer að vora og þá er æðislegt að gera jóga úti og hugleiða í vorgolunni.
Að dansa
Ráð fimm er skothelt og gæti líka verið fyrsta ráðið. Það er að dansa heima hjá sér. Blasta tónlist og bara dansa. Í dansi tjáir sjálfið sig í gegnum líkamann og það fær útrás. Bara það að setja góða tónlist á og dansa getur umbreytt þreytu í orku. Ef ég er þreytt og finnst ég vera buguð af verkefnum og áreiti getur dans í tuttugu mínútur umbreytt líðanina í atorku og gleði. Dans tendrar líka góð boðefni og styrkir andlega og líkamlega vellíðan.