Það þekkja flestir landsmenn raftónlistarsveitina GusGus. Hún var stofnuð árið 1995 og er því aldarfjórðungsgömul um þessar mundir.
Til þess að fagna 25 ára ferli GusGus ætlar hópur af aðdáendum frá Íslandi, Frakklandi og Þýskalandi að búa til ljósmyndabók fyrir aðdáendur um allan heim. Tilgangurinn er að fara yfir feril hljómsveitarinnar og bjóða upp á einstaka bók fyrir safnara. Safnað er fyrir útgáfu bókarinnar á Karolina fund.
Hugmyndin af gerð bókarinnar kom fyrir um tveimur árum og er núna á lokametrunum.
Bókin mun innihalda einstakar ljósmyndir af tónleikum sveitarinnar, baksviði þeirra og opinberum myndatökum en einnig persónulegar myndir frá meðlimum sveitarinnar og úr hópi aðdáenda þeirra. Einnig mun fylgja með hannað efni af plötuumslögum þeirra og myndböndum, blaðaúrklippur… eins mikið efni og mögulegt verður að koma fyrir til að byggja upp sjónræna ímynd sveitarinnar í þessi 25 ár sem liðin eru frá stofnun hennar.
Verkefnið utan um GusGus 25 ára bókina er fyrir aðdáendur, og verður listrænt og auðskilið fyrir alla, en þó ekki söluvara. Bókin á að endurspegla heiminn í kring um GusGus eins mikið og hægt er.
Til þess að geta prentað bækurnar þarf hópurinn sem stendur að verkefninu að safna fjármunum til að standa undir kostnaði af prentun og hefur því farið af stað með söfnunarherferð á Karolina Fund.
Þeir sem styðja við verkefnið geta nælt sér í eintak í forsölu eða valið einhvern af öðrum pakkatilboðum sem eru í boði á Karolina Fund síðunni.