Í þrjátíu ár hafa hjónin, Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir, kennari og Þorsteinn Eggertsson söngtextahöfundur samið saman texta og tónlist sér til gamans eða fyrir aðra til að nota t.d. í afmælisboðum, brúðkaupum eða öðrum samkundum.
Fyrir ári síðan ákváðu þau að hljóðrita eitthvað af verkum sínum í samvinnu við hinn frábæra tónlistarmann, Vilhjálm Guðjónsson, sem tók að sér m.a. upptökur, hljóðritun, endanlega útsetningu og spila á 24 hljóðfæri.
Vínylplatan/ geisladiskurinn inniheldur tíu lög eftir Jóhönnu Fjólu og tvö eftir Þorstein sem á alla textana nema tvo. Halldór Kiljan Laxness á annan þeirra og Jakobína Sigurðardóttir hinn. Jóhanna Fjóla og Þorsteinn syngja sjálf öll lögin, saman eða í sitt hvoru lagi.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkinu?
„Það var ekki fyrr en fyrir tveim árum að við vorum beðin um að koma fram í Hannesarholti og þáðum. Ætluðum fyrst að mæta þar með gítar og syngja einhver þekkt lög við söngtexta Þorsteins en ákváðum að lokum að stefna að gerð hljómplötu sem innihéldi okkar sameiginlegu verk. Í nóvember 2019 kynntum við svo nokkur lög plötunnar í Hannesarholti og sögðum frá tilurð þeirra og textanna. Eftir það hélt vinnan áfram við gerð plötunnar. Útgáfan hefur dregist á langinn m.a. vegna COVID-19 veirunnar og að geta staðist straum af kostnaðinum.
Segið okkar frá þema verksins?
„Eiginlega er ekkert sérstakt þema, nema ef til vill að við völdum að taka upp þau lög sem voru söngbær fyrir sem flesta, ekki bara einsöngvara. Þetta eru verk sem hafa verið samin á mismunandi tíma og hafa ekki komið út áður. Innihald hljómplötunnar er allt frá gleðisöngvum til sorgarljóða og inn á milli má finna brúðkaupslög og svolítið grín.
Við hjónin erum að nálgast áttrætt og með þessum verkum okkar viljum við sýna fram á að á meðan heilsan leyfir er hægt að sinna sköpunargleðinni. Að semja saman er eitt af því skemmtilegasta sem við gerum.
Útgáfan plötunnar hefur dregist á langinn m.a. vegna COVID-19 veirunnar og einnig að geta staðist straum af kostnaðinum. Forsala hljómplötunnar er á Karolina Fund þar sem er safnað fyrir útgáfukostnaði plötunnar á síðu verkefnis okkar, „Ég á mér líf“.
Þar er hægt að sjá ýmislegt sem við höfum upp á að bjóða þeim sem styrkja verkefnið ef söfnunin tekst.“