Margrét Birna Kolbrúnardóttir býr í sveit á Snæfellsnesi. Hún er sagnfræðingur að mennt og mikil áhugakona um útsaum. Hún safnar nú fyrir útgáfu Barnabóls á vöggusettum sem útsaumspakka með garni og leiðbeiningum, á Karolina Fund.
Margrét segir hugmyndina að verkefninu hafa kviknað árið 2010 þegar allir voru á kafi að bjarga Íslandi með prjónaskap og sláturgerð. „Ég var á útsaumsnámskeiði þar sem við vorum hvött til að skapa eitthvað úr útsaumnum og þá kom vöggusettið fljótt upp í hugann, bæði vegna fjölgunar í fjölskyldunni og ekki síst vegna þess að útsaumuð vöggusett eiga það til að ganga milli kynslóða og verða því fólki mjög kær. Útsaumur er yfirleitt ekki ódýr og því skiptir máli að það sem eftir liggur sé fyrirhafnarinnar virði.“
Vöggusettin eru áprentuð með vögguvísum sem hafa verið myndskreyttar af Elínu Elísabetu Einarsdóttur. „Við eigum svo mikið af skemmtilegum vögguvísum og bænum sem gaman er að leika sér með, t.d. ”Leiddu mína litlu hendi” sem vonandi á eftir að rata á vöggusett. Seinna meir er draumurinn að koma með “Ég læt sem ég sofi en samt mun ég vaka” fyrir sérstaklega óþæg börn. “Úti bíður andlit á glugga” hefur líka verið nefnt við mig en það verður nú sennilega einhver bið eftir því.“
Það má að lokum geta þess að vöggusettin frá Barnabóli verða á Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 18. til 22. nóvember.