Hulduheimar – Huldfólksbyggðir á Íslandi
Símon Jón Jóhannsson tók saman.
Ljósmyndir: Ívar Gissurarson o.fl.
Kortagerð: Guðjón Ingi Hauksson.
Ísland er óþrjótandi uppspretta þegar kemur að því að upplifa landið og hið sérstæða samband mannsins við það. Hér á landi hefur þetta samband tekið á sig sumpart sýnilegri myndir en í nágrannalöndum okkar, hugsanlega vegna þess hvernig það var numið – hér kom maðurinn að náttúru sem var ólík flestu því sem hann þekkti í öðrum löndum og hér var náttúran kvikari og óútreiknanlegri en maðurinn þekkti til annars staðar. Eldgos og jarðskjálftar kölluðu á skýringar og líklegt er að margt annað – til dæmis sérstök náttúruvætti – hafi kallað eftir túlkun sem talist gæti rökrétt og eðlileg.
Það er kannski í slíku ljósi sem ber að skoða álfatrúna og þá vissu, að hér fyrirfyndust sérstakar álfabyggðir og meira að segja álfakirkjur, stundum í nánd við bæi og byggðir mannanna, en líka faldar í afdölum og á afskekktum stöðum. Um álfa hefur það verið sagt að þeir séu ívið minni að vexti en við mennirnir, beri sig betur og glæsilegar, séu vel tilhafðir og klæðist fallegum og litríkum fötum, hafi yndi af fögrum söng og þokkafullum dansi, að híbýli þeirra séu yfirleitt glæsilegri og tilkomumeiri en mannabústaðir og umfram allt snyrtilegri. Lýsing okkar Íslendinga á álfum er sennilega það sem við komum næst sjálfsgagnrýni.
Það er því ekki úr vegi að hampa lítilli og elskulegri bók sem komið hefur út fyrir skemmstu. Hún heitir Hulduheimar. Huldufólksbyggðir á Íslandi og fjallar um álfabyggðir þessa land í skipulegri framsetningu þjóðfræðingsins Símonar Jóns Jóhannessonar þar sem hann fer með lesandann hringinn í kringum landið og lýsir rúmlega áttatíu stöðum þar sem álfar eiga heima – að því er munnmæli, sögur, sagnir, fjölmiðlar og aðrar heimildir kveða á um. Hver slíkur staður fær einn kafla þar sem Símon Jón gerir grein fyrir því sem þekkt er um hann, hann er einnig merktur á læsilegu korti sem Guðjón Ingi Hauksson hannaði; auk þess sýna greinargóðar ljósmyndir Ívars Gissurarsonar staðinn og umhverfi hans. Þeim ferðamanni sem leggur á sig hringferð um landið til að heiðra álfa landsins með heimsókn á þannig ekki í neinum vanda með að rata á réttan stað.
Það vekur athygli, að álfabyggðir virðast dreifast sæmilega jafnt um landið. Þannig er að finna 9 staði á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu, 13 staði á Vesturlandi og 8 á Vestfjörðum, 20 á Norðurlandi, 9 á Austurlandi og loks 20 á Suðurlandi. Það virðist því augljóst að álfum hefur tekist ívið betur til með sína byggðastefnu en okkur mannfólkinu og er það vissulega umhugsunarvert. Þá skal nefna að í bókinni er einnig að finna fróðlegan Inngang um huldufólk og eiginleika þess og í bókarlok er sérstakur kafli um krossgötur, en á slíkum geta útsjónarsamir menn náð sér í ýmsar velgjörðir og auðæfi svo fremi það sé gert á réttum tíma. Hvaða tími það er, geta útsjónarsamir komist að með því að blaða í bókinni hans Símonar Jóns.
Huliðsheimar – Huldufólksbyggðir á Íslandi hvetur sannarlega til að fara hringinn um landið og kynnast betur hinum leyndardómsfullu álfum. Það getur svo sannarlega verið ferðinnar virði, tala nú ekki um ef það getur orðið til þess að kynslóðir treysti böndin sín á milli og upplifi að heimurinn er kannski aðeins stærri en bara sá sem sést með berum augum. Huliðsheimar. Huldufólksbyggðir á Íslandi hvetur til þess, hún er skrifuð af fordómaleysi og hispursleysi sem ber ekki einasta vott um virðingu fyrir efninu heldur staðgóða þekkingu líka.
Að lokum skal sögð dálítil saga sem gerist á einum þeirra staða sem sagt er frá í bókinni, Álfhólnum við Álfhólsveg sem er örugglega ein þekktasta og umtalaðasta huldufólksbyggð á Íslandi – og örugglega sú álfabyggð sem oftast hefur verið sýnd erlendum ferðamönnum. Ónefndur móðurmálskennari nýbúabarna fór gjarnan með bekkinn sinn upp að Álfhól og sagði þeim söguna af aldurhnignum álfi, sem bjó nú einn í hólnum því mannabyggðir hefðu þrengt svo að byggð álfanna að þeir hefðu allir hrökklast á brott. Nema þessi eini aldni álfur, sem hélt tryggð við sína heimabyggð, þótt nú væru að renna á hann tvær grímur og allsendis óvíst að hann myndi haldast við öllu lengur. Þegar þarna var komið sögunni hjá kennaranum þoldi einn nemandinn ekki lengur við. Hann var barn flóttafólks sem leitað hafði hælis hér á landi og vissi hvað það var að hrekjast burtu úr sinni heimabyggð. Hann lagðist á magann og hrópaði niður í þrönga glufu í steininum: „Ekki fara, elsku álfamaður, vertu kyrr! Ekki fara!“
Bók Símonar Jóns um huldufólksbyggðir á Íslandi er ávísun á þessa samhygð milli fólks og manna og á sannarlega erindi í okkar samfélag og tíma.