Öll viljum við vera alvöru!

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um sýninguna Gosi – ævintýri spýtustráks sem sýnd er í Borgarleikhúsinu.

Gosi – ævintýri spýtustráks
Gosi – ævintýri spýtustráks
Auglýsing

Borgarleikhúsið: Gosi – ævintýri spýtustráks

Höfundur: Carlo Collodi

Leikgerð: Ágústa Skúladóttir, Karl Ágúst Úlfsson og leikhópurinn

Söngtextar: Karl Ágúst Úlfsson

Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir

Lýsing: Þórður Orri Pétursson

Tónlist: Eiríkur Stephensen og Eyvindur Karlsson

Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson

Leikgervi: Þórunn María Jónsdóttir og Guðbjörg Ívarsdóttir

Grímugerð: Elín S. Gísladóttir

Myndband: Elmar Þórarinsson

Leikarar og tónlistarfólk: Árni Þór Lárusson, Halldór Gylfason, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Eiríkur Stephensen, Eyvindur Karlsson.


Mikið var nú gaman að koma aftur í leikhúsið eftir samkomubann sem virðist hafa verið lengra en leggjandi er á nokkra sál. Stemningin í fordyri Borgarleikhússins áður en sest var inn í sóttvarnarhólfaðan stóra sal þess til að horfa á ævintýrið um spýtudrenginn Gosa gaf tóninn, aragrúi barna eftirvæntingarfullur og spenntur og foreldrar ekki síður. Það er sannarlega ástæða til að færa þakkir leikhúsum og leikhúslistamönnum öllum þakkir fyrir að hafa staðið af sér biðina með okkur áhorfendum og óskandi að ekkert verði nú til að spilla þróuninni til hins eðlilega horfs, þegar við getum setið saman og notið frásagna mannkyns af stórum og smáum leiksviðum þessa heims.

Auglýsing

Ævintýrið um Gosa þarf tæpast að kynna fyrir neinum, það er fyrir löngu orðið hluti af okkar vestrænu menningu, hluti af hennar birtingarmynd – sagan af spýtudrengnum sem vildi verða alvöru drengur, en hans stutta nef lengdist á í hvert sinn sem hann fór með ósatt orð. Þessi grundvallaratriði í sögunni um Gosa – lífslöngunin og afleiðingar lyginnar – hafa allt sem þarf til að vekja hugarflug lesenda, áheyrenda og áhorfenda og ber öll einkenni góðs ævintýris og góðrar fantasíu. Margt í sögunni um Gosa er í ætt við súrrealisma – hann lendir í klóm ræningjanna Refs og Kattar, sem tæla hann í Sirkus og þar breytist hann í asna. Það er því ekki að undra að sagan vakti athygli og hrifningu kvikmyndargerðarmannsins Disney í Bandaríkjunum, sem gerði eina af sínum margfrægu teiknimyndum um Gosa og það er nú sennilega í þeirri mynd sem flest okkar þekkja hann best. Það voru þó fleiri, sem spreyttu sig á að lífga Gosa við á hvíta tjaldinu; fyrsta kvikmyndin sem byggð var á ævintýrinu um Gosa var ítölsk þögul mynd, frumsýnd 1911.

Það er vert að huga að því, að höfundur sögunnar um Gosa, ítalinn Carlo Collodi, gerði hreint ekki lítið úr neikvæðum skapgerðareinkennum Gosa. Ekki einasta er hann hneigður að lyginni, sem gerir að verkum að nefið vex, hann er líka hrekkjóttur, illkvittinn, kærulaus, dómgreindarlaus, vesæll og latur. Hann er eins langt frá því að vera sá sjarmerandi og heillandi spýturdrengur sem Disney sagði síðar frá. Markmið Carlo Collodis var að Gosi skyldi vera víti til varnaðar – sagan kemur út 1883 og það er á þeim tíma sem hinn vestræni heimur er að uppgötva bernskuna og byrjar að hlúa að þeirri skoðun að börn séu eins konar „tabula rasa“, autt blað, sem máli skiptir að fylla góðum gildum svo þau vaxi upp og verði nýtir þjóðfélagsþegnar. Carlo Collodi leit á söguna um Gosa sem harmleik og í upphaflegu gerðinni var Gosi meira að segja beinlínis tekinn af lífi, sem var refsingin fyrir hans illu og andfélagslegu hegðun.

Gosi í hinni frægu mynd Disney.

Það gekk auðvitað ekki, Gosa var þegar til kom hlíft við ömurlegum dauða en hins vegar var hann látinn sjá að sér. Gosi snerist til betri vegar, bjargaði föður sínum úr maga hundfisksins (hvalsins), gerðist góður og gekk í skóla til að menntast og verða að menningarveru. Þar með öðlaðist sagan líka þann eiginleika, sem hentar svo vel fyrir leikhúsið og frásagnartækni þess – „katharsis“ er hugtak jafngamalt vestrænni leikhúshefð, er frá Aristótelesi komið og þýðir „hugarfarshreinsun“ sem merkir að söguhetjan skilur að hún hafi verið á villuvegum en lærir að breyta rétt fyrir rás atburða. Hugarfarshreinsun aðalhetjunnar verður okkur áhorfendum hvatning til að breyta eins, láta af ósiðum og gerast þau hin góðu börn sem samfélagið vill og þarfnast.

Höfundar leikgerðarinnar, þau Karl Ágúst Úlfsson, Ágústa Skúladóttir og leikhópurinn, fylgja þeirri línu nokkuð samviskusamlega. Það er að vísu frekar lítið gert úr vondum eiginleikum Gosa og þeir afsakaðir einna helst með ungæði og fákunnáttu – það fylgir Gosa frá upphafi að þótt hann breyti rangt, þá er það fyrir klaufaskap og að nú þurfi hann bara að fara sinn veg niður til heljar og upp aftur til að verða góður. Sympatískur er hann frá upphafi. Í leikgerðinni er því farinn vegur á milli hins upphaflega Gosa Collodis og Gosa Disneys og sem liggur kannski heldur nær Disney, ekki síst vegna þess að Gosi blessaður gerir sér á köflum grein fyrir því hversu illa hann breytir og brestur þá út í sjálfsásakanir, sem ungir áhorfendur þekkja eflaust úr borgaralegu uppeldi nútímans. Það er auðvitað val leikgerðarhöfunda að fara þessa leið og hún gengur að öllu leyti upp í leikgerðinni; mig langar hins vegar til að velta upp þeirri spurningu hvort hefði hugsanlega verið ástæða til að ganga lengra.

Mynd: Borgarleikhúsið


Fyrir nokkrum árum kom út skáldsaga, sem sækir innblástur í ævintýrið um Gosa og tekur fyrst og fremst á tilhneigingu hans til að ljúga. Sagan heitir „Splintered: A Political Fairy Tale“ og er eftir Thomas London. Sú saga segir frá Gosa, sem var einu sinni alvöru drengur sem gat ekki sagt ósatt orð – en umbreyttist í stjórnmálamann sem getur ekki haldið sig við sannleikann. Þetta er ekki sagt hér til að láta í ljósi ónægju með þá leið að segja frá Gosa sem valin er í sýningu Karls Ágústs, Ágústu og leikhópsins. En þessu er skotið að til gamans til að benda á að enn er ekki búið að skapa síðasta afbrigðið af Gosa – hann er og verður hluti af okkar menningu og mun um verða viðfangsefni rithöfunda, kvikmyndagerðarmanna og leikhúslistamanna um mörg ókomin ár – okkur lesendum og áhorfendum til endalausrar ánægju.


Gosi á stóra sviði Borgarleikhússins er afskaplega vel unnin, vönduð og falleg sýning. Leikhópurinn er ekki nema fimm manns og sér bæði um leik og hljóðfæraslátt og er hvort tveggja af fjölbreyttu tagi. Leikhópurinn er á heildina litið einvalalið og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Árni Þór Lárusson er nýr í hlutverki Gosa og mun leika það til skiptis við Harald Ara Stefánsson, sem var í upphaflega leikhópnum. Árni Þór skilar hlutverkinu með prýði, tengir vel við áhorfendur og nær að halda því jafnvægi sem þarf milli hins hrekkjótta og dómgreindarlausa Gosa og þess Gosa sem lærir á endanum af mistökum sínum og sameinast föður sínum í lokin. Hlutverkin eru mörg og hlutverkaskipti hröð, tengingar milli talaðs máls, söngs og hljóðfæraleiks eru lipur og frásögnin öll fjörleg og kraftmikil. 

Leikmyndin nýtir stóra sviðið vel með mismunandi svæðum og hæðum og baktjaldið er hugvitsamlega hannað og þjónar bæði sem myndatjald þar sem birtast myndir sem segja hvort við séum stödd í bænum hans Gosa eða inni í hundfiskinum þar sem þeir lenda, Gosi og Jafet faðir hans. Þá eru skemmtilegar innkomur og útgöngur um baktjaldið sem efla ævintýrablæ sýningarinnar. Þá er ástæða til að nefna hugvitsamlega búninga og frábær gervi og grímur sem tengja við ítalskan uppruna sögunnar og gleður svo sannarlega augað.

Borgarleikhúsið

Tónlistin byggir á áheyrilegum meginstefjum og fleytir sýningunni vel áfram, gleður eyrað og ásamt margvíslegum hljóðbrögðum lífgar og eflir töfra leikhússins – því það er aðals og einkennismerki Gosa á stóra sviði Borgarleikhússins, að hér er treyst á þá töfra til fulls – og einfaldast er að bregða sér á Gosa og sannfærast af eigin raun.

Að endingu skal Borgarleikhúsinu hrósað fyrir vandaða og vel unna leikskrá, þar sem ungir áhorfendur fá skemmtilegan minjagrip með sér heim. Í leikskránni er ekki einasta að finna hefðbundnar upplýsingar um sýninguna, heldur er söguþráður sýningarinnar rakinn, söngtextar birtir og svo eru teikningar sem má lita að eigin vild og vali. Slíkt er til fyrirmyndar og ber að þakka fyrir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira úr sama flokkiFólk