TRPTYCH er sóló tónlistarverkefni Daníels Þorsteinssonar en hann hefur komið víða við, meðal annars sem trommuleikarinn í Maus og höfuðpaur elektrónísku hljómsveitarinnar Sometime. Daníel vinnur sem grafískur- og hreyfihönnuður á auglýsingastofunni VORAR.
Daníel hefur sinnt tónlistinni í þónokkurn tíma og byrjaði sinn feril í Maus. „Í kringum 1993 þá var ég komin á kaf í rap- og teknótónlist en bara sem hlustandi og var að daðra við að fá mér trommuheila og hljómborð en ég var shanghai-aður inn í Maus og fyrir það er ég ævinlega þakklátur því þar náði ég að þróa minn trommuleik og tónlistarsköpun. Í dag eru Mausararnir enn bestu vinir mínir og ég er hrikalega stoltur af því sem við gerðum, enda vorum við tryllt band, sérstaklega á tónleikum. Og ég gleymi því aldrei þegar við gáfum út okkar fyrstu plötu, en það verður seint toppað tilfinningalega. En ég er með svipaða tilfinningu fyrir „Spawn Apart“ sem verður sjöunda útgáfa TRPTYCH.“
Með TRPTYCH hefur Daníel á síðustu árum fundið sér sinn eiginn hljóm. „Síðan ég stofnaði Sometime 2006, þá hef ég sífellt notið þess meira og meira að taka upp og semja, í Maus þá voru allar trommurnar á plötunum heil „live“ upptaka og það er rosalegt stress fyrir trommuleikara, því ekki eitt slag má vera off. En maður var nú helvíti þéttur enda oft kallaður Danni „one-take“ í stúdíóinu. Síðan ég stofnaði TRPTYCH sirka 2015/2016 þá er ég búinn að dæla út plötum. Og það hef ég gert til að fá „closure“ og getað haldið áfram og til að þróa mína tónlistarsköpun og mitt „sound“. Því aldrei hef ég verið í tónlistarsamstarfi eða gert tónlist sem hljómar eins og eitthvað annað. Það er hægt að segja margt um Maus, Sometime og TRPTYCH en það verður ekki tekið af þessum hljómsveitum að þær eru allar gjörsamlega einstakar og það er fyrir mig lang mikilvægasta atriðið í tónlistarsköpun.“
Platan „Spawn Apart“ verður fyrsta plata TRPTYCH sem kemur út á föstu formi. „Núna finn ég í maganum að það er eitthvað virkilega sérstakt við þessa plötu og mér finnst í rauninni þetta vera fyrsta alvöru plata TRPTYCH (þær fyrri komu bara út sem rafmagn á internetinu) og ég veit að ég mun fá sömu tilfinningu og þegar Maus gaf út sína fyrstu plötu „Allar kenningar heimsins… … og ögn meira“ árið 1994, þegar ég og Páll Ragnar Pálsson tónlistargúru og týpa náðum í okkar fyrstu eintök niður í Smekkleysu og löbbuðum upp Laugaveginn og gátum ekki hætt að hlæja. Það er líka gaman að segja frá því að Roger O’donnell sem er búinn að vera hljómborðsleikarinn í The Cure síðan sirka 1987 spilar á „Spawn Apart“, en hann spilaði síðast með mér og Maus á „Lof mér að falla að þínu eyra“ með Maus árið 1997.“