Menningarpólítísk nýbreytni

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Endalausa þræði eftir sviðslistahópinn Streng.

Endalausir þræðir
Auglýsing

Strengur: Endalausir þræðir

Höfundur: Leikhópurinn ásamt Unu Torfadóttur

Leikstjórn: Óðinn Ásbjarnarson

Leikmynd og búningar: Katrín Guðbjartsdóttir

Hljóðmynd: Magnús Thorlacius

Leikendur: Magnús Thorlacius, Urður Bergsdóttir, Katrín Guðbjartsdóttir


Leikhópurinn Strengur samanstendur af ungu sviðslistafólki sem enn er í BA-námi við Listaháskóla Íslands, tvö á sviðshöfundabraut, þau Magnús Thorlacíus og Katrín Guðbjartsdóttir, en Urður Bergsdóttir á sviðslistabraut. Þau þrjú eru leikarar hópsins, en Óðinn Ásbjarnarson, sem einnig er í BA-námi á sviðshöfundabraut LHÍ, er leikstjóri sýningarinnar; hann mun hafa átt frumkvæði að því að þau mynduðu í sumarbyrjun leikhópinn Streng, sem starfar á grundvelli sérstaks samkomulags um átaksverkefni á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Auglýsing


Markmiðið er að skapa sviðslistaverk þar sem lögð er áhersla á rannsóknarvinnu útfrá „þarfri samfélagsumræðu“ eins og segir á heimasíðu hópsins. Hugmyndin er að töfrar leikhússins færi áhorfandann nær flytjandanum, umbreyti hversdagslífinu í dálitla stund og gefi færi á að gleðjast yfir lífinu. Leikhópurinn Strengur á að leiða saman gamalt og nýtt, bera hugmyndir á borð fyrir fólk, finna hvað tengir okkur saman.


Þetta eru vissulega háleit markmið og göfug og er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ungt listafólk hefur sett sér slík markmið – vestræn menning hefur að geyma sögu aragrúa slíkra hópa ungs fólks sem hafa í upphafi ferils síns reynt að koma orðum að því sem breyta skal – því það mun óhætt að segja að það sem sameiginlegt er öllum þeim hópum sem lista- og leiklistarsaga Vesturlanda kann að segja frá, sem orðið hafa til frá lokum seinni heimsstyrjaldar eða svo og sem hafa lagt vinnu í að skilgreina samtíð sína, er að til stendur að breyta heiminum, að minnsta kosti þeim heimi sem næstur er, nánasta umhverfinu.


Leikhópurinn Strengur virðist þó dálítið öðruvísi að því leyti að hið unga listafólk sem hann skipar leitar samstarfs við Velferðarsvið Reykjavíkur og ég hygg það muni vera næsta fátítt að ungt listafólk hefji þannig feril sinn undir sérstökum verndarvæng hins opinbera, en hér mun byggt á starfi Óðins leikstjóra sem dagskrárstjóra félagsstarfs eldri borgara í Norðurbrún í Reykjavík. Þannig ber kannski að líta á Leikhópinn Streng sem hluta af þróun félagsstarfs eldri borgara þar sem ætlunin er að skapa og bera á borð leiksýningar, en einnig námskeið í leiklist fyrir eldri borgara.

Endalausir þræðir Mynd: Aðsend


Það mun því óhætt að segja að hér sé um að ræða menningarpólítíska nýbreytni, sem er allrar virðingar verð. Hvað sem líður háleitum markmiðum á heimasíðu er hér á ferð eins konar „nytjaleikhús“, þar sem Velferðarsvið kýs að fjármagna hópinn, væntanlega markhópi sínum, eldri borgurum, til aukinnar gleði og afþreyingar. Vert er því að veita athygli starfi og afdrifum hópsins; það væri vissulega gaman ef Velferðarsvið myndi smám saman auka við starfsemina og þá væri ekki síður magnað ef önnur sveitarfélög tækju sér þetta framtak Velferðarsviðs sér til fyrirmyndar.


„Nytjaleikhús“ segi ég og er kannski ónákvæmlega orðað; það er nefnilega til sérstakur straumur í þerapísku starfi sem byggir á aðferðafræði leiklistarinnar – kúnstinni að segja sögu – og sem miðar að því að valdefla einstaklinginn, gefa honum færi á að öðlast vald yfir og vald á eigin æfi, eigin tilfinningum og minningum. Það má jöfnum höndum heimfæra það undir nytjar og list og verður jafnvel ekki greint þar á milli svo vel fari. Og það er kannski í ætt við þá rannsóknarvinnu, sem leikhópurinn Strengur vill hafa sem grundvöll síns listræna starfs og kristallast í sýningunni Endalausir þræðir.


Rannsóknarvinnan fólst í því að farið var á fund eldri borgara, sem síðar skyldu verða áhorfendur og leitað til þeirra um minningar. Þessar minningar voru síðan soðnar niður í handrit þar sem minningarnar mynda þræði – endalausa þræði – sem tvinnast saman og verða að einhvers konar hugmynd um veruleikann eins og hann var. Sýningin snýst því um hvort tveggja í senn, að hefja frásagnarlistina til vegs og virðingar en einnig að varðveita minningar – og ekki sérlega auðvelt að greina þar á milli, því það fléttast líka saman, rétt eins og minningarnar.


Um leið verður til fjarska heillandi og aðlaðandi sýn á manneskjurnar og tengsl þeirra, nefnilega sú, að í frásagnarstundinni verði til eitthvað sem kalla má hamingju þegar tvær manneskjur (eða fleiri) hittast og fara að rifja upp minningar og segja sögur. Dýnamíkin sem verður á slíkri stund gerir manneskjurnar einmitt að manneskjum.

Endalausir þræðir Mynd: Aðsend

Sýningin Endalausir þræðir er þannig byggð. Í henni mætast þrír einstaklingar, fjarlægir hver öðrum í upphafi, en hver og einn lumar á sögu, frásögn, minningu og áður en varir fara þær að fléttast saman og til verður eitthvað sem kalla má sam-félag. Það er, eins einfalt og það virðist, bæði fallegt og hugljúft.

Það má við bæta, að þessi hugmynd er styrkt með einfaldri leikmynd þar sem heilmikið kaðalverk myndar bakgrunn sviðsins og með því er minnt á hversu flókinn sá vefur getur verið sem fléttaður er af minningum og sögubrotum. Látlausir búningar vinna vel við leikmyndina sem og einföld lýsingin.

Sem áður sagði er leikhópurinn enn við nám. Það vekur því ósvikna ánægju undirritaðs að hér er textaflutningur með ágætum, skýr og skilmerkilegur og framburður með góðu móti. Handritið er enda vel skrifað og í því er fremur hátíðlegur tónn sem krefst skýrleika og vandaðs flutnings.

Það er vonandi að Leikhópurinn Strengur nái víða með sýningu sína og enn frekar er ástæða til að óska þess að samstarf hópsins og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar nái að dafna og eflast. Sú menningarpólítík sem það samstarf ber vitni um er ekki einasta virðingarvert, það er æskilegt hvernig sem á það er litið – ekki síst þegar kemur að því að auka velferð og lífsgæði eldri borgara samfélags vors.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk