Hlín Magnúsdóttir er kennari af lífi og sál. Síðustu fimm ár hefur hún starfað sem sérkennari í Norðlingaskóla, þar sem hún hefur lagt mikla áherslu á fjölbreytt og áhugahvetjandi námsefni.
Hún heldur úti námssamfélaginu Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka á Facebook en þar deilir hún bæði hugmyndum og námsefni sem hún hannar sjálf, til annarra kennara og foreldra. Í haust tekur hún til starfa í Helgafellsskóla sem deildarstjóri stoðþjónustu, bæði á leik- og grunnskólastigi. Hægt er að fylgjast með Hlín í leik og starfi á samfélagsmiðlum undir nafninu Fjölbreytt kennsla.
„Ég læri að lesa“ er flokkur lestrarhefta sem þjálfar undirstöðuatriði lesturs em Hlín hefur skrifað. Flokkurinn inniheldur fjögur mismunandi hefti sem leggja áherslu á hljóð bókstafanna, að kenna börnum að tengja saman tvö hljóð, kenna þeim að lesa stutt orð og stuttar setningar, ásamt því að vinna með orðaforða.
Hún safnar nú fyrir útgáfu heftana á Karolina fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Í starfinu mínu sem sérkennari þá er stór hluti starfsins að aðstoða börn með lestrarvanda að einhverju tagi. Hugmyndin að þessari bók kviknaði þegar ég tók eftir því að oft á tíðum þegar nemendurnir lásu ákveðna hljóðaklasa þá tengdu þeir alltaf við orð sem þeir þekktu .. t.d. lí –lí – lí - alveg eins og lím . Ég greip þessa hugsun þeirra og bjó til hefti þar sem hljóðaklasarnir voru alltaf tengdir við eitthvað sem þeir þekktu og ég sá strax góðan árangur í lestrarnáminu. Þessi hefti hafa svo aðeins stækkað og eru núna orðin að fjórum lestrarbókum.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
„Þema verkefnisins er áhugahvetjandi, einfalt og skemmtilegt lestrarnám. Bækurnar eru settar upp á einfaldan hátt, þær eru með fjölbreytnum verkefnum, skemmtilegum og litríkum myndum og orðum sem börn þekkja.
Lagðir eru inn tveir til fjórir bókstafir í einu, næst kemur verkefnablað með orðasúpu og eyðufyllingum, þar skrifa nemendur orð og einnig eru stuttar æfingar sem þjálfa hljóðkerfisvitund.“
Hér er hægt að styrkja og skoða verkefnið á vef Karolina fund.
Það er einnig að hægt nálgast upplýsingar um það á heimasíðu fjölbreyttrar kennslu eða á Facebook og Instagram.