Einar Vilberg Hjartarson stefnir á stafræna heildarútgáfu á tónlist sinni á öllum helstu streymisveitum. Um er að ræða 4 LP plötur; Jónas og Einar, Starlight, Noise og Singles. Á Singles, nýjustu plötunni mun áður óútgefið efni fá að heyrast ásamt nýjustu lögum Einars. Hægt er að styrkja framtakið á Karolinafund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Þegar ég hóf upptökur á nýju efni ásamt syni mínum og alnafna í hljóðveri hans Hljóðverk datt okkur í hug hvort það væri ekki upplagt að koma áður útgefnu efni mínu í betri hljómgæði og gefa það út á allar helstu streymisveitur ásamt nýju efni sem við höfum verið að taka upp. Undanfarið höfum við feðgar verið að grúska í gömlum upptökum og ákváðum að láta áður óútgefið efni fylgja með. “
Segðu okkur frá þema verkefnisins og þínum tónlistarferli.
„Þetta er heildarútgáfa á minni tónlist og rúmlega það. Þarna verður megnið af mínum katalóg ásamt nýjum lögum og ýmsu gömlu góðgæti sem hefur ekki heyrst áður opinberlega.
Ég fæddist í Reykjavík og ólst upp í Þingholtunum. Fjórtán ára byrjaði ég að semja eigin lög. Fyrsta alvöru hljómsveitin sem ég var í hét Beatnicks en hún lék mest þekkt og vinsæl erlend lög á skólaböllum. Ég hélt svo til London með Pétri Kristjánssyni söngvara og Gunnari Jökli trommuleikara árið 1969 á vegum Laufútgáfunnar. Við bókuðum tíma í Regent Studios og tóku upp fjögur lög eftir mig á átta tímum. Tvö laganna komu út á plötu árið eftir; Vitskert veröld og Blómið sem dó sem Pétur söng en hin tvö biðu þess að koma út löngu seinna á safndiski Péturs.“
Gypsy Queen
„Á þessum tíma samdi ég einnig lög fyrir aðra listamenn svo sem Janis Carol og Jónas R. Jónsson. Samvinnan við Jónas varð að samstarfi og árið 1972 gáfum við út LP plötuna Gypsy Queen sem var tekin upp í stúdíói Péturs Steingrímssonar að undanteknum tveimur lögum sem voru tekin upp í Svíþjóð. Platan vakti mikla athygli og þótti framsækin, umslagið var tvöfalt sem var nýlunda á þeim tíma. Platan var líka gefin út á kassettu og mun hún vera fyrsta íslenska hljómplatan sem kemur út á snældu. Í kjölfar Gypsy Queen var okkur félögum boðið að taka þátt í Yamaha Song Festival tónlistarhátíðinni í Tokyo í Japan og gáfu út tveggja laga plötu þar í landi.“
Starlight
„Næsta stóra skref var gerð plötunnar Starlight sem kom út árið 1976. Platan var hljóðrituð í nýju átta rása stúdíói, Hljóðrita í Hafnarfirði. Upptökumaður var Jónas R. Jónsson en honum til aðstoðar var Baldur Már Arngrímsson. Mér til fulltingis við gerð plötunnar voru helstu popptónlistarmenn þess tíma eins og Pálmi Gunnarsson, Lárus Grímsson, Þórður Árnason, Ásgeir Óskarsson og fleiri. Platan fékk góða dóma.“
Noise
„Í kjölfar útkomu Starlight flutti ég mig um set og settist að í Kaupmannahöfn þar sem ég vann að sólóferli. Árið 1981 kom svo LP platan Noise út. Noise var tekin upp í Stúdíó Hlust við Rauðalæk og sá Rafn Sigurbjörnsson um upptökur.
Útgáfufyrirtækið Toni Permo ýtti plötunni úr vör en Tóní þessi Permo mun vera samnefnari fyrir ákveðna tegund söngvara.“
Singles
„Á Singles, væntanlegri breiðskífu minni mun áður óútgefið efni fá að heyrast ásamt nýjustu lögum mínum auk þeirra laga sem komið hafa út á smáskífum í gegnum tíðina.“