Elín Bergljótardóttir hefur verið árum saman í Hljómsveitinni Bellstop og hefur gefið út þrjár breiðskífur með þeirri hljómsveit þar á meðal eina í Kína en Elín var búsett þar í sex ár.
Nú vinnur Elín að sólóplötu í Reykjavík sem er á íslensku og kemur út á íslandi með haustinu.
Elín hefur verið að syngja og semja texta frá unga aldri . Guðmundur Jónsson gítarleikari og lagahöfundur kemur að lagasmíðum á nýju sólóplötunni hennar Elínar.
Þetta verður einhverskonar blanda af rokkskotinni fólk tónlist með helling af hjarta og sál.
Segðu okkur frá verkefninu þínu?
„Mig hefur langað til að gera plötu á íslensku í nokkur ár og hef verið að skrifa niður texta og ljóð bara svona fyrir mig að eiga þegar tíminn kæmi. Svo seint á árinu 2019 þá skildi ég við mann sem ég hef verið með í 24 ár. Þegar svona mikið rót verður á lífi manns þá þarf maður að hafa einhverskonar tjáningarform og mitt helsta tjáningarform eru textar og tónlist svo ég bara elti það alla leið og úr urðu lög sem ég er enn að leggja lokahönd á en það gengur mjög vel að koma þeim á legg enda á nægu efni að taka.
Svo er náttúrlega mjög magnað að vera að vinna að svona verkefni um þetta málefni og þá blossar upp heimsfaraldur og fólk fer að forðast að vera nálægt hvort öðru akkúrat þegar maður þarf sem mest á því að halda að fá knús og félagsskap en ég set þær tilfinningar þá bara líka í listina hún er eins og vasaklútur sem þerrar öll mín tár og hjálpar mér að finna leiðina áfram og standa með sjálfri mér.“