Þegar Covid-19 skall á störfuðu Davíð Arnar Runólfsson, Elín Esther Magnúsdóttir og Kaśka Paluch sem leiðsögumenn.
Eins og margir aðrir misstu þau vinnuna en vonast til að geta farið að leiðsegja aftur innan skamms. Frekar en að sitja aðgerðarlaus þangað til ákváðu þau að sameina krafta sína og gefa út veftímarit sem er sérstaklega ætlað fólki sem starfar í ferðaþjónustu á Íslandi.
Elín Esther segir þeim finnist öllum mjög gaman að vinna í ferðaþjónustu, en þegar gestirnir voru farnir frá landinu vegna kórónuveirufaraldursins litu þau einfaldlega í eigin barm og hugsuðu um hvað annað þau gætu gert. „Okkur langaði að vera áfram viðloðandi ferðaþjónustuna, en höfum öll líka fyrri starfsreynslu sem gæti nýst við fjölmiðla. Hví þá ekki að gera skemmtilegt tímarit fyrir þau fjölmörgu sem vinna við ferðaþjónustu um allt land, en hafa í raun ekki mikla tengingu hvort við annað? Við trúum því að gestirnir muni koma aftur, og okkur langar að taka þátt í að skapa góða stemmingu meðal þeirra sem taka á móti þeim.“
Kaśka vonast til þess að fyrir utan að vera gott blað með áhugaverðum greinum verði We Guide í framtíðinni vettvangur sem leiði saman starfsfólk í ferðaþjónustu. „Við erum í mörgum stéttarfélögum, í mismunandi störfum, en við erum öll að spila á sama velli. We Guide gæti orðið eins konar samkomustaður fyrir okkur, bæði á netinu og utan þess.“