Hljómsveitin Brek hyggst á næstu misserum gefa út sína fyrstu breiðskífu en vinnuheiti hennar er Brigði. Platan mun innihalda nýtt frumsamið efni frá sveitinni og lögð er áhersla á að tvinna saman hinum ýmsu áhrifum frá mismunandi stílum þjóðlaga- og dægurtónlistar.
Hljómsveitin Brek var stofnuð árið 2018 af þeim Hörpu Þorvaldsdóttur söngkonu og píanóleikara og Jóhanni Inga Benediktssyni gítarleikara ásamt Guðmundi Atla Péturssyni mandólínleikara. Kontrabassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson gekk svo til liðs við hljómsveitina snemma árs 2020.
Hljóðritun plötunnar er komin vel á veg, upptökum er lokið en töluverð vinna er eftir við hljóðblöndun og tónjöfnun. Svo þarf að hanna umslag og framleiða plötuna. Vonast hljómsveitin til að geta gefið plötuna út snemma árs 2021 ef allt gengur upp.
Jóhann Ingi segir hugmyndina að baki plötunni einfaldlega snúast um erindi. „Við erum auðvitað ansi ný hljómsveit og búin að semja töluvert af lögum. Núna þegar við erum langt komin með upptökur þá langar okkur að fara alla leið og gefa út plötu og framleiða hana bæði á vínyl og geisladisk auk rafrænnar útgáfu. Við teljum okkur eiga erindi inn á íslenskan markað auk þess sem við höfum fengið nokkra athygli utan landsteinanna.“Brek leggur áherslu á akústískan hljóðheim og hljómsveitin reynir að búa til spennandi og vandaðar hljóðfæra og söng útsetningar, að sögn Jóhanns Inga. „Við bræðum saman áhrifum úr ýmsum tegundum alþýðutónlistar við áhrif úr öðrum tegundum tónlistar eins og t.d. djassi og klassískri tónlist. Þessi bræðingur þýðir að við höfum náð að tileinka okkur nokkuð sérstakan hljóðheim og mörgum þykir við koma með nokkuð ferskan andblæ inn í íslenska tónlistarsenu.“
Sú athygli sem Brek hefur fengið erlendis frá er mikið til komin vegna þess að hljómsveitin tók um stundir þátt í alþjóðlegu verkefni sem ber nafnið Global Music Match. Jóhann Ingi segir að í því verkefni komi saman 94 listamenn frá 14 löndum. „Þetta verkefni gerir það að verkum að það opnast talsverðir möguleikar fyrir okkur að dreifa og flytja okkar tónlist víðar en á Íslandi.“