Söngkonan og lagahöfundurinn Marína Ósk er fædd og uppalin í Keflavík. Hún hefur síðustu ár hreiðrað um sig á jazzsenunni á Íslandi og verið tíður tónleikahaldari á helstu jazztónleikastöðum landsins, svo sem Jazzhátíð Reykjavíkur, Jazzhátíð Garðabæjar, Sumarjazzi á Jómfrúnni og Múlanum Jazzklúbbi.
Árið 2019 gaf hún út sína fyrstu sólóplötu, Athvarf, og hlaut fyrir hana tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020. Hún gefur nú út aðra sólóplötu sína, sem að þessu sinni verður hreinræktuð, gamaldags jazzplata með heimabökuðum jazzlögum eftir Marínu sjálfa.
Platan kemur út í ágúst 2022 og verður hún gefin út á vínyl og geisladisk. Á Karolina Fund safnar Marína Ósk fyrir framleiðslunni á snertanlegum eintökum plötunnar og býður þar upp á alls kyns valmöguleika fyrir þá sem vilja styrkja útgáfuna, til dæmis söngtíma, stofutónleika og svokölluð *einstök eintök* af vínyl-plötum. Platan kemur út hjá sænska plötufyrirtækinu TengTones og verða útgáfutónleikar haldnir á Jazzhátíð Reykjavíkur 2022 í Hörpu.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef einbeitt mér að jazzinum síðustu ár og á námsárum mínum í Amsterdam og í Stokkhólmi byrjaði ég að hlusta rosalega mikið á gamlan jazz frá 50’s og 60’s tímabilum síðustu aldar. Þar fann ég tónlist sem átti rosalega vel við mig og eftir mikla hlustun, grúsk og stúderingar fór ég á flug í lagasmíðum.
Ég byrjaði að semja lög í sama stíl og þessi gömlu jazzlög sem ég var að hlusta á, svipuð lögunum sem Frank Sinatra og Ella Fitzgerald sungu, og úr varð þessi plata, One Evening in July. Hún mun innihalda 8 lög, 7 nýbökuð og eina ábreiðu af lagi sem hefur fylgt mér lengi sem jazzsöngkonu. Tónlistin er hlýleg, rómantísk og dálítið gamaldags hljómandi. Ég ákvað strax að gefa plötuna út á föstu formi en ég bókstaflega elska vínyl-plötur og finnst afar notalegt að setja plötu á fóninn, hlusta á brakið og brestina og þessa hlýlegu nálægð við upptökuna og listamanninn, það er alveg einstakt,“ segir hún.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Ég er í raun að þreyta frumraun mína í jazzlagasmíðum og er afar spennt að kynna þá tónlist fyrir heiminum. Þar sem tónlistin er gamaldags í eðli sínu, þó að hún beri með sér nútímalega nálgun, þá fannst mér tilvalið að hafa upptökurnar og útsetningarnar dálítið gamaldags líka; taka upp „live“ og leyfa þessu dálítið að gerast í hljóðverinu. Bandið sem spilar á plötunni heitir Marína Ósk Kvartett og inniheldur tvo dúetta; annars vegar mig og kærastann minn, gítarleikarann Mikael Mána Ásmundsson og hinsvegar sænsku jazzbræðurna frá Uppsala, Johan og Erik Tengholm, en þeir leika á kontrabassa og trompet. Þessi hópur á það sameiginlegt að elska þennan gamla, notalega jazz og að spila tónlist í þeim stíl.“
Marína Ósk segist ekki hafa getað fengið betra fólk með sér. „Þeir eru æðislegir þessi drengir. Við tókum upp í hljóðveri í Stokkhólmi og ákváðum að gera það „live”; allir í sama rými og allir taka upp á sama tíma. Ekkert of mikið útsett og aldrei að vita hvað gerist í augnablikinu. Hlusti maður á gamlar jazzplötur má heyra ýmislegt sem eflaust væri klippt út í dag, svo sem lítil mistök hér og þar, brak í gólfi eða ræskingar. Mér finnst þetta svo heillandi að ég vildi gera það sama. Við gerðum því ekkert yfirspil, engar stórkostlegar klippingar og leyfðum tónlistinni dálítið að stjórna ferðinni. Á plötunni fær hlustandinn því að heyra heilar tökur sem hljóma svo gott sem nákvæmlega eins og þær hljómuðu þegar ýtt var á „rec“-takkann í hljóðverinu.“
Hún segir að þar sem hún sé mikill vínylplötuaðdáandi þá hafi henni fundist tilvalið að gera eitthvað skemmtilegt í kringum það. „Í samráði við plötufyrirtækið mitt, TengTones, ákváðum við að prenta einungis 100 eintök af vínyl-plötunum og 150 eintök af geisladiskum. Mér datt svo í hug að láta hluta vínylsins verða að einhverju sérstöku og þá kom hugmyndin um *einstök eintök* í kollinn, en þau eintök verða bara 50 talsins og aðeins í boði í söfnuninni á Karolinafund. Hvert eintak verður númerað og því mun fylgja eitthvað persónulegt, beint frá mér til þess sem eintakið kaupir. Ég hef haldið því leyndu hvað það verður og læt það bara koma á óvart, en get þó sagt að það verður fallegt, einlægt og jafnvel krúttlegt.“
Marína Ósk ákvað svo að hafa fleiri möguleika í boði fyrir þá sem eiga kannski ekki plötuspilara en vilja taka þátt í að styðja við íslenska tónlist. „Sem dæmi er hægt að forpanta plötuna á geisladisk, kaupa söngtíma hjá mér á vinaprís, en ég elska að kenna, og svo eru einnig í boði stofutónleikar með meðleikara. Svo má auðvitað styðja við verkefnið án snertanlegra verðlauna og styrkja þannig útgáfuna.
Ég hlakka mikið til að koma þessari plötu út í heiminn og vona að tónlistin rati í eyru þeirra sem myndu njóta hennar,“ segir hún að lokum.