Elísabet Sveinsdóttir er menntuð sem grunnskólakennari og er mikil hestakona. Hún er að fara af
stað með verkefni sem heitir Treystu mér og er úrræði fyrir börn á grunnskólaaldri sem glíma við
andlegan vanda og raskanir. Í úrræðinu eru notaðir hestar til að aðstoða barnið. Samneyti við þá
getur gert barninu kleift að opna sig og það hefur verið rannsakað, sérstaklega erlendis, að umgengni við dýr gefur fleiri og aðra möguleika á að nálgast börn sem eiga í andlegum erfiðleikum.
Grunnskólar, styrktarfélög og þeir aðilar sem koma að börnunum geta nýtt sér slíkt úrræði til að
nálgast barnið á annan hátt en áður og veita því aðstoð. Skynjun hesta og skjót endurgjöf á hegðun barnsins er mikilvæg barninu og oft getur það sett í spor dýrsins á meðan það getur ekki sett sig í spor bekkjarfélaga eða jafnaldra. Einnig er mikilvægt að hesturinn svarar einungis þeirri hegðun sem honum er sýnd hverju sinni og svarar eftir bestu getu. Hesturinn svíkur ekki barnið með því að vera með aðra merkingu í svari sínu.
Þjónustan er fólgin í samneyti við dýrin, hesta og hunda. „Notkun dýra í ýmis konar meðferðum hjá börnum og fullorðnum hefur gefið góða raun og eru mikið notaðar erlendis. Hér á landi eru meðferðir í boði og er hægt að nefna að í Mosfellsbæ, hjá hestamannafélaginu Herði, er boðið upp á þjónustu fyrir fatlaða að fara á hestbak og er það oft liður í sjúkraþjálfun þeirra. Sérstök úrræði fyrir einstaklinga með andlega fötlun, tengslavanda eða önnur frávik sem koma að samskiptum hefur ekki verið mikið notuð hér á landi svo mér sé kunnugt um þar sem hestar eru nýttir sem meðferðaraðilar.
Þörfin fyrir slík úrræði er fyrir hendi því í dag eru þarfir barna með frávik mismunandi og með nýrri nálgun er hægt að fá barnið til að bregðast við á annan hátt en áður. Skjólstæðingarnir koma í hesthúsið og umgangast hestinn og hundana, bæði inni í hesthúsinu sem og úti í gerði. Engin krafa er gerð um að skjólstæðingur eigi að snerta eða koma nálægt hestinum en þá er hægt að setjast niður í heyið og spjalla um hestana. Það getur oft brotið ísinn að tala um þá eða við þá og þá er hægt að vinna traust skjólstæðingsins með samtalinu sem og nálægðinni við hestinn skref fyrir skerf.“
Aðgangur að inniaðstöðu er fyrir hendi og er hægt að nýta hana ef þurfa þykir. „Í þeim tilfellum verður skjólstæðingur einn ásamt mér og hestum í því rými, óviðkomandi fá ekki aðgang. Boðið verður upp á tvenns konar pakka þar sem annar inniheldur samneyti og samveru við hrossin og hin inniheldur hestbak, hvort sem er í gerði eða stuttur reiðtúr. Skjólstæðingar læra ýmislegt um hesta, atferli þeirra og fleiri þætti sem einkenna þá. Einnig verður farið í umhirðu (kemba þeim og strjúka) og fóðrun, hvað þeir borða og hvað finnst þeim gott. Skjólstæðingur mun ávallt vera í samneyti við dýrin undir leiðsögn/tilsögn en alfarið verður farið eftir því hversu tilbúin hann er í það samneyti. Mismunandi umhverfi verður nýtt, hesthúsið, gerði fyrir framan hesthúsið, reiðhöll og nánasta umhverfi sem hentar hverju sinni. Ef tilefni gefst og forsendur séu fyrir hendi stendur skjólstæðingnum til boða að fara á hestbak þar sem ég teymi undir viðkomandi. Fyllsta öryggis er gætt og eru helstu öryggisatriði og búnaður fyrir hendi.“