Supersport! fæddist í einhvers konar millibilsástandi í lífum meðlimanna haustið 2019, en snerist hratt og örugglega upp í fágað en líflegt jaðarpopp-verkefni. Fyrsta stuttskífa sveitarinnar, Dog Run EP, sem kom út á vegum listasamlagsins post-dreifingar í júlí sl., hefur hlotið góðar viðtökur, jafnt hjá tónlistarunnendum og í fjölmiðlum, og var nú síðast tilnefnd til Kraumsverðlaunanna 2020. Meðlimir Supersport! eru Bjarni Daníel Þorvaldsson, Þóra Birgit Bernódusdóttir, Hugi Kjartansson og Dagur Reykdal Halldórsson.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Okkur hefur lengi langað til að taka upp vandaða plötu í fullri lengd. Við erum öll búin að vera í hljómsveitum hér og þar síðustu ár, og höfum auk þess verið virkir þátttakendur í listasamlaginu Post-dreifingu (hljómsveitir sem við höfum tekið þátt í eru m.a. bagdad brothers, Skoffín, Tucker Carlson’s Jonestown Massacre o.fl.). Verandi sjálfstætt starfandi höfum við öll þurft að vera nægjusöm í upptökuverkefnum fortíðarinnar, vinna með vinum okkar í skiptum fyrir lágmarksgreiðslur eða greiðaskipti, og jafnan hefur ekki gefist svigrúm til að taka upp og vinna mikið efni í einu. Þess vegna eigum við öll á bakinu nokkuð magn af smáskífum og stuttskífum, en höfum í rauninni aldrei fengið tækifæri til að taka upp heiðarlega breiðskífu.
Segið okkur frá þema verkefnisins?
„Stærsta þemað á þessari plötu er samstarf. Upphaflega, þegar við fórum inn í þetta verkefni var hugmyndin að á hverju einasta lagi plötunnar yrðum við í samstarfi við nýtt tónlistarfólk. Það gekk ekki alveg hnökralaust fyrir sig, en eftir stendur veglegur listi af frábæru tónlistarfólki sem var til í að hoppa inn í verkefnið og hjálpa okkur að gera hljóðheim plötunnar miklu ríkari en okkur hefði getað tekist að gera ein og óstudd.
Sömuleiðis hafa upptökustjórinn okkar, Árni, og tæknimaðurinn, Dagur Kristinn, haft heilmikil áhrif á skapandi ferlið. Þeirra framlag hefur verið alveg ómetanlegt og við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með svona hæfileikaríku fólki.
Það er líka kannski ágætlega í takti við þessar samvinnuhugmyndir að platan sé hópfjármögnuð! Þannig eru það aðstandendur okkar, vinir, ættingjar og aðdáendur sem hjálpa okkur að gera hana að veruleika, og sú sannfæring okkar að allt sé hægt í krafti fjöldans hefur bara styrkst fyrir vikið.“
Hver er hugmyndin á bakvið verðlaunin sem þið bjóðið styrktarmönnum ykkar upp á í skiptum fyrir áheiti á verkefnið?
„Okkur langaði að bjóða upp fjölbreytt úrval af verðlaunum og hvetja fólk þannig til að styrkja eins mikið eða lítið og það ræður við. Með því að velja lægsta þrepið færðu frítt niðurhal af plötunni, en með því að velja það hæsta, bjóðum við þér í matarboð, og þú færð að auki einkatónleika og ýmsan varning. Þess á milli er allur fjöldinn af mismunandi verðlaunum í boði.
Við vildum leggja áherslu á verðlaun sem er ekki beinlínis hægt að meta til fjár - til dæmis einkatónleikana og geisladiska í heimagerðum umslögum. Við teljum að þannig getum við gefið styrktarfólki plötunnar eitthvað einstakt sem skilur eftir sig fallegar minningar.“